3. Búðir – Jermyn Street

Borgarrölt
Christie, London

Christie

Christie´s

Hér beygjum við til hægri inn King Street. Þar á nr. 8 er annað af tveimur heimsþekktum uppboðsfyrirtækjum í London, Christie´s. Á mánudögum eru yfirleitt seldir leirmunir og postulín, á þriðjudögum teikningar, mynt, gler og forngripir, á miðvikudögum skartgripir, bækur og vopn, á fimmtudögum húsmunir og vín og á föstudögum málverk. Uppboðin byrja yfirleitt kl. 11. Munirnir eru oftast til sýnis í tvo daga á undan.

Turnbull & Asser

Turnbull & Asser, London

Turnbull & Asser

Við snúum til baka og förum til hægri Bury Street upp að Jermyn Street, sem er aðalgata karlabúða í borginni. Þar á horninu er vinstra megin Turnbull & Asser á nr. 71 og hægra megin Hilditch & Key, báðar skyrtubúðir, hin síðarnefnda einnig fyrir konur. Turnbull & Asser selur bæði tilbúnar og sérskornar skyrtur, sem þá þarf að bíða eftir í sex vikur. Búðin tollir vel í tízkunni, þótt hún sé síðan 1885. Bæði þjónusta og verð er uppi í skýjunum.

 

 

 

Floris

Floris, London

Floris

Við göngum austur Jermyn Street og komum fljótlega að Floris á nr. 89, hægra megin götunnar. Það er meira en 250 ára gömul ilmvatnabúð frá 1730. Allir hafa efni á að kaupa hér baðsalt til að nota tækifærið til að svipast um í einni frægustu ilmvatnabúð heims. Mundu, að Chanel og aðrir frá París eru bara nýgræðingar frá 19. og 20. öld. Þetta er notaleg og auðvitað sérstaklega ilmþrungin verzlun.

 

 

 

 

Paxton & Whitfield

Paxton & Whitfield, London

Paxton & Whitfield

Aðeins fjær og sömu megin götunnar, á nr. 93, er Paxton & Whitfield, frægasta og skemmtilegasta ostabúð borgarinnar, starfrækt frá lokum átjándu aldar. Hér fást beztu brezku ostarnir, bæði stilton og cheddar, auk 300 annarra tegunda úr öllum heimshornum. Þeir selja ostinn bæði í stórum skömmtum og litlum sneiðum. Viðskiptavinir eru hvattir til að smakka. Ef þeir eiga ekki umbeðinn ost, útvega þeir hann innan tíu daga.

Næstu skref