Þjóðleiðir

Vatnsleysuheiði

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Kúagerði á Vatnsleysuströnd til Selsvalla.

Á völlunum er fagurt umhverfi og útsýni til Keilis, Hraunsels-Vatnsfells og Driffells.

Förum frá Kúagerði suður Þórustaðastíg upp á Vatnsleysuheiði. Síðan austan Keilis og Driffells og að Selsvöllum.

9,5 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Vatnsleysuströnd, Snókafell, Sandakravegur, Skógfell, Stapafell, Einiberjahóll.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Vatnshlíð

Frá Einarsstöðum í Reykjadal um Vatnshlíð og Vestmannsvatn að Hraunsrétt í Aðaldal.

Skógurinn í Vatnshlíð hefur mjög látið á sjá, enda ekki friðaður.

Förum frá Einarsstöðum austur yfir sléttlendið, yfir Reykjadalsá og upp á þjóðveg 846. Við förum með þeim vegi til norðurs að Ökrum, þar sem við förum áfram með fjallshlíðinni ofan við Halldórsstaði. Síðan beint áfram norður Vatnshlíð meðfram Vestmannsvatni að austanverðu, um hlað í Fagranesi og áfram heimreið að þjóðvegi 854. Við förum austur þann veg um einn kílómetra og síðan norður um Fögrufit að Þúfuvaði á Laxá í Aðaldal. Handan árinnar förum við norðaustur að Hraunsrétt.

13,5 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Hvammsheiði, Nafarvað.
Nálægar leiðir: Kinnarfell, Fljótsheiði, Heiðarsel, Máskot.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Vatnsfjörður

Frá Hörgshlíð í Mjóafirði til Vatnsfjarðar við Ísafjarðardjúp.

Einnig er hægt að fara austan Neðra-Selvatns og vestan Fremra-Selvatns. Frá norðausturhorni Fremra-Selvatns er hægt að ganga vestur með Karlmannaá niður í Mjóafjörð.

Förum frá Hörgshlíð norðaustur á Hörgshlíðarfjall í 200 metra hæð og svo um Hörgshlíðardal austan við Fremra-Selvatn. Síðan vestan við Neðra-Selvatn, norður Vatnsfjarðardal og um Skyrgeil að Vatnsfirði.

12,8 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Eyrarfjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Vatnsendaskarð

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Árdal í Ólafsfirði um Vatnsendaskarð til Héðinsfjarðarvatns.

Byrjum við þjóðveg 803í Árdal. Förum vestur Árdal og síðan meðfram Rauðskarðsá, fyrst til norðvesturs og síðan til vesturs. Úr dalbotninum förum við norður í Vatnsendaskarð í 640 metra hæð og þaðan niður í Vatnsendadal, fyrst norður og síðan vestur að Vatnsenda við Héðinsfjarðarvatn.

7,7 km
Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Rauðskarð, Fossabrekkur, Sandskarð, Drangar, Hvanndalir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Vatnsdalur

Frá Þorvaldsstöðum í Norðurdal um Vatnsdal til Vatnsskóga í Skriððdal.

Í Vatnsdal eru gróf berghlaup.

Förum frá Þorvaldsstöðum norðvestur Norðurdal, þangað til hann klofnar til norðurs í Stafsheiðardal, þar sem er leið til Skriðdals, og til vesturs í Vatnsdal. Förum vestur Vatnsdal og síðan vestnorðvestur um vatnaskil í dalnum í 630 metra hæð. Að lokum áfram norðvestur Vatnsdal að Vatnsskógum.

17,2 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Stafdalur, Launárskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Breiddalur.is

Vatnsás

Frá Konungsstöðum í Patreksfirði um Vatnsás og Vatnadali til Sauðlauksdals.

Sauðlauksdalur var höfuðból um aldir. Björn Halldórsson prestur ræktaði þar fyrstur manna kartöflur á 18. öld. Þar eru líka elzu minjar um heftun á sandfoki. Varnargarður heitir þar Ranglátur, enda voru bændur skikkaðir til að hlaða hann á bezta heyskapartíma.

Förum frá eyðibýlinu Konungsstöðum suðvestur upp Vatnsás, á veg 614 á Sauðlauksdalsfjalli í 300 metra hæð. Förum yfir veginn og síðan norðvestur fyrir sunnan Víðisvatn og norðvestur með Hagagilsá niður í Sauðlauksdal. Loks norður að bænum Sauðlauksdal vestan við Sauðlauksdalsvatn.

8,7 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Dalverpisvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Vatnaöxl

Frá Gauksstöðum á Skaga suður um Vatnaöxl að Veðramótum við Gönguskörð í Skagafirði.

Þetta er löng leið suður-norður um fjallgarðinn milli Skagafjarðar og Húnavatnssýslu.

Förum frá Gauksstöðum suður með Bjarnarfelli að austanverðu og vestan við Bjarnarvötn. Beygjum suðvestur fyrir Réttarfell og förum suðvestur um Þverárkvíslar í Engjadal vestan við Sandfell. Við förum suðaustur með Sandfelli og þvert yfir þjóðveg 744. Síðan suður Skálahnjúksdal. Áfram til suðurs austan við Fannstóð og síðan vestan við Skálarhnjúk og Vatnsöxl. Þar er fjallaskálinn Trölli. Beygjum síðan til austurs fyrir sunnan Vatnsöxl og förum norðaustur Kálfárdal niður að þjóðvegi 744 hjá Veðramótum.

34,7 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Skálar:
Trölli: N65 42.603 W19 53.163.

Nálægar leiðir: Litla-Vatnsskarð, Kirkjuskarð, Balaskarð, Hallárdalur, Refshali.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Vatnajökulsvegur

Frá Grágæsadal um Hvannalindir og kvíslar Jökulsár á Fjöllum að Gæsavatnaleið austan við Urðarháls.

Í lok átjándu aldar var reynt að finna leið milli Austurlands og Suðurlands. Fyrstur varð Pétur Brynjólfsson árin 1794 og 1797 og reið þá fyrir sunnan Hvannalindir og varð þeirra ekki var. Pétur Pétursson fór leiðina 1833 og var kunnugt um ferð nafna síns. Fann hann Hvannalindir í leiðinni. Síðan reið Björn Gunnlaugsson kortagerðamaður hér um 1838-1839 og færði Vatnajökulsveg inn á kort sitt. Það var samt ekki fyrr en 1880, að menn voru aftur á ferð á þessum slóðum. Biskupaleið, sem sögur voru um, reyndust vera miklu norðar, milli Kerlingardyngju og Ketildyngju. Vatnajökulsvegur hefur allar aldir verið fáfarinn og nánast óþekktur, enda erfiður vegur um slóðir, þar sem allra veðra er von.

Förum frá Einarsskála í Grágæsadal suður með Grágæsavatni vestanverðu að Kverká. Förum vestur yfir Kverká og síðan yfir Kreppu á hestfærum vöðum og síðan á jeppaslóð norður í skála í Hvannalindum. Förum þaðan eftir jeppaslóð suðvestur í Kverkhnjúkaskarð. Vestan skarðsins förum við vestnorðvestur yfir ótal kvíslar Jökulsár á Fjöllum og komum handan kvíslanna á jeppaslóð í Flæðum. Fylgjum henni suðvestur að Gæsavatnaleið austan við Urðarháls.

51,2 km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk
Athuga nýtt Holuhraun

Skálar:
Einarsskáli: N64 52.473 W16 11.640.
Hvannalindir: N64 53.300 W16 18.426.

Nálægir ferlar: Grágæsadalur
Nálægar leiðir: Hvannstóðsfjöll, Brúarjökull, Hvannalindir, Kverkfjöll, Gæsavötn, Ódáðahraun, Dyngjufjalladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélags Íslands

Vatnahjalli

Frá Hofsafrétti um Vatnahjalla að Torfufelli í Eyjafirði.

Frá mótum vegar úr byggð í Skagafirði til Laugafells og vegar norðan Hofsjökuls um Ingólfsskála. Þetta er hluti Eyfirðingavegar, sem lá af Kili og norður fyrir Hofsjökul til Eyjafjarðar.

Byrjum á Hofsafrétt á mótum vegar norðan úr byggð í Skagafirði til Laugafells og vegar norðan Hofsjökuls austur um Ingólfsskála. Förum þaðan austur í Hraunlæk og þaðan norður á Eyfirðingavað á Austari-Jökulsá. Frá vaðinu austur að Pollalæk og Eystri-Pollum og síðan norðaustur á mót vegar suður í Laugafell. Við höldum áfram norður og framhjá afleggjara vestur að Grána og Sesseljubúð. Leiðin liggur áfram norður framhjá fjallaskálanum Berglandi og síðan fyrir vestan Vatnahjalla og austan Urðarvötn í 920 metra hæð. Við Vatnahjalla sveigist leiðin til norðausturs. Síðan hjá vörðunni Sankti-Pétri á brekkubrún niður um Hafrárdal að þjóðvegi 821 í Eyjafirði. Við fylgjum þeim vegi norður að Torfufelli.

34,7 km
Eyjafjörður, Skagafjörður

Skálar:
Bergland: N65 11.424 W18 20.163.
Sesseljubúð: N65 06.700 W18 25.840.
Gráni: N65 06.704 W18 25.860.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hofsafrétt.
Nálægar leiðir: Nýjabæjarfjall, Laugafell, Eystripollar, Strompaleið, Gimbrafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Vatnaheiði

Frá Dal við Straumfjarðará til Helgafellssveitar.

Árið 1228 riðu Snorri Sturluson, Þorleifur Þórðarson, Þórður Sturluson og Böðvar Þórðarson norður heiðina til að ná völdum í Dölum úr höndum Sturlu Sighvatssonar og láta menn segjast í þing með Snorra.

Förum frá Dal norður að Seljafelli og síðan vestur og norðvestur með fellinu, nálægt þjóðvegi 56. Förum að austurjaðri Baulárvallavatns og síðan norðaustur á Kistu. Þaðan norðaustur að eyðibýlinu Selvöllum við Selvallavatn. Förum austan við vatnið og austan við Grákúlu að vegamótum þjóðvega 56 og 54 norðaustan við kúluna.

14,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Kerlingarskarð, Hraunsfjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Varnarbrekkur

Frá þjóðvegi 85 í Kelduhverfi um Fjöll og Varnarbrekkur að fjallaskálanum Sæluhúsmúla á Reykjaheiði.

Byrjum við þjóðveg 85 í Kelduhverfi, sunnan við Lónslón, hálfum kílómetra vestan við Lón. Þar liggur gamli Reykjaheiðarvegurinn suður með Framfjöllum, fyrst með Hólmafjalli og Stallfjalli, um bæinn Fjöll, síðan meðfram Nafarfjalli og Háskálafjalli. Þá um Áfanga og upp Varnarbrekkur vestan Þríhyrnings. Við suðurenda fjallgarðsins komum við að Sæluhúsmúla á Reykjaheiði, þar sem er fjallakofi í 290 metra hæð.

17,1 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Skálar:
Sæluhúsmúli: N65 57.686 W17 02.070.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Vatnadalur

Frá Gilsfjarðarbrekku í Gilsfirði um Vatnadal að Heiðarbæ í Steingrímsfirði.

Leiðin er kölluð Hallruni í Ferðabók Eggerts Ólafssonar. Ef menn fara ekki niður Vatnadal og Miðdal, heldur lenda of norðvestarlega, geta þeir lent á 600 metra hamrabrún Leiðaraxlar ofan dalsins. Sagt er, að þar hafi orðið stórslys fyrr á öldum. Átján útróðramenn úr Dölum hafi hrapað þar.

Förum frá Gilsfjarðarbrekku norður Brekkudal og sneiðing upp í Brekkufjall og norður yfir fjallið í 390 metra hæð. Norður af fjallinu og niður í Vatnadal. Norðnorðaustur eftir dalnum, milli Hraundalsmúla að vestan og Gestsstaðamúla að austan. Þar heitir dalurinn Miðdalur. Áfram norðnorðaustur með Miðdalsá að Heiðabæ.

21,3 km
Vestfirðir

Nálægir ferlar: Krossárdalur, Snartartunguheiði.
Nálægar leiðir: Steinadalsheiði, Tröllatunguheiði, Bæjardalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Valshamar

Frá Háskerðingsleið niður að Valshamri á Skógarströnd og aftur á Háskerðingsleið.

Á Valshamri leyndist haustið 1224 vígamaðurinn Aron Hjörleifsson í lambhúshlöðu á Valshamri fyrir Sturlu Sighvatssyni. Aron var sekur skógarmaður fyrir stuðning við Guðmund biskup Arason. Slapp hann naumlega undan flokki Sturlu og fór frá Valshamri suður Flatnahryggi og Flatnadal. Þar hvarf hann eftirreiðarmönnum í þoku og komst til móður sinnar á Syðra-Rauðamel.

Byrjum á Háskerðingsleið hjá Hrappsá á Skógarströnd. Förum þaðan austnorðaustur um Húsalæk og Sámsstaði að Valshamri. Þaðan suður yfir þjóðveg 54 að Háskerðingsleið suðaustan Kláffells.

5,7 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Kvistahryggur
Nálægar leiðir: Háskerðingur, Sátudalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Valbjarnarvellir

Frá Galtarholti í Norðurárdal að Valbjarnarvöllum á Mýrum.

Byrjum hjá þjóðvegi 1 við Stórafjallsveg norðan Galtarholts. Förum norður sumarhúsaveginn og síðan til norðvesturs fyrir sunnan sumarhúsin í Kálfhólum og norðvestur að Valbjarnarvöllum.

6,1 km
Borgarfjörður-Mýrar

Jeppafært

Nálægar leiðir: Gufá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Valafell

Frá fjallaskálanum í Áfangagili um Tagl og Valagjá að Landmannaleið.

Valagjá er risavaxin sprengigjá í stefnunni norðaustur-suðvestur, sem skerst inn í Valahnúk. Þarna eru úfið hraun og skarpir litir.

Förum frá fjallaskálanum í Áfangagili til norðvesturs norður fyrir Valafell og síðan austur að Tagli. Þaðan suðaustur að þverleið í Valagjá. Förum þá leið suðvestur um Valagjá í 500 metra hæð og síðan áfram suðvestur og síðast vestur á Landmannaleið undir Valahnjúkum.

23,5 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Áfangagil: N64 06.051 W19 34.499.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hraunin, Rangárbotnar, Rauðkembingar, Fjallabaksleið nyrðri, Sauðleysur, Dyngjur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort