Þjóðleiðir

Hellisskarð

Frá Hlöðuvöllum um Hellisskarð að Miðhúsum í Bláskógabyggð.

Hlöðuvellir eru mikill og fagur fjallasalur í skjóli undir voldugu Hlöðufelli. Það er 1188 metra hár móbergsstapi með grágrýtiskolli, hömrum girtur. Uppgöngugil er við skálann. Á völlunum skiptast á sléttir balar og smáþýfi. Vestan Hlöðuvalla er víðáttumikla hraundyngjan Skjaldbreiður. Að sunnanverðu er Skriðan og Skriðutindar. Austan við Hlöðufell er hraundyngjan Lambahraun, sem líkist Skjaldbreið. Þaðan er komið Lambahraun austan og sunnan við Hlöðuvelli. Næst völlunum er hraunið sandorpið og heitir Rótarsandur. Austan við hraunið rísa tvö brött fjöll, Kálfstindur að austan og Högnhöfði að vestan. Milli þeirra er Hellisskarð, aldagömul þjóðleið hestamanna. Um það skarð liggur sú leið, sem hér er lýst, einn fegursti fjallvegur landsins.

Förum frá fjallaskálanum á Hlöðuvöllum í 460 metra hæð suðvestur yfir Lambahraun og Rótarsand í Hellisskarð milli Högnhöfða að vestan og Kálfstinds að austan. Við förum sunnan við hólinn í miðju skarðinu og síðan niður með Högnhöfða. Þegar við komum niður úr skarðinu, höldum við áfram milli hrauns og hlíða undir Högnhöfða. Hraunið heitir fyrst Svínahraun og síðan Úthlíðarhraun. Við förum undir Brúarárskörð, framhjá uppsprettulækjum Kálfár, að Kolgrímshóli. Þar nálægt er eyðibýlið Hrútártunga. Þar förum við meira til suðurs niður að þjóðvegi 37 í 140 metra hæð við Miðhús og Úthlíð.

18,2 km
Árnessýsla

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Nálægar leiðir: Miðfell, Brúarárskörð, Helludalur, Farið, Miðdalsfjall, Hlöðufell, Skessubásavegur, Eyfirðingavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hellisheiði

Frá Kolviðarhóli um gamla Kambaveginn til Hveragerðis.

Þetta er gamla leiðin beint yfir Hellisheiði, með klappaðri slóð í hrauninu undan skeifunum. Um Kambana sagði Björn Pálsson, forstöðumaður Héraðsskjalasafnsins á Selfossi, að þar sé vegaminjasafn þjóðarinnar, sýnishorn af vegum og troðningum frá fyrstu dögum Íslandsbyggðar.

Á Kolviðarhóli var byggt sæluhús árið 1844 og síðan gistihús fyrir ferðamenn. Árið 1938 keypti Íþróttafélag Reykjavíkur svo Kolviðarhól af Valgerði Þórðardóttur. Eftir það var þarna skíðaskáli fram yfir seinna stríð.

Förum frá Kolviðarhóli suðaustur Hellisskarð/Yxnaskarð og síðan beina línu austsuðaustur á gömlu Kambabrún. Síðan niður gömlu Kambaleiðina að Hveragerði.

7,0 km
Árnessýsla

Skálar:
Hellukofi: N64 01.780 W21 20.678.

Nálægar leiðir: Hengladalaá, Ölkelduháls, Ölfusvatnsá, Þrengsli, Lágaskarð, Álftavatnsvað, Reykjadalur, Klóarvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Helkunda

Frá Hafralónsá í Þistilfirði um Helkundu að Finnafjarðará í Finnafirði.

Helkunduheiði er einnig kölluð Helgundarheiði og Hallgilsstaðaheiði. Á Helkunduheiði voru til forna mörk fjórðunga og biskupsdæma.

Byrjum við brúna á Hafralónsá í Þistilfirði. Förum suður milli Hallgilsstaða og Stóralækjar. Síðan austur á Helkunduheiði, sunnan við Fiskárvötn og Krókavatn, austur í Finnafjörð við Finnafjarðará.

9,5 km
Þingeyjarsýslur, Austfirðir

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Heljardalur

Frá Holti í Laxárdal í Þistilfirði við þjóðveg 868 um Haugsöræfi að Grímsstöðum á Fjöllum.

Þrátt fyrir nafnið er Heljardalur fagur öræfadalur, ótrúlega vel gróinn og innilokaður dalur í eyðimörk umhverfisins. Hann er afskekktur og fáir koma þar utan leitarmenn að hausti. Sagnir eru um tilraun til búskapar í Heljardal.

Förum frá Holti suðvestur í Háuhæðir og síðan suður um Sjónarhól og Krubba að Krubbatjörn. Áfram suður um Dalsheiði að Bræðravötnum. Förum milli þeirra og áfram suður Dalsheiði að Krókavötnum. Austan þeirra komum við að leiðinni upp með Hafralónsá og að fjallaskálanum í Hvammsheiði. Síðan áfram suður Heljardalseyrar að Hafralóni vestanverðu. Þar sveigjum við til suðvesturs milli Stakfells að suðaustanverðu og Heljardalsfjalla að norðvestanverðu og komum inn í Heljardal. Þar er hliðarleið sður um Einbúa. Við förum suðvestur Heljardal og síðan til suðurs austan við Haug að Haugsvatni. Sunnan vatnsins komum við á Haugsleið úr Vopnafirði og fylgjum henni til vesturs, í 760 metra hæð, framhjá fjallaskálanum Vestarahúsi. Norðan Hólskerlingar eru vegamót. Haugsleið liggur til norðvesturs að Víðirhóli, en við förum suðvestur að Grímsstöðum á Fjöllum.

55,2 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Hvammsheiði: N65 54.753 W15 38.800.
Hafralón: N65 50.875 W15 36.034.
Vestarahús: N65 42.590 W15 49.400.
Tjarnir: N65 39.314 W16 04.812.
Grímsstaðir: N65 38.615 W16 07.050.

Nálægir ferlar: Álandstunga, Hólsfjöll.
Nálægar leiðir: Sléttuvegur, Hafralónsá, Einbúi, Haugsleið, Dimmifjallgarður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Heljardalsheiði

Frá Sleitustöðum í Skagafirði til Atlastaða í Svarfaðardal.

Heljardalsheiði var fyrrum ein fjölfarnasta leiðin milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar, áður en bílvegur var ruddur um Öxnadalsheiði. Fyrsta símalínan var lögð þessa leið. Erfitt var að halda símanum opnum að vetrarlagi vegna snjóþyngsla og á endanum var línan grafin í jörð á heiðinni.

Á Sturlungaöld var meira farið um Hjaltadalsheiði, sem er aðeins sunnar í fjallgarðinum. Guðmundur Arason, síðar biskup, fór 1195 þessa leið með stóran hóp förumanna, kvenna og barna, frá Skeið í Svarfaðardal til Hóla í Hjaltadal. Stórviðri brast á, þegar á heiðina var komið. Sumir sneru aftur, fáir komust áfram, aðrir lágu úti, þar á meðal Guðmundur með tveimur börnum. Annað lifði og hitt dó. Margir urðu úti, en aðrir náðu bæjum.

Byrjum á þjóðvegi 76 við Sleitustaði í Óslandshlíð. Förum með bílvegi inn Kolbeinsdal að Skriðulandi og síðan áfram austur dalinn. Við rétt á bökkum Heljarár innarlega í dalnum, gegnt Elliða, sveigjum við þvert í norður og förum um bratta sneiðinga Heljarbrekkna norður í Heljardal. Þar austan við er Heljarfjall. Norður og upp úr dalnum förum við bratta brekku upp með ánni og Kambagiljum á Heljardalsheiði. Á heiðinni erum við komin í 865 metra hæð. Á heiðinni beygir leið okkar til norðvesturs um brattar urðir niður í Svarfaðardal og komum þar fljótlega að þéttri bæjaröð í norðanverðum dalnum.

27,8 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Skálar:
Fjall: N65 46.051 W19 05.581.
Heljardalsheiði: N65 49.658 W18 57.567.

Nálægar leiðir: Þverárjökull, Tungnahryggur, Deildardalsjökull, Hákambar, Unadalsjökull, Sandskarðsleið, Klaufabrekkur, Kollugilsbrúnir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Helguvík

Frá Gilstreymi í Lundareykjadal að Helguvík við Reyðarvatn.

Algeng leið úr Lundareykjadal upp á Bláskógaheiði áður en lagður var vegur um Uxahryggi.

Förum frá Gilstreymi vestan Þverfells norður yfir þjóðveg 52 og síðan austur á Reykjaháls. Að lokum norðnorðaustur að Helguvík í norðurenda Reyðarvatns. Þaðan er leið austur á Bláskógaheiði og vestur með Grímsá í Lundareykjadal.

4,5 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Gagnheiði, Teigfell, Kúpa, Reyðarvatn, Grímsárbugar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Helgustaðaskörð

Frá Norðfjarðarvegi 92 sunnan Hengifossár um Helgustaðaskarð til Helgustaða í Reyðarfirði.

Stikuð leið um tvö skörð, sem bæði heita Helgustaðaskarð.

Byrjum á Norðfjarðarvegi 92 í Oddsdal sunnan Hengifossár. Förum suðsuðaustur og upp í Helgustaðaskarð nyrðra milli Rauðatinds og Lakahnauss. Síðan suður í Helgustaðaskarð syðra í 650 metra hæð. Að lokum suðsuðvestur brekkuna meðfram Helgustaðaá að Helgustöðum í Reyðarfirði.

6,3 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Fönn

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Helgafell

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Hafnarfirði um Helgafell að Fjallinu eina við Vatnsskarð.

Byrjum í hesthúsahverfi Sörla í Hafnarfirði. Förum suðaustur eftir Kaldárselsvegi og síðan áfram suðaustur að Helgafelli. Förum suðvestur með fellinu vestanverðu og síðan suðaustan við Undirhlíðar um Breiðdal að þjóðvegi 42 við Vatnsskarð. Förum norðvestur með þjóðveginum yfir Vatnsskarð og síðan vestur að Fjallinu eina.

12,6 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægir ferlar: Vigdísarvellir.
Nálægar leiðir: Vatnsleysuströnd, Undirhlíðar, Selvogsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Heimsendakrókur

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Elliðavatnsleið eftir hringleið upp í hesthúsahverfið Heimsenda.

Förum merkta reiðleið suðvestur frá Elliðahvammi gegnum íbúðahverfi að hesthúsahverfinu Heimsenda. Síðan austur frá hesthúsunum eftir merktri reiðleið að Elliðavatni við suðurenda vatsins.

2,0 km
Reykjavík-Reykjanes

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Heklubraut

Frá Gunnarsholti á Rangárvöllum að Leirubakka í Landssveit.

Bezt er að fara leiðina til norðurs með útsýni til Heklu.

Þetta hefur í áratugi verið kjörleið hestamanna á Rangárvöllum. Heldur hefur hana sett niður í því hlutverki, síðan borin var möl í hana. Erfitt er að fara um kargaþýfða kvistmóa við hlið vegarins. Mestan hluta leiðarinnar er farið um þurra móa og síðan einnig um gresjur, þegar farið er að nálgast eyðibýlið Steinkross. Sá bær gegnir mikilvægu hlutverki í flatarmálsspeki Einars Pálssonar. Hætt er við nokkrum truflunum af bílaumferð á þessari leið, sem er ein af helztu bílarall-leiðum landsins. Í staðinn er unnt að fara Kirkjustíg frá Keldum um Hekluhraun og Steinkross.

Förum frá Gunnarsholti til norðvesturs um Akurhól eftir Heklubraut um Brekknaheiði, framhjá eyðibýlinu Steinkrossi að eyðibýlunum Koti og Kastalabrekku. Síðan norður Flatir að afleggjara til Selsunds. Við fylgjum Heklubraut áfram að gatnamótum við þjóðveg 268 suðvestan undir Bjólfelli. Fylgjum þjóðveginum norður fyrir flugvöll við Ytri-Rangá, sveigjum til vesturs af veginum norðan við völlinn og förum síðan beint í norður að Dýjafitjarvaði á Ytri-Rangá. Þaðan eftir slóð upp að þjóðvegi 26 um Landssveit rétt vestan Vatnagarða. Fylgjum þjóðveginum vestur að Leirubakka.

24,6 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært

Nálægir ferlar: Þríhyrningur, Knafahólar, Rangárbotnar.
Nálægar leiðir: Víkingslækur, Kirkjustígur, Tröllaskógur, Geldingavellir, Bjólfell, Réttarnes, Stóruvallaheiði, Skarfanes, Reynifell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Heilagsdalur

Frá Hverfjalli í Mývatnssveit umhverfis Bláfjall að Grænavatni í Mývatnssveit.

Heilagsdalur var fjölfarin leið á tímum brennisteinstöku í Fremri-Námum í Ketildyngju. Enn sjást margar samsíða reiðgötur og vörðubrot sums staðar milli Heilagsdalsfjalls og Bláfjallsfjallgarðs. Dalurinn er gróinn háfjallagróðri að vestanverðu með lækjum og lindum, en að austanverðu er sandblásið hraun. Frá fjallaskálanum í Heilagsdal er hægt að fara til austurs með suðurjaðri Skjaldböku að brennisteinsnámunum.

Byrjum á mótum þjóðvegar 1 við Vogaflóa við Mývatn og vegar að Hverfjalli. Förum austur að Hverfjalli austan Grjótagjár. Förum suður að Bláfjallsfjallgarði. Suðaustur brekkurnar á fjallgarðinn og suður í Heilagsdal. Suður með Bláfjalli að austanverðu og suður fyrir Bláfjallshala. Þar snertum við Biskupaleið yfir Ódáðahraun. Við höldum áfram norðvestur að Sellandafjalli austanverðu og förum norður fyrir fjallið. Þaðan beint norður á jeppaslóð sunnan úr Suðurárbotnum og að Randarskarði, þar sem við mætum leið austan úr Bláhvammi. Áfram norðnorðaustur að Grænavatni.

55,3 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Heilagsdalur: N65 27.334 W16 47.484.

Nálægir ferlar: Krákárbotnar.
Nálægar leiðir: Hverfjall, Almannavegur, Bláhvammur, Biskupaleið, Kerlingardyngja.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Heiðnaberg

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Krísuvík hringleið um Heiðnaberg og Krísuvíkurberg til Krísuvíkur.

Krísuvíkuberg er langstærsta fuglabjarg á Reykjanesskaga. Talið er, að þar verpi 57 þúsund sjófuglapör. Bergið er um 7 km langt og mesta hæð um 70 metrar Á miðju berginu er Krýsuvíkurbergsviti. Eldstöð er í berginu vestanverðu. Þar nærri er Heiðnaberg. Og þar er Ræningjastígur, þar sem Tyrkir eru sagðir hafa gengið á land og drepið matselju í seli við Selöldu. Eltu þeir smalann heim að Krýsuvík. Það var sunnudagur og séra Eiríkur í Vogsósum hinn göldrótti var að messa. Mælti hann svo fyrir, að sjóræningjarnir skyldu vega hver annan í kirkjutúninu.

Byrjum við þjóðveg 427 í Krísuvík sunnan Bæjarfells. Förum jeppaslóð suðvestur heiðina og síðan suðaustur hana að Heiðnabergi. Þaðan austur með Krísuvíkurbergi og Strandarbergi og þaðan beint norður af berginu á þjóðveg 427 suðvestan við Litlu-Eldborg undir Geitahlíð.

12,6 km
Reykjavík-Reykjanes

Jeppafært

Nálægir ferlar: Vigdísarvellir.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Heiðinnamannadalur

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Klængshóli í Svarfaðardal um Heiðinnamannadal að Barká í Barkárdal í Hörgárdal.

Einn af hæstu fjallvegum landsins í 1100 metra hæð.

Leiðin var mikið farin fyrr á öldum, meðal annars með sauðfé til slátrunar á Akureyri.

Förum frá Klængshóli suður Skíðadal og vestan við Hólárhnjúk að Heiðinnamannadal. Úr dalbotninum upp brattan jökulinn í Heiðinnamannadalsskarð í 1100 metra hæð. Handan skarðsins suður í Hafrárdal, sem sveigist til suðausturs niður að Barká í Barkárdal í Hörgárdal.

17,1 km
Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Skíðadalsjökull, Holárdalur, Þverárjökull, Hólamannavegur, Héðinsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Heiðarvatn

Frá Höfðabrekkuheiðarleið við Kárasel að þjóðvegi 1 í Selsmýri norðan Víkur í Mýrdal.

Förum frá eyðibýlinu Káraseli vestur um Vatnsársund og norður fyrir Heiðarvatn. Þar komum við að Heiðarbæjum. Loks förum við suðvestur á þjóðveg 1 í Selsmýri, um 4 km norðan Víkur í Mýrdal.

7,4 km
Skaftafellssýslur

Nálægir ferlar: Höfðabrekkuheiði.
Nálægar leiðir: Heiðardalsvegur, Arnarstakksheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Heiðarskarð

Frá Bolungarvík um Heiðarskarð til Hnífsdals.

Mikið og gott útsýni er úr skarðinu.

Á Vestfjarðavefnum segir um leiðina frá Hnífsdal: “Leiðin fram dalinn liggur um Heiðarbraut og úr þorpinu nokkuð uppi í hlíðinni og heldur áfram inn lyngi vaxna hlíð. Örlitlu framar en Lambaskál, eru tóftir bæjarins í Fremri-Hnífsdal, neðan undir Miðhvilft. Þægilegast er að fylgja slóða af veginum nokkru áður en kemur að Fremri-Hnífsdal upp hlíðina að vatnsveitustíflu, sem þar er, og áfram um slóða ofan á vatnslögn Hnífsdælinga og fara síðan yfir Hnífsdalsá rétt neðan stíflu. Þaðan má fylgja gömlu götunni og kemur fljótlega að sneiðingum, sem liggja nokkuð upp hlíðina, en svo hverfur gatan uns komið er ofar og lengra fram á dalinn.”

Förum frá Bolungarvík eftir vegarslóða suður Syðradal vestan við Syðradalsvatn. Við förum til suðurs eftir vatnsveituslóð upp úr dalbotninum meðfram Fossá upp á Reiðhjalla og áfram suðsuðaustur upp í Heiðarskarð í 500 metra hæð. Niður úr skarðinu austur í Hnífsdal, sumpart um sneiðinga og síðan austnorðaustur dalinn um eyðibýlið Fremri-Hnífsdal til byggðarinnar.

13,5 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Skálavíkurheiði, Grárófuheiði, Gilsbrekkuheiði, Geirsteinshvilft, Þjófaskörð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort