Þjóðleiðir

Hamarsheiði

Frá Laxárdal að Hamarsheiði í Gnúpverjahreppi.

Þetta er gamla þjóðleiðin upp Gnúpverjahrepp yfir í Hrunamannahrepp. Auðveld leið um heiðar í Hreppum.

Förum frá Skáldabúðum fyrst með þjóðvegi 329 suður fyrir tún. Þaðan suðsuðaustur um heiðina, vestan við Vörðuása. um Stóra-Skyggni, yfir Tungá, síðan suður Hamarsheiði austan við Mástungnafjall að bænum Hamarsheiði.

6,1 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Kaldbaksvað, Laxárdalsvað.
Nálægar leiðir: Fossnes, Ásólfsstaðir, Þjórsárholt, Skáldabúðir, Illaver.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hamarsdalur

Frá Hamri í Hamarsfirði um Hamarsdal að fjallaskálanum í Hamarsdal.

Hét Sviðinshornadalur að fornu. Innan til í dalnum eru Hvannavellir, þá Hæðagil og síðan Hæðabrekkur. Er þar komið að Leiðagili, þar sem Flosaleið liggur um Sviðinshornahraun og síðan austan við Brattháls og Hornbrynju til Fljótsdalshéraðs.

Byrjum hjá vegi 1 við Hamar í Hamarsfirði. Förum inn Hamarsdal norðan Hamarsár um Hamarsskóga og Veturhús að fjallaskálanum Hamarsdal.

11,1 km
Austfirðir

Skálar:
Hamarsdalur: N64 41.447 W14 41.724.

Nálægar leiðir: Flosaleið, Bragðavalladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hallsteinsnes

Frá Þórisstöðum í Þorskafirði um Hallsteinsnes til Barms í Djúpafirði.

Deilur og dómsmál hafa risið um lagningu bílvegar um skóginn og fyrir nesið. Ef vegurinn verður lagður, fellur þetta niður sem reiðfær reiðleið.

Hallsteinsnes er víða viði vaxið, einkum í Teigsskógi. Skógurinn hefur á notið góðs af minnkandi beit og umgengni. Frá Teigsskógi liggur leiðin um fjörur, fitjar og sjávartjarnir að Grenitrésnesi. Þar á að hafa á landnámsöld rekið á land svo stórt tré að nægt hafi í öndvegissúlur fyrir marga bæi í nágrenninu. Hallsteinsnes er gamalt höfuðból. Þar bjó Hallsteinn sonur Þórólfs mostrarskeggs. Sonur Hallsteins var Þorsteinn surtur, sem bætti tímatalið með sumarauka.

Förum frá Þórisstöðum suðvestur um Hallsteinsnes og frægan Teigsskóg og svo vestur að Fótbaldri. Síðan norðaustur með ströndinni inn Djúpafjörð að Barmi í Djúpafirði og loks norðaustur og upp í leiðina um Hjallaháls.

14,7 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Þorskafjarðarheiði, Reykjanes, Gróunes, Kálfárgljúfur, Brekkufjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hallfreðargata

Frá Hróarstungu á Héraði í Hrafnkelsdal.

Leið þessi er svo óljós í Hrafnkötlu, að hún er ekki sýnd hér á korti. Hefur líklega legið um Fjórðungsháls og Krossvatnshæðir. Hún hefur ekki verið notuð síðari aldir, svo vitað sé. Gera má því skóna, að hún sé hin sama og nú er kölluð Aðalbólsleið, sjá þar. “Fljótsdalshérað er yfirferðarillt, grýtt mjög og blautt, en þó riðu þeir feðgar jafnan hvorir til annars, því að gott var í frændsemi þeirra. Hallfreði þótti sú leið torsótt og leitaði sér leiðar fyrir ofan fell þau, er standa í Fljótsdalshéraði. Fekk hann þar þurrari leið og lengri, og heitir þar Hallfreðargata. Þessa leið fara þeir einir, er kunnugastir eru um Fljótsdalshérað.” Svo segir í Hrafnkels sögu Freysgoða um ferðir hans og föður hans, Hallfreðar.

? km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Aðalbólsleið, Vegkvíslar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Hrafnkels saga

Hallárdalur

Frá Vindhæli í Húnaþingi um Skaga til Skíðastaða í Skagafirði.

Konrad Maurer reið dalinn frá Skagafirði til Húnaflóa árið 1858. Lýsir myndarlegum býlum í dalnum, sem nú eru öll í eyði, Þverá, Bergsstaðir, Sæunnarstaðir, Vakursstaðir og Bláland. Lýsir votlendi, þegar vestar dregur í dalnum, og forarmýrum: “Eitt sinn sökk Faxi minn upp í kvið og ég varð að snara mér að baki og það var ekki meira en svo, að grassvörðurinn héldi mér. Með hjálp Ólafs tókst að losa klárinn …”.

Förum frá Vindhæli austur Hallárdal. Til austurs sunnan við Bæjarfell, Hrossafell og Réttarfell í 220 metra hæð milli Réttarfells og Sandfells. Frá Sandfelli förum við austur á brún Laxárdals og síðast norðaustur og niður brekkurnar á þjóðveg 745 norðan Skíðastaða.

19,1 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Bjarnarfell, Vatnaöxl.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skillandaá

Frá Kaldbaksvaði á Stóru Laxá um Skillandaá að fjallaskálanum Hallarmúla.

Förum frá Kaldbaksvaði suðvestan undir Kaldbaksfjalli. Upp með Stóru-Laxá að austanverðu að girðingu austan jeppaslóðar. Um hlið á girðingunni og síðan austur og upp með Skillandaá að fjallaskálanum Hallarmúla.

16,5 km
Árnessýsla

Skálar:
Hallarmúli: N64 11.879 W19 58.877.

Nálægir ferlar: Kaldbaksvað, Laxárdalsvað, Sultarfit.
Nálægar leiðir: Þjórsárholt, Hamarsheiði, Fossnes, Skáldabúðir, Illaver, Kista.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hallarmúli

Frá þjóðvegi 329 við Skáldabúðir í Gnúpverjahreppi eftir jeppaslóð norður í fjallaskála Flóa- og Skeiðamanna í Hallarmúla.

Hluti dráttarvélaslóðar, sem liggur frá efstu bæjum og langsum eftir eyðilegum afrétti Skeiða- og Flóamanna um Ísahrygg og Sultarfit upp að Rjúpnafelli við Kerlingarfjöll. Í Hallarmúla má einnig komast utan bílvega eftir reiðslóð frá Kaldbak um Kaldbaksvað og um hlið á girðingu andspænis Hrunakróki.

Byrjum við þjóðveg 329 um 500 metra norðan Skáldabúða austan við Stöðulás og Kragaás. Fylgjum jeppaslóð til norðurs og förum eftir henni alla leið í Hallarmúla. Fyrst förum við milli Stóráss að vestan og Torfadalsáss að austan. Síðan vestan við Vatnsás. Næst sneiðum við upp brekkurnar til austurs fyrir sunnan Lambafell, förum austur í Innri-Kálfárfitjar og þar til norðausturs og norður fyrir Eystra-Lambafell yfir á Skillandsfitjar, þar sem er Hallarmúli.

16,5 km
Árnessýsla

Skálar:
Hallarmúli: N64 11.879 W19 58.877.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Kaldbaksvað, Laxárdalsvað, Sultarfit.
Nálægar leiðir: Þjórsárholt, Hamarsheiði, Fossnes, Skáldabúðir, Illaver, Kista.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hallaragata

Frá Hrafnabjörgum í Hörðudal um Hallaragötu til Miðdala.

Förum frá Hrafnabjörgum upp sneiðinga austur af bænum, norðaustur yfir hálsinn og síðan niður og vestur að Hamraendum, Skörðum eða Bæ í Miðdölum.

6,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Sópandaskarð, Svínbjúgur, Sanddalur.
Nálægar leiðir: Eyðisdalur, Miðá, Sauðafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Hagavík

Frá veginum “Milli hrauns og hlíða” til Hagavikur við Þingvallavatn.

Tilbrigði við Ölfusvatnsárleið.

Byrjum við mynni Hengladala í Fremstadal við Hengladalsá norðaustan Litla-Skarðsmýrarfjalls. Þangað liggur “vegur milli hrauns og hlíða” yfir Hellisheiði. Við förum norðaustur í Þverárdal. Þar beygjum við til norðnorðausturs úr dalnum um skarð vestan við Krossfjöll og síðan niður hálsana vestan við Mælifell og Sandfell. Síðan förum við austur yfir Lómatjarnarháls norðan við Lómatjörn og síðan niður með Bæjarfjalli að vestanverðu. Komum á Grafningsveg 360 rétt norðvestan eyðibýlisins Hagavíkur.

11,8 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Nálægir ferlar: Jórukleif.
Nálægar leiðir: Dyravegur, Dráttarhlíð, Ölfusvatnsá, Ölkelduháls, Hengladalaá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hagavatn

Frá Kjalvegi að Hagavatni.

Stórbrotin náttúra, þegar komið er að Einifelli og Jarlhettum. Jeppaslóð norðan Sandár.

Byrjum á Kjalvegi norðan við Sandá, þar sem er gamall fjallaskáli, Sandbúðahótel, í 260 metra hæð. Förum greiða jeppaslóð norðvestur sanda og mela og síðan upp í Sandvatnshlíðar í 350 metra hæð. Þar erum við skamma stund á hinum gamla Eyfirðingavegi frá Þingvöllum að Kjalvegi. Við förum vestur hlíðarnar og um skarðið milli Einifells að sunnanverðu og Jarlhetta að norðanverðu að skálanum Hagavatni í 350 metra hæð.

14,5 km
Árnessýsla

Skálar:
Sandbúðahótel: N64 24.160 W20 03.070.
Hagavatn: N64 27.753 W20 14.648.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fremstaver.
Nálægar leiðir: Farið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hagavaðall

Frá Haga í Hagavaðli um Steinbogavað að Rauðsdal í Hagavaðli.

Sæta þarf sjávarföllum á vaðinu og fara aðeins um háfjöru. Ofar eru Brandshólmavað, ekki fært lengur vegna sandbleytu, og efsta vaðið er svo Krosslækjarvað hjá Krossi. Hagi er eitt af helztu höfðingjasetrum landsins. Þar bjó á söguöld hinn djúpvitri Gestur Oddleifsson. Þar sátu sýslumenn og þar sat Guðmundur Scheving, sem var amtmaður Jörundar hundadagakonungs. Jón Thoroddsen sýslumaður skrifaði þar Pilt og stúlku. Synir hans voru Þorvaldur Thoroddsen, Skúli Thoroddsen og Sigurður Thoroddsen, faðir Gunnars Thoroddsen. Hákon Kristófersson alþingismaður bjó í Haga um miðja síðustu öld. Vaðall var þingstaður og kaupstaður, þar til Hagi tók við. Brandshólmi var skipalægið. Við Rauðsdal eru klettarnir Reiðskörð, þar sem Sveinn skotti var hengdur, sonur Axlar-Bjarnar. Þar heitir Skottagjóta.

Förum frá Haga austur Hagafit að Steinbogavaði milli Hvammsodda og Hagaodda, um skerið Steinboga. Síðan áfram vestur að þjóðvegi 62 við Rauðsdal.

9,2 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Lækjarskarð, Mjósund, Fossheiði, Miðvörðuheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jóhann Svavarsson

Hagavað

Frá Fossnesi eða Haga í Gnúpverjahreppi um Hagavað að Skarðsfjalli í Landsveit og Nautavaði.

Hestamenn fara frekar Nautavað undir öruggri leiðsögn Árna Ísleifssonar í Þjórsárholti. Eingöngu má fara Hagavað undir leiðsögn staðkunnugra manna og á traustum vatnahestum. Hafa þarf samband við Búrfellsvirkjun um vatnsmagn í Þjórsá.

Hagavað er miðvaðið á þessum slóðum, mjög breitt, en sjaldan farið, enda oft ófært. Sé það fært, er botninn hins vegar bæði sléttur og traustur. Förum frá Fossnesi niður á þjóðveg 32 og beygjum með honum austur að Haga. Rétt áður en við komum að bænum er slóð af veginum niður á eyrar Þjórsár. Þar förum við í sveig, fyrst suður og síðan suðvestur yfir Hagavað á Þjórsá. Síðan höldum við áfram eftir slóð sunnan árinnar, norður fyrir Skarðsfjall og áfram suður að Vaðvelli við Nautavað, sunnan Þjórsár.

13,1 km
Árnessýsla, Rangárvallasýsla

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Þjófagil, Ásólfsstaðir, Fossnes, Gaukshöfðavað, Skarðsfjall, Nautavað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hafursstaðir

Hringferð frá Austara-Landi að Hafursstöðum og til baka.

Bezt er að fara leiðina undir leiðsögn Halldórs bónda á Bjarnastöðum, því að sums staðar er tæpt farið við gljúfrin. Þegar þessu svæði verður bætt við þjóðgarðinn, er hætt við, að hestamönnum verði meinuð leið á bjargbrúninni. Jökulsá á Fjöllum er meginþráður þessarar leiðar, sem er andspænis þjóðgarðinum vestan ár. Við höfum fagurt útsýni yfir í Rauðhóla og Hljóðakletta og víða niður í hrikalegt árgljúfrið. Sums staðar er hægt að ganga niður í það. Hvergi þarf að bjóða hættum byrginn, ef fylgt er staðkunnugri leiðsögn. Hafursstaðir voru síðasta jörðin, þar sem Einar Benediktsson náði vatnsréttindum, þegar hann hugðist virkja Jökulsá.

Förum frá Austara-Landi um hlað á Vestara-Landi og fylgjum reiðslóð suðvestur um Gloppu að eystri klettabrún Jökulsár á Fjöllum. Fylgjum brúninni um Landabjörg og síðan vestan við Kjalarás, ofan við Hólma í gljúfrunum. Næst um Hrútabjörg og Efriskóg, þar sem við erum andspænis Rauðhólum og Hljóðaklettum handan árinnar. Þar sveigjum við frá gljúfrinu og förum um Bægisstaðamýri austur að eyðibýlinu Hafursstöðum suðvestan við Hafursstaðavatn. Þaðan förum við slóð austan vatns og norður brekkurnar austan Vatnshæðar um Skógarhóla upp á þjóðveg 864. Fylgjum þeim vegi norður að afleggjaranum að Austara-Landi.

22,6 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Hafrafellsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hafralækjarskarð

Frá Rauðuskriðu við Skjálfandafljót að Hraungerði við Hafralækjarskóla í Aðaldal.

Byrjum hjá brú á Skjálfandafljóti við Rauðuskriðu.Förum norðaustur yfir Fljótsheiði milli Hafralækjarbungu og Skollahnjúks og síðan norður og niður að Hraungerði við Hafralækjarskóla í Aðaldal.

5,0 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Hvammsheiði.
Nálægar leiðir: Kinnarfell, Fosselsskógur, Sandsbæir, Árnes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hafralónsá

Frá Hvammi í Þistilfirði meðfram Hafralónsá inn á Haugsvatnsleið austan Krókavatna.

Mikil veiðiá með laxi og silungi. Veidd með 4 stöngum og er þekkt fyrir stórlaxa. Sumarveiði er afar áþekk hinum ánum í Þistilfirði, um 150 til 350 laxar eftir árferði. Þá er í Hafralónsá mjög gott bleikjusvæði neðst í ánni.

Förum frá Hvammi suður að Hafralónsá og síðan suður með ánni, svo vestur fyrir Hvammsgljúfur á Miklavatnsháls. Áfram til suðurs vestan við Hafralónsá suður Kolhólsflóa, Bæjarás og Hvammsheiði. Síðan austur með Dimmagljúfri, suður milli Hávarðsdalsfjalls og Kistufjalla. Og loks áfram með Hafralónsá, inn á Haugsvatnsleið austan Krókavatna.

28,1 km
Þingeyjarsýslur

Nálægar leiðir: Heljardalur, Hágangar, Helkunda.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort