Gönguskarð

Frá Torfunesi í Köldukinn að Þverárrétt í Fnjóskadal.

Gönguskarð er vel gróinn eyðidalur í 400 metra hæð, sem einu sinni var samgönguleið milli Kinnar og Fnjóskadals, en hefur orðið að víkja fyrir Ljósavatnsskarði, sem er nokkru sunnar í fjallgarðinum og miklu lægra. Fyrir bragðið er mikil kyrrð í Gönguskarði. Það er ákjósanleg leið fyrir þá, sem ekki vilja verða fyrir áreiti. Gott er að eiga kost á slíkum leiðum á ferðum milli sýslna og landshluta. Skarðið er hluti af leyndum heimi þriggja dala úr augsýn frá byggð, Gönguskarðs, Seljadals og Finnsstaðadals. Á nítjándu öld fóru menn með skreiðarlestir um Gönguskarð á hverju hausti. Leiðin er vörðuð og sjást sumar vörðurnar enn. Skarðið er vel gróið og var heyjað fyrr á öldum, en getur orðið illviðrasamt að vetrarlagi.

Byrjum við Torfunes í Köldukinn. Einnig er hægt að fara upp í skarðið frá öðrum nálægum bæjum í Kinn. Förum upp og norður fyrir girðingu, sem er ofan við Háls. Komum þar á dráttarvélaslóð frá Hálsi og fylgjum henni upp í skarðið milli Staðarfjalls í norðri og Hrappsstaðaaxlar í suðri. Við erum þar í 400 metra hæð. Förum síðan beint vestur í hið eiginlega Gönguskarð sunnan undir Skollahnjúki, þar sem við náum 420 metra hæð. Við förum skarðið að sunnanverðu, sunnan við tjarnir í Tjarnhverfi. Skarðið liggur síðan norðan við Grænahnjúk og Gönguskarðsöxl og sunnan við Engjafjall. Síðan förum við úr skarðinu niður í Selland eftir dráttarvélaslóð. Förum upp að Garðsfelli og síðan sunnan við fellið, um Háls og niður brekkurnar að þjóðvegi 835, þar sem hann mætir jeppavegi upp á Flateyjardalsheiði. Við förum yfir þjóðveginn austan Þverár að Þverárrétt / Lokastaðarétt á bakka Fnjóskár.

20,7 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Hvammsheiði, Skuggabjörg.
Nálægar leiðir: Kinnarfell, Sandsbæir, Finnstaðadalur, Uxaskarð, Flateyjardalsheiði, Draflastaðafjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson