Haffjarðareyjar

Frá Stóra-Hrauni um Haffjarðareyjar að Skógarnesi.

Þetta er ekki leið fyrir fótgangandi. Nú fara menn hér bara um á hestum um fjöru. En á mektarárum fyrri tíðar fóru menn hér um á bátum á flóði. Stundum myndast uppistöðulón á leirunum og þarf þá að krækja fyrir þau. Á stöku stað eru sandbleytur nálægt leiðinni. Gætið ykkar, ef leirinn fer að dúa. Snúið þá við og leitið betra færis.

Í kaþólskum sið voru Haffjarðareyjar stórbýli og kirkjustaður. Suðurey, Haffjarðarey, Bæjarey og Útey. Lítið sér nú eftir af þeirri fortíð eyjanna fjögurra milli Haffjarðarár og Skógarness, aðeins bæjarhóllinn er áberandi í landslaginu. Ekki er sýnilegur gamli kirkjugarðurinn í Bæjarey. Þar fann Vilhjálmur Stefánsson landkönnuður margar hauskúpur, alls engar með tannskemmdum. Byggð hélst í eyjunum fram á fyrsta fjórðung átjándu aldar, en þá fóru þær endanlega í eyði vegna sjávargangs og landbrots. Túngresi er enn töluvert í Bæjarey, en undirlagið hefur breyzt í mosa.

Förum frá Stóra-Hrauni örstutt vestur fjöruna og síðan út á Haffjarðarós fyrir sunnan klettinn í ánni. Þar förum við yfir Haffjarðará á Bænahúsavaði og síðan til austurs fyrir utan Kolviðarnes og Núpárnes. Við stefnum á Prestasker, örlítið suður frá vestri. Frá Prestaskeri förum við suðaustur að Suðurey og tökum land í norðurodda eyjarinnar. Förum síðan yfir eyjuna og niður á sjávarströndina. Fylgjum henni síðan til norðausturs í Haffjarðarey. Frá Haffjarðarey förum við aftur út í fjöruna og eftir henni í vesturenda Úteyjar. Förum síðan úr norðausturenda Úteyjar í sveig austur fyrir Bæjarey í Prestasker að nýju. Þaðan förum við svo vestur að sumarbústað við vík í ströndina norðan Þórishamars. Tökum land norðanmegin í víkinni, förum upp á heimreiðina til Skógarness og fylgjum henni í Skógarnes. Einnig er hægt að taka land í Hausthúsum.

22,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Saltnesáll, Haffjarðará, Flatnavegur, Skógarnesfjörur, Straumfjarðará, Löngusker.
Nálægar leiðir: Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson