13. Danmörk – Sórey & Ringsted

Borgarrölt
Sorø klosterkirke, Sjælland

Sorø klosterkirke

Við snúum til baka til Slagelse og finnum þar A1/E66, sem liggur til Kaupmannahafnar, um bæina Sórey og Ringsted. Fyrsti hlutinn, til Sórey, er 15 km. Við stönzum í borgarmiðju á Torvet, við hlið nunnuklaustursins og förum yfir götuna til að fá okkur síðbúið hádegissnarl í bakaríinu.

Síðan förum við um hliðið inn í stærstu nunnuklausturkirkju Danmerkur. Það er sistersíanskt og stofnað 1160-70 að undirlagi þjóðhetjunnar og erkibiskupsins Absalons, sem er grafinn að kórbaki eins og önnur þjóðhetja, Valdemar Atterdag, og nokkrir aðrir konungar.

Við röltum líka niður að vatninu í fögru umhverfi, sem hentar til gönguferða. Hluti garðsins, nálægt vatninu vinstra megin, er í enskum stíl.

Ringsted kirke, Sjælland

Ringsted kirke

Frá Sórey eru um 16 km sama veg til Ringsted. Þar ökum við til bæjarmiðju, þar sem Benedikts-reglu-kirkjan, helguð Sankt Bendt, leynir sér ekki. Hún er í rómönskum stíl, eitt allra fyrstu múrsteinshúsa Danmerkur. Gotneska ívafinu var bætt við eftir eldsvoða 1241. Í kirkjunni eru yfir 20 konungagrafir.

Nú snúum við bílnum síðustu 60 km til höfuðborgarinnar, Kaupmannahafnar, þar sem við hófum þessa ferð um sveitir, garða, þorp, bæi, kirkjur, söfn, hallir og kastala Danmerkur, um sögu hennar, rómantík hennar, “huggu” hennar.

Við erum reiðubúin að fara í aðra slíka ferð. Og við skiljum bókarefnið, Kaupmannahöfn, betur en áður.

Úti er ævintýri.