Hafursstaðir

Hringferð frá Austara-Landi að Hafursstöðum og til baka.

Bezt er að fara leiðina undir leiðsögn Halldórs bónda á Bjarnastöðum, því að sums staðar er tæpt farið við gljúfrin. Þegar þessu svæði verður bætt við þjóðgarðinn, er hætt við, að hestamönnum verði meinuð leið á bjargbrúninni. Jökulsá á Fjöllum er meginþráður þessarar leiðar, sem er andspænis þjóðgarðinum vestan ár. Við höfum fagurt útsýni yfir í Rauðhóla og Hljóðakletta og víða niður í hrikalegt árgljúfrið. Sums staðar er hægt að ganga niður í það. Hvergi þarf að bjóða hættum byrginn, ef fylgt er staðkunnugri leiðsögn. Hafursstaðir voru síðasta jörðin, þar sem Einar Benediktsson náði vatnsréttindum, þegar hann hugðist virkja Jökulsá.

Förum frá Austara-Landi um hlað á Vestara-Landi og fylgjum reiðslóð suðvestur um Gloppu að eystri klettabrún Jökulsár á Fjöllum. Fylgjum brúninni um Landabjörg og síðan vestan við Kjalarás, ofan við Hólma í gljúfrunum. Næst um Hrútabjörg og Efriskóg, þar sem við erum andspænis Rauðhólum og Hljóðaklettum handan árinnar. Þar sveigjum við frá gljúfrinu og förum um Bægisstaðamýri austur að eyðibýlinu Hafursstöðum suðvestan við Hafursstaðavatn. Þaðan förum við slóð austan vatns og norður brekkurnar austan Vatnshæðar um Skógarhóla upp á þjóðveg 864. Fylgjum þeim vegi norður að afleggjaranum að Austara-Landi.

22,6 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Hafrafellsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson