Hagavaðall

Frá Haga í Hagavaðli um Steinbogavað að Rauðsdal í Hagavaðli.

Sæta þarf sjávarföllum á vaðinu og fara aðeins um háfjöru. Ofar eru Brandshólmavað, ekki fært lengur vegna sandbleytu, og efsta vaðið er svo Krosslækjarvað hjá Krossi. Hagi er eitt af helztu höfðingjasetrum landsins. Þar bjó á söguöld hinn djúpvitri Gestur Oddleifsson. Þar sátu sýslumenn og þar sat Guðmundur Scheving, sem var amtmaður Jörundar hundadagakonungs. Jón Thoroddsen sýslumaður skrifaði þar Pilt og stúlku. Synir hans voru Þorvaldur Thoroddsen, Skúli Thoroddsen og Sigurður Thoroddsen, faðir Gunnars Thoroddsen. Hákon Kristófersson alþingismaður bjó í Haga um miðja síðustu öld. Vaðall var þingstaður og kaupstaður, þar til Hagi tók við. Brandshólmi var skipalægið. Við Rauðsdal eru klettarnir Reiðskörð, þar sem Sveinn skotti var hengdur, sonur Axlar-Bjarnar. Þar heitir Skottagjóta.

Förum frá Haga austur Hagafit að Steinbogavaði milli Hvammsodda og Hagaodda, um skerið Steinboga. Síðan áfram vestur að þjóðvegi 62 við Rauðsdal.

9,2 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Lækjarskarð, Mjósund, Fossheiði, Miðvörðuheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jóhann Svavarsson