Þjóðleiðir

Hafrafellsleið

Frá Sandfellshaga í Öxarfirði að Austara-Landi við Jökulsá.

Gott dæmi um greiða reiðleið um hlýlegt land með nokkrum skógi milli bæja utan jeppavega og heimreiða. Bílvegurinn um sveitina liggur nær Sandá, en reiðleiðin er nær fjöllunum Sandfelli og Hafrafelli, sem hér gnæfa brött í austri. Leiðin liggur unaðslega um kjarrlendi og birkiskóga við Brunná og síðan um þurrt heiðarland og lyngmóa. Eina fyrirstaðan er árgilið vestan við tún á Bjarnastöðum, sem reynist hestum nokkuð bratt.

Byrjum við réttina við þjóðveg 865 neðan við Sandfellshaga. Förum suður frá réttinni austan Skeggjastaðaár og upp með Brunná, um eyðibýlin Skeggjastaði og Lækjardal og síðan um Tunguhólma. Upp á þjóðveg 865 til Hafrafellstungu, um 200 metra vestur með þjóðveginum og síðan suður að Smjörhóli undir Hafrafelli. Þaðan áfram suður á heiðina milli Smjörhóls og Bjarnastaða. Höldum áfram að girðingu um tún á Bjarnastöðum. Síðan vestur fyrir girðinguna, um bratt árgil og yfir heimreið til Bjarnastaða, áfram suður á þjóðveg 864 um Öxarfjörð. Förum hálfan annan kílómetra með veginum og síðan afleggjara til vesturs að Austara-Landi.

15,1 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Þverárhyrna, Öxarfjarðarheiði, Öxarfjörður, Hljóðaklettar, Hafursstaðir.
Nálægar leiðir: Urðir, Súlnafell, Hestatorfa.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hafrafell

Hringleið um Hafrafell og Borgarland milli Króksfjarðar og Berufjarðar.

Nesið er með mýrum, tjörnum og klettaborgum, fjölbreyttu fuglalífi og miklum gróðri.

Byrjum við þjóðveg 60 austan Skáldstaða í Berufirði. Förum jeppaslóð suðaustur að Hafrafelli og síðan norður fyrir fellið og suðsuðaustur með því að austanverðu. Síðan austan Hafrafellsvatns suður að Fálkhamri. Svo austan Háuborgar suður að Brandseyjarbjargi og út á nesodda við Bitranda á Hvíteyri. Síðan til vesturs fyrir sunnan Brandseyrarbjarg um Borgarland að Þegjandanausti. Síðan norður með vesturhlíð Brandseyjarbjargs og vestan við Hafrafellsvatn og Hafrafell norður að Skáldstöðum.

16,7 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Reykjanes, Laxárdalsheiði, Bæjardalsheiði, Vaðalfjöll, Vaðalfjallaheiði, Barmahlíð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hafnarskógur

Frá Súlunesi í Melasveit að Selseyri við Borgarfjarðarbrú.

Gæta þarf flóðs og fjöru í Narfastaðaósi.

Leið lá fyrrum frá Akranesi yfir Leirárvog á fjöru. Vel byggð brú úr grjóti og mold var á þessari leið úr Vogum á Akranesi og út á fjörur Grunnafjarðar. Var þá komið í land í Súlunesi og farnar norður fjörur til Hafnar eða farið upp með Leirá og yfir Skarðsheiði. Einnig var leið um Fiskilækjarmela til Hafnar. Hjá Fiskilæk var vönduð brú. Sjófang sóttu menn landveg út á Akranes ekki síður en út undir Jökul. Var þá ýmist farinn Skarðsheiðarvegur eða með Hafnarfjalli í gegnum Hafnarskóg, sem hér er lýst. Hún ekki farin með bílvegi.

Förum frá Eystra-Súlunesi suðvestur að Súlueyri og beygjum þar til norðvesturs í fjörunni. Förum þar neðan við sjávarhamra á fjöru og síðan um Belgsholtsnes og beint norður yfir Narfastaðaós að Höfn í Melasveit. Frá Höfn norðnorðaustur um Hafnarskóg og síðan austnorðaustur hjá hótel Venusi við Borgarfjarðarbrú. Þaðan liggur leið austur með gamla þjóðveginum inn í Andakíl.

20,4 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Katlavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hafnarskarð

Frá Steinólfsstöðum í Veiðileysufirði um Hafnarskarð að Höfn í Hornvík.

Vandlega vörðuð og auðfarin leið. Undir Lónhorni þarf þó að sæta sjávarföllum. Í Árbók FÍ 1994 segir: “Vörðurnar byrjast ofan við fyrsta hjallann sem upp er farið. Stór björg verða á leiðinni og um miðja vegu upp í skarðið er Líkaklettur, allstór; undir honum eiga átján menn að hafa orðið úti. Áin fossar fram á hægri hönd en til vinstri handar skaga sundurslitin klettabeltin í Lónhorni sunnanverðu, efst ber mjóar strýtur við loft og örninn er á veiðum yfir höfði manns. Alla leið upp í skarðið er þægilegur smáhækkandi á grjótholtum og mosatóm. Þeir sem fyrstir ganga Hafnarskarð á vorin fylgja förum tófunnar í fönninni í skarðinu.”

Förum frá Steinólfsstöðum austur með firðinum undir Lónhorni og inn í fjarðarbotn. Síðan norðaustur fyrir vestan Veiðileysuá upp í Hafnarskarð í 520 metra hæð. Síðan áfram niður með Víðisá vestanverðri norðaustur að Höfn í Hornvík.

12,0 km
Vestfirðir

Skálar:
Hornvík: N66 25.666 W22 29.440.

Nálægar leiðir: Hlöðuvíkurskarð, Atlaskarð, Kýrskarð, Djúpahlíð, Töfluskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hafnarfjall

Frá Breiðuvík um Hafnarfjall til Örlygshafnar í Patreksfirði.

Breiðavík er þekktust fyrir misheppnað uppeldisheimili drengja, sem þar var. Á Hnjóti í Örlygshöfn er minjasafn Egils Ólafssonar um búskap og sjósókn fyrri alda, einnig gamlir bátar og flugminjar. Þar er minnisvarði um þá, sem hafa farizt við Látrabjarg.

Förum frá Breiðuvík norðaustur að fjallinu Breið og upp það til norðurs. Þaðan þvert austur um Hafnarfjall í 320 metra hæð. Um sneiðinga vestur af fjallinu sunnan Geitagils í Örlygshöfn að mótum þjóðvega 615 og 612 í Örlygshöfn.

8,7 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Stæðavegur, Brúðgumaskarð, Breiðavíkurháls, Kóngshæð, Tunguheiði, Látraháls, Miklidalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Haffjarðareyjar

Frá Stóra-Hrauni um Haffjarðareyjar að Skógarnesi.

Þetta er ekki leið fyrir fótgangandi. Nú fara menn hér bara um á hestum um fjöru. En á mektarárum fyrri tíðar fóru menn hér um á bátum á flóði. Stundum myndast uppistöðulón á leirunum og þarf þá að krækja fyrir þau. Á stöku stað eru sandbleytur nálægt leiðinni. Gætið ykkar, ef leirinn fer að dúa. Snúið þá við og leitið betra færis.

Í kaþólskum sið voru Haffjarðareyjar stórbýli og kirkjustaður. Suðurey, Haffjarðarey, Bæjarey og Útey. Lítið sér nú eftir af þeirri fortíð eyjanna fjögurra milli Haffjarðarár og Skógarness, aðeins bæjarhóllinn er áberandi í landslaginu. Ekki er sýnilegur gamli kirkjugarðurinn í Bæjarey. Þar fann Vilhjálmur Stefánsson landkönnuður margar hauskúpur, alls engar með tannskemmdum. Byggð hélst í eyjunum fram á fyrsta fjórðung átjándu aldar, en þá fóru þær endanlega í eyði vegna sjávargangs og landbrots. Túngresi er enn töluvert í Bæjarey, en undirlagið hefur breyzt í mosa.

Förum frá Stóra-Hrauni örstutt vestur fjöruna og síðan út á Haffjarðarós fyrir sunnan klettinn í ánni. Þar förum við yfir Haffjarðará á Bænahúsavaði og síðan til austurs fyrir utan Kolviðarnes og Núpárnes. Við stefnum á Prestasker, örlítið suður frá vestri. Frá Prestaskeri förum við suðaustur að Suðurey og tökum land í norðurodda eyjarinnar. Förum síðan yfir eyjuna og niður á sjávarströndina. Fylgjum henni síðan til norðausturs í Haffjarðarey. Frá Haffjarðarey förum við aftur út í fjöruna og eftir henni í vesturenda Úteyjar. Förum síðan úr norðausturenda Úteyjar í sveig austur fyrir Bæjarey í Prestasker að nýju. Þaðan förum við svo vestur að sumarbústað við vík í ströndina norðan Þórishamars. Tökum land norðanmegin í víkinni, förum upp á heimreiðina til Skógarness og fylgjum henni í Skógarnes. Einnig er hægt að taka land í Hausthúsum.

22,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Saltnesáll, Haffjarðará, Flatnavegur, Skógarnesfjörur, Straumfjarðará, Löngusker.
Nálægar leiðir: Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Haffjarðará

Frá Stóra-Hrauni að Skógarnesi.

Þetta er ekki leið fyrir fótgangandi. Nú fara menn hér bara um á hestum um fjöru. En á mektarárum fyrri tíðar fóru menn hér um á bátum á flóði. Stundum myndast uppistöðulón á leirunum og þarf þá að krækja fyrir þau. Á stöku stað eru sandbleytur nálægt leiðinni. Gætið ykkar, ef leirinn fer að dúa. Snúið þá við og leitið betra færis.

Þetta er miðhlutinn af Löngufjörum, samfelldur skeiðvöllur á leirum milli sögufrægra bæja. Í Skógarnesi bjó Æri-Tobbi. Þegar hann var spurður til vegar um leiðina á Löngufjörum, kvað hann: “Smátt vill ganga smíðið á / í smiðjunni þó ég glamri, / þið skulið stefna Eldborg á / undir Þórishamri.” Þeir drukknuðu allir, sem hlýddu þessu ráði. Betra er að fylgja ráðum, sem hér eru gefin og GPS-ferlum, sem hér fylgja. Þurfa menn þá bara að krækja fyrir uppistöðulón og forðast sandbleytur.

Förum frá Stóra-Hrauni rétt vestur fjöruna og síðan út á Haffjarðarós fyrir sunnan klettinn í ánni. Þar förum við yfir Haffjarðará á djúpu Bænahúsavaði með góðum botni og síðan til austurs fyrir utan Kolviðarnes og Núpárnes. Við stefnum á Prestasker, örlítið suður frá vestri. Frá skerinu förum við vestur að sumarbústað við vík í ströndina norðan Þórishamars. Tökum land norðanmegin í víkinni, norðan við Þórishamar þann, sem Æri-Tobbi orti um. Við förum upp á heimreiðina til Skógarness og fylgjum henni í Skógarnes. Einnig er hægt að taka land í Hausthúsum.

10,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Saltnesáll, Haffjarðareyjar, Flatnavegur, Skógarnesfjörur, Straumfjarðará, Löngusker.
Nálægar leiðir: Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Gönguskarð vestra

Frá Akureyrarflugvelli um Gönguskarð að Sörlastöðum í Fnjóskadal.

Förum frá Akureyrarflugvelli austur yfir gömlu brýrnar á Eyjafjarðará og síðan suður með ánni að austan. Svo suðaustur með Þverá og yfir Þverá suðaustur í Garðsárdal, inn dalinn að Gönguskarði til austurs. förum austur, suður og aftur austur um Gönguskarð yfir í Bleiksmýrardal. Þaðan norður dalinn og síðan norður fyrir Tunguöxl, austsuðaustur að Sörlastöðum.

38,5 km
Eyjafjörður, Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sörlastaðir: N65 33.420 W17 40.400.

Nálægir ferlar: Bíldsárskarð, Fnjóskadalur.
Nálægar leiðir: Gásasandur, Bleiksmýrardalur, Melgerðismelar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Gönguskarð

Frá Torfunesi í Köldukinn að Þverárrétt í Fnjóskadal.

Gönguskarð er vel gróinn eyðidalur í 400 metra hæð, sem einu sinni var samgönguleið milli Kinnar og Fnjóskadals, en hefur orðið að víkja fyrir Ljósavatnsskarði, sem er nokkru sunnar í fjallgarðinum og miklu lægra. Fyrir bragðið er mikil kyrrð í Gönguskarði. Það er ákjósanleg leið fyrir þá, sem ekki vilja verða fyrir áreiti. Gott er að eiga kost á slíkum leiðum á ferðum milli sýslna og landshluta. Skarðið er hluti af leyndum heimi þriggja dala úr augsýn frá byggð, Gönguskarðs, Seljadals og Finnsstaðadals. Á nítjándu öld fóru menn með skreiðarlestir um Gönguskarð á hverju hausti. Leiðin er vörðuð og sjást sumar vörðurnar enn. Skarðið er vel gróið og var heyjað fyrr á öldum, en getur orðið illviðrasamt að vetrarlagi.

Byrjum við Torfunes í Köldukinn. Einnig er hægt að fara upp í skarðið frá öðrum nálægum bæjum í Kinn. Förum upp og norður fyrir girðingu, sem er ofan við Háls. Komum þar á dráttarvélaslóð frá Hálsi og fylgjum henni upp í skarðið milli Staðarfjalls í norðri og Hrappsstaðaaxlar í suðri. Við erum þar í 400 metra hæð. Förum síðan beint vestur í hið eiginlega Gönguskarð sunnan undir Skollahnjúki, þar sem við náum 420 metra hæð. Við förum skarðið að sunnanverðu, sunnan við tjarnir í Tjarnhverfi. Skarðið liggur síðan norðan við Grænahnjúk og Gönguskarðsöxl og sunnan við Engjafjall. Síðan förum við úr skarðinu niður í Selland eftir dráttarvélaslóð. Förum upp að Garðsfelli og síðan sunnan við fellið, um Háls og niður brekkurnar að þjóðvegi 835, þar sem hann mætir jeppavegi upp á Flateyjardalsheiði. Við förum yfir þjóðveginn austan Þverár að Þverárrétt / Lokastaðarétt á bakka Fnjóskár.

20,7 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Hvammsheiði, Skuggabjörg.
Nálægar leiðir: Kinnarfell, Sandsbæir, Finnstaðadalur, Uxaskarð, Flateyjardalsheiði, Draflastaðafjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Gönguskarð eystra

Frá Unaósi á Fljótsdalshéraði um Gönguskarð til Njarðvíkur.

Þetta var aðalleiðin milli Fljótsdalshéraðs og Njarðvíkur og Borgarfjarðar áður en bílvegur var lagður um Vatnsskarð .

Förum frá Unaósi norðaustur og út með Selfljóti og síðan austur á brekkurnar. Svo til suðausturs fyrir vesturenda Smátindafjalls í 420 metra hæð í Gönguskarði. Áfram suðaustur um Göngudal meðfram Göngudalsá. Síðan austur og niður hlíðar Kerlingarfjalls til Njarðvíkur. Að lokum suður yfir dalinn að þjóðvegi 94.

9,2 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Tröllabotnar, Grjótdalsvarp.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Göngumannaskörð

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Bolungarvík á Hornströndum til Barðsvíkur á Hornströndum.

Útsýni er gott úr skarðinu. Þaðan sést vel að Hornbjargi og í forgrunni sjást handan Smiðjuvíkurháls grasi vaxnir og mýrlendir Almenningar.

Förum frá sæluhúsinu í Bolungarvík þvert norður yfir Bolungarvík að Seli. Þaðan norður um bratta og torsótta brekku upp á Bæjarhjalla og síðan norður á Selhjalla, sem sumir eru brattir. Við förum norður í Skarðsfjall upp í Göngumannaskörð í 350 metra hæð. Við förum um eystra og lægra skarðið. Þaðan strax bratt niður í Barðsvík. Þar er gistihús úti við sjó.

5,6 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Skálar:
Bolungarvík: N66 18.143 W22 14.147.
Barðsvík: N66 20.117 W22 14.000.

Nálægar leiðir: Bolungarvíkurbjarg, Bolungarvíkurheiði, Sópandi, Hornstrandir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Göngumannaskarð

Frá Bæ í Trékyllisvík um Göngumannaskarð að Selvík í Reykjarfirði.

Byrjum við þjóðveg 643 hjá Bæ í Trékyllisvík. Förum suður og síðan suðsuðvestur í Nónhyrnu, síðan um Göngumannaskarð. Og loks niður og suður Reykjafjarðarfjall innan við Selvík, á veg 643 í Reykjafirði.

5,3 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Naustavíkurskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Göngudalsskarð

Frá Tjaldanesi í Arnarfirði um Göngudalsskarð að Kirkjubóli í Dýrafirði.

Þessi leið er ekki fær hestum. Litlar vörður í dalnum auðvelda ferð. Tjaldanesdalur er leif af elztu megineldstöð landsins, Tjaldaneseldstöðinni, og sér þess merki í gabbró og litskrúðugu líparíti. Hér er mikið berjaland. Mikið útsýni er í Göngudalsskarði.

Förum frá Tjaldanesi norðnorðvestur Tjaldanesdal vestan árinnar. Þar sem dalbotninn sveigist til vesturs förum við áfram norður og um brattar skriður upp í Göngudalsskarð í 580 metra hæð. Síðan förum við norðnorðvestur og niður Göngudal og síðan norður Kirkjubólsdal eftir vegarslóða að Kirkjubóli í Dýrafirði.

12,0 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Lokinhamrar, Álftamýrarheiði, Glámuheiði, Sandafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Gæsavötn

Farið frá krossgötum Bárðargötu og Nýjadalsleiðar sunnan Trölladyngju um Gæsavötn til Öskju.

Gæsavötn eru tvö grunn vötn í 920 metra hæð með háfjallagróðri umhverfis, vin í melöldum. Skammt austur af þeim fundust kofarústir í 1214 metra hæð. Steinþór Sigurðsson lýsir þeim svo: “Kofinn er hlaðinn upp úr móbergi, hringlagaður, rúmlega 2 metrar í þvermál að neðan, en hefur verið hlaðinn upp í strýtu. Þakið er fallið niður og kofinn auk þess hálffullur af sandi. Dyrnar snúa að vötnunum og er gott útsýni úr þeim yfir alla sléttuna.” Svo hrjóstrugt er þarna, að tæplega hefur þetta verið vistarvera útilegumanna. Hugsanlega hafa ferðamenn á Vatnajökulsvegi hlaðið þetta til að hafa skjól á langri og kuldalegri leið. Trölladyngja er stærsta gosdynja landsins, rís 500-600 metra yfir umhverfið. Víðáttumikil hraun hafa runnið frá henni. Í Urðarhálsi er gífurlega víður gígur, 1100 og 800 metrar að þvermáli og 170 metra djúpur.

Byrjum á krossgötum Bárðargötu og Nýjadalsleiðar. Förum suðaustur Gæsavatnaleið og síðan til austur milli Trölladyngju að norðanverðu og Dyngjujökuls að sunnanverðu. Förum til austurs sunnan við Dyngjuháls, um fjallaskálann í Kistufelli og sunnan við Urðarháls, austur í Flæður Jökulsár á Fjöllum. Förum þaðan norðaustur að Dyngjufjöllum, þar sem við komum að leiðinni úr Dyngjufjalladal austur í Öskju.

49,3 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Gæsavötn: N64 46.723 W17 30.792.
Kistufell: N64 48.663 W17 13.992.

Jeppafært
Athugið gosið í Holuhrauni.

Nálægir ferlar: Öxnadalsdrög, Vonarskarð.
Nálægar leiðir: Kambsfell, Ódáðahraun, Dyngjufjalladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Gýgjarskarð

Frá Norðurbotni í Tálknafirði um Gýgjarskarð að Þernudal í Fossfirði.

Byrjum við þjóðveg 63 hjá Norðurbotni í Tálknafirði. Förum austur og upp Norðurfjall norðan dalsins og síðan áfram austur í Gýgjarskarð. Þar skiptast leiðir. Önnur liggur niður í Dufansdal, en hin eystri liggur austur um Foldir niður með Þernuá í Þernudal að þjóðvegi 63 í Fossfirði.

10,3 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Dufansdalur, Miðvörðuheiði, Botnaheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jóhann Svavarsson