Heljardalsheiði

Frá Sleitustöðum í Skagafirði til Atlastaða í Svarfaðardal.

Heljardalsheiði var fyrrum ein fjölfarnasta leiðin milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar, áður en bílvegur var ruddur um Öxnadalsheiði. Fyrsta símalínan var lögð þessa leið. Erfitt var að halda símanum opnum að vetrarlagi vegna snjóþyngsla og á endanum var línan grafin í jörð á heiðinni.

Á Sturlungaöld var meira farið um Hjaltadalsheiði, sem er aðeins sunnar í fjallgarðinum. Guðmundur Arason, síðar biskup, fór 1195 þessa leið með stóran hóp förumanna, kvenna og barna, frá Skeið í Svarfaðardal til Hóla í Hjaltadal. Stórviðri brast á, þegar á heiðina var komið. Sumir sneru aftur, fáir komust áfram, aðrir lágu úti, þar á meðal Guðmundur með tveimur börnum. Annað lifði og hitt dó. Margir urðu úti, en aðrir náðu bæjum.

Byrjum á þjóðvegi 76 við Sleitustaði í Óslandshlíð. Förum með bílvegi inn Kolbeinsdal að Skriðulandi og síðan áfram austur dalinn. Við rétt á bökkum Heljarár innarlega í dalnum, gegnt Elliða, sveigjum við þvert í norður og förum um bratta sneiðinga Heljarbrekkna norður í Heljardal. Þar austan við er Heljarfjall. Norður og upp úr dalnum förum við bratta brekku upp með ánni og Kambagiljum á Heljardalsheiði. Á heiðinni erum við komin í 865 metra hæð. Á heiðinni beygir leið okkar til norðvesturs um brattar urðir niður í Svarfaðardal og komum þar fljótlega að þéttri bæjaröð í norðanverðum dalnum.

27,8 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Skálar:
Fjall: N65 46.051 W19 05.581.
Heljardalsheiði: N65 49.658 W18 57.567.

Nálægar leiðir: Þverárjökull, Tungnahryggur, Deildardalsjökull, Hákambar, Unadalsjökull, Sandskarðsleið, Klaufabrekkur, Kollugilsbrúnir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort