Heklubraut

Frá Gunnarsholti á Rangárvöllum að Leirubakka í Landssveit.

Bezt er að fara leiðina til norðurs með útsýni til Heklu.

Þetta hefur í áratugi verið kjörleið hestamanna á Rangárvöllum. Heldur hefur hana sett niður í því hlutverki, síðan borin var möl í hana. Erfitt er að fara um kargaþýfða kvistmóa við hlið vegarins. Mestan hluta leiðarinnar er farið um þurra móa og síðan einnig um gresjur, þegar farið er að nálgast eyðibýlið Steinkross. Sá bær gegnir mikilvægu hlutverki í flatarmálsspeki Einars Pálssonar. Hætt er við nokkrum truflunum af bílaumferð á þessari leið, sem er ein af helztu bílarall-leiðum landsins. Í staðinn er unnt að fara Kirkjustíg frá Keldum um Hekluhraun og Steinkross.

Förum frá Gunnarsholti til norðvesturs um Akurhól eftir Heklubraut um Brekknaheiði, framhjá eyðibýlinu Steinkrossi að eyðibýlunum Koti og Kastalabrekku. Síðan norður Flatir að afleggjara til Selsunds. Við fylgjum Heklubraut áfram að gatnamótum við þjóðveg 268 suðvestan undir Bjólfelli. Fylgjum þjóðveginum norður fyrir flugvöll við Ytri-Rangá, sveigjum til vesturs af veginum norðan við völlinn og förum síðan beint í norður að Dýjafitjarvaði á Ytri-Rangá. Þaðan eftir slóð upp að þjóðvegi 26 um Landssveit rétt vestan Vatnagarða. Fylgjum þjóðveginum vestur að Leirubakka.

24,6 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært

Nálægir ferlar: Þríhyrningur, Knafahólar, Rangárbotnar.
Nálægar leiðir: Víkingslækur, Kirkjustígur, Tröllaskógur, Geldingavellir, Bjólfell, Réttarnes, Stóruvallaheiði, Skarfanes, Reynifell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson