Norður-Múlasýsla

Leiðaskarð

Frá þjóðvegi 1 í Jökulkinn vestan Svartfells og norðan Nips um Möðrudal og Brattafjallgarð að Brú við Jökulsá á Dal.

Gömul þjóðleið milli Brúar á Jökuldal og Möðrudals á Efra-Fjalli. Stundum er leiðin kölluð Ytri-Hestleið til aðgreiningar frá Fremri-Hestleið um Byttuskarð. Sveinn Pálsson lýsir leiðinni um Hvannárgil svona árið 1794: “Vestan til í fjallgörðum þessum liggur leiðin gegnum svo þröngan klofa, er Hvannárgil nefnist, að klyfjahestar geta með naumindum smogið gegnum. Hlíðarnar eru úr eintómum litlum stuðlabergssúlum, er liggja í allar áttir, mest megnis samfléttaðar, en samt eins og þær séu límdar hver við aðra … Hér og hvar grillir í hella og hvelfingar niðri í þessu hálfdimma gili.” Vörðubrot sjást enn á leiðinni, til dæmis suðvestan undir Hestleiðarkolli.

Byrjum við þjóðveg 1 í Jökulkinn vestan Sandfells og norðan Nips. Förum suðvestur með fjöllunum, austan við Nip og Dyngju, um Víðihól og Sjónarhól á þjóðveg 901 við Sauðá. Fylgjum veginum í Möðrudal. Við förum áfram suður að Kjólstöðum og þaðan suðaustur að Slórfelli. Förum þar þvert yfir þjóðveg F905 til Arnardals. Förum suður fyrir Vatnsstæðishóla og þaðan suðaustur um Hvannárgil, milli Brattafjallgarðs að norðan og Mynnisfjallgarðs að sunnan. Síðan í 780 metra hæð, um Fúlukinn og Leiðarhöfða við Sigurðaröldu. Áfram suðaustur í Leiðaskarð og niður af fjallgarðinum norðan við Austari-Þríhyrningskróka. Áfram suðaustur á þjóðveg 907 um Jökuldalsheiði. Fylgjum þeirri leið til suðurs að Brú við Jökulsá á Dal.

34,5 km
Austfirðir

Nálægir ferlar: Grágæsadalur, Sænautasel.
Nálægar leiðir: Byttuskarð, Sótaskarð, Gestreiður, Miðgötumúli, Hvannstóðsfjöll, Kárahnjúkar, Aðalbólsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Lambadalur

Frá Sleðbrjótsseli í Jökuldal að Refsstað í Vopnafirði.

Sjaldfarin leið og skemmtileg, en fremur brött og vandrötuð, hættuleg í vondum veðrum.

Byrjum við þjóðveg 917 við Sleðbrjótssel. Förum um bæjarhlað og síðan beint upp og vestur Fögruhlíð sunnan við Fögruhlíðará upp í Selskarð sunnan við Urðarhjalla og norðan við Náttmálahnjúk. Síðan um Þröskuld í 850 hæð vestur í Varp og þaðan norður með Smjörfjöllum yfir í Lambadalsskarð, sem við förum vestur yfir og niður í Lambadal. Við förum niður þann dal suðvestan við Selá og komum að Refsstað.

21,6 km
Austfirðir

Erfitt fyrir hesta

Nálægar leiðir: Smjörvatnsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Lagarfljót

Frá Breiðavaði í Eiðaþinghá meðfram Lagarfljóti að austan norður að Víðastöðum.

Skráð samkvæmt herforingjaráðskorti. Leiðin kann að vera orðin flóknari vegna girðinga. Hlið kunna að vera læst nálægt leiðarenda, en það er ólöglegt.

Byrjum á þjóðvegi 94 sunnan Eiða við afleggjara til vesturs að Breiðavaði og Hvammi. Förum vestur afleggjarann og síðan norður með Lagarfljóti að Fljótsbakka. Þaðan afleggjara norðaustur að þjóðvegi 94. Við förum strax aftur norður frá veginum um Eiðalæk að Lagarfljóti. Áfram norður með fljótinu framhjá Stóra-Steinsvaði og Lagarfossi að þjóðvegi 944. Áfram norður með þeim vegi að Dratthalastöðum. Þaðan suðvestur að Hjálpartjörn og síðan norðaustur og norður að Víðastöðum við gatnamót þjóðvega 94 og 944.

31,0 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Vestdalsheiði, Tó.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Kækjuskörð

Frá Hvannstóði við enda þjóðvegar 946 í Borgarfirði eystra um Kækjuskörð til Stakkahlíðar í Loðmundarfirði.

Kækja þýðir tröllskessa. Af Kækjuskörðum blasa við litskrúðugir fjallgarðar og grösugur Loðmundarfjörður.

Byrjum við þjóðveg 946 hjá Hvannstóði í Borgarfirði eystra. Öll leiðin er til suðurs. Við förum um Kollutungur suður Kækjudal vestan við Kækjudalsá. Úr botni dalsins förum við suður og upp hryggi framhjá Kirkjusteini og um Kinn upp í Kækjuskörð í 760 metra hæð og síðan suður um Lönguhlíð og Fitjar niður að Stakkahlíð í Loðmundarfirði.

12,3 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Sandaskörð, Tröllabotnar, Loðmundarfjörður, Hjálmárdalsheiði Tó, Norðdalsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kverkfjöll

Frá Krepputungu sunnan Upptyppinga um Lönguhlíð að Sigurðarskála í Kverkfjöllum.

Kverkfjöll eru þriðji hæsti fjallabálkur landsins á eftir Hvannadalshnjúk og Bárðarbungu. Skarphéðinstindur er í 1936 metra hæð. Ennfremur er þetta ein af virkustu eldstöðvum landsins. Hér hafa orðið um tuttugu gos frá landnámi. Sögur fara af fáum þessara gosa, af því að staðurinn er afskekktur. Kverkfjöll skiptast í eystri og vestri fjallabálka umhverfis Kverkina með miklum hamraveggjum. Þar má finna mikla íshella, sem orðið hafa til í samspili íss og jarðhita.

Byrjum á mótum þjóðvega F910 og F902 í Krepputungu sunnan Upptyppinga. Förum suður eftir þjóðvegi F902 um Krepputungu, vestan við Rifnahnjúk og vestan Lindafjalla. Síðan hjá Kverkhnjúkaskarði og vestan Roðafells og Karlfells suðvestur að Sigurðarskála.

34,5 km
Austfirðir

Skálar:
Sigurðarskáli: N64 44.850 W16 37.890.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Hvannalindir, Upptyppingar, Vatnajökulsvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kverkártunga

Frá brúnni í Miðfirði í Norður-Múlasýslu suðvestur á Hágangaleið að fjallaskálanum í Kverkártungu.

Byrjum við brúna á Miðfjarðará á þjóðvegi 85 í Miðfirði í Norður-Múlasýslu. Förum suðvestur með Miðfjarðará og suðvestur upp Kverkártungu. Síðan norðvestan við Álftavatn og loks suðsuðvestur um Lágurð að leið um Hágöngur. Þar er stutt vestur að fjallaskálanum í Kverkártungu.

17,7 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Kverkártunga: N65 54.586 W15 18.127.

Nálægar leiðir: Hágangar, Miðfjarðarheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Krókavatn

Frá Kleppjárnsstöðum í Hróarstungu um Krókavatn að Krakagerði við Lagarfljót.

Byrjum við þjóðveg 927 hjá Kleppjárnsstöðum í Hróarstungu. Förum suður um Galtarstaði fram og Krókavatn að Heykollsstöðum. Síðan suðaustur að Krakagerði við Lagarfljót í Hróarstungu.

7,5 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Stekkás.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Kjólsvíkurvarp

Frá Kjólsvík um Kjólsvíkurvarp að sæluhúsinu í Breiðuvík.

Kjólsvík er stutt vík með berghlaupum milli Glettings og Grenmós. Berghlaup setja svip á landslagið, Háuhlaup efra og Láguhlaup neðra. Bærinn í Kjólsvík er í eyði. Hann stóð út við sjó undir snarbröttum hlíðum Glettings sunnanverðum.  Ofan bæjarins er kletturinn Kjóll, sem víkin dregur nafn sitt af, og varði bæinn fyrir snjóflóðum.

Förum frá sjó í Kjólsvík suðvestur og upp í Kjólsvíkurvarp austan við Kerlingarfjall. Þar erum við í 220 metra hæð. Síðan förum við suður og niður Blautumýri að sæluhúsinu í Breiðuvík.

4,2 km
Austfirðir

Skálar:
Breiðavík: N65 27.830 W13 40.286.

Nálægar leiðir: Kjólsvík, Loðmundarfjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kjólsvík

Frá Bakkagerði í Borgarfirði eystra til Brúnavíkur og Kjólsvíkur og til baka aftur.

Leiðin frá Brúnavík til Kjólsvíkur er ekki fær jeppum.

Kjólsvík er stutt vík með berghlaupum milli Glettings og Grenmós. Berghlaup setja svip á landslagið, Háuhlaup efra og Láguhlaup neðra. Bærinn í Kjólsvík er í eyði. Hann stóð á sjávarbakka undir snarbröttum hlíðum Glettings sunnanverðum. Ofan bæjarins er kletturinn Kjóll, sem víkin dregur nafn sitt af, og varði bæinn fyrir snjóflóðum.  Þetta er vel gróið, en snjóþungt sauðfjárland.

Byrjum á veginum frá Bakkagerði til Hafnar í Borgarfirði mitt á milli brúar á Fjarðará og Hofstrandar. Þar er jeppaslóð austur af veginum. Við fylgjum henni austur og upp hjá Mæli og síðan norður fyrir Svartfell og förum þar um Hofstrandarskarð milli Geitfells að norðan og Svartfells að sunnan. Erum þar í 300 metra hæð. Áður var farið norðar, um Brúnavíkurskarð milli Geitfells að sunnan og Gránípu að norðan. Förum síðan í sneiðingum niður í Brúnavík. Þar endar jeppaslóðin. Þaðan förum við norður og út að sjó að sæluhúsi á eyðibýlinu Brúnavík. Síðan förum við suður fyrir Dagmúla og Geldingahnjúk og upp í Súludal, síðan um Súluskarð austan við Súlutind og erum í 400 metra hæð ofan við Hvalvík. Við höldum áfram suður um Syðra-Varp milli Súlutinds að vestan og Víðidalsfjalls að austan og förum niður úr skarðinu, fyrst suður að Kjólsvíkurá og síðan austur og út að eyðibýlinu Kjólsvík. Þaðan förum við til baka inn dalinn og síðan beint vestur í Kjólsvíkurskarð og náum þar 430 metra hæð milli Súlutinds að norðan og Krossfjalls að sunnan. Þaðan förum við beint vestur og niður á jeppaveginn milli Borgarfjarðar og Loðmundarfjarðar. Förum norðvestur með þeim vegi um Þrándarhrygg og eyðibýlið Þrándarstaði út í Bakkagerði í Borgarfirði.

22,0 km
Austfirðir

Skálar:
Brúnavík: N65 31.600 W13 41.200.

Nálægar leiðir: Loðmundarfjörður, Brúnavíkurskarð, Dyrfjöll, Borgarnes, Kjólsvíkurvarp.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Kárahnjúkar

Frá Vaðbrekku í Hrafnkelsdal um Kárahnjúka að Sauðafelli við Snæfell.

Þjóðvegur nútímans að Kárahnjúkum.

Byrjum utarlega í Hrafnkelsdal nálægt Vaðbrekku. Þar er leið um Hrafnkelsdal. Förum eftir jeppaslóð suðvestur upp Vaðbrekkuháls. Síðan til suðurs vestan í Fjallkolli og áfram til suðurs hjá vesturbrún Hrafnkelsdals og síðan framhaldi hans í Glúmsstaðadal. Við vinnubúðir Kárahnjúka förum við til suðausturs yfir Glúmsstaðadal og Þuríðarstaðadal að norðurenda Grjótárhnjúks. Þaðan austur að þjóðvegi 910 norðan við Sauðafell, sem er nyrzt Snæfellshnjúka.

33,9 km
Austfirðir

Bílvegur

Nálægir ferlar: Sænautasel.
Nálægar leiðir: Hvannstóðsfjöll, Brattifjallgarður, Aðalbólsleið, Vesturöræfi, Snæfell, Hölkná, Byttuskarð, Eyvindarkofaver.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hölkná

Frá mótum þjóðvega F909 og F910 norðan Sauðafells á Fljótsdalsheiði um Hölkná að Aðalbóli í Hrafnkelsdal.

Faxagil er um þremur kílómetrum sunnan við slóðina niður í Hrafnkelsdal. Þar innan við var bær á tíma Hrafnkels sögu Freysgoða. Í gilinu er væntanlega Faxahamar, sem þó hefur ekki verið nákvæmlega staðsettur. Þar var Freyfaxa hrundið fram af hamrinum og út í ána. Í Hrafnkelsdal hafa fundizt leifar byggðar á tuttugu stöðum. Talið er, að öll byggðin hafi farið í eyði um langt árabil við eldgos í Veiðivötnum á síðari hluta 15. aldar. Á Aðalbóli bjó Hrafnkell Freysgoði, landnámsmaður og vígamaður.

Byrjum á mótum þjóðvega F909 og F910 og fylgjum jeppaslóð til norðurs alla leið. Fyrst norður yfir Hölkná, síðan austan og norðan Kálffells og norðnorðvestur að brún Hrafnkelsdals. Þar niður brattar brekkur og yfir Hrafnkelsá að Aðalbóli í Hrafnkelsdal.

12,6 km
Austfirðir

Jeppafært

Nálægir ferlar: Sænautasel.

Nálægar leiðir: Kárahnjúkar, Fljótsdalsheiði, Vesturöræfi, Aðalbólsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Hvannstóðsfjöll

Frá Brú á Jökuldal um Háumýrar á Kverkfjallaslóð.

Í Laugarvalladal og yzt í Vesturdal var fyrrum mikill gróður og nokkur byggð, en þarna hefur orðið mikið landrof. Jarðhiti er á Laugarvöllum, innarlega í Laugarvalladal. Þar er baðaðstaða í laug. Oft er nokkur umferð hreindýra á þessum slóðum.

Förum frá Brú þjóðveg 910 norður á Fiskidalsháls og vestur stuttan kafla á hálsinum. Förum síðan jeppaleið suðvestur heiðina, austan við Múla og vestan við Nónhnúk, yfir Reykjará og suður Laugarvalladal. Upp heiðarsporðinn milli Laugarvalladals að austanverðu og Vesturdals að vestanverðu. Síðan til suðvesturs milli Þríhyrningsfjallgarðs að vestanverðu og Hvannstóðsfjalla að austanverðu. Síðan suður um Háumýrar að slóð frá Kárahnjúkum. Fylgjum þeirri slóð að slóð að Brúarjökli og í Grágæsadal.

38,7 km
Austfirðir

Jeppafært

Nálægir ferlar: Grágæsadalur, Sænautasel.
Nálægar leiðir: Meljaðrafjall, Miðgötumúli, Brattifjallgarður, Aðalbólsleið, Vatnajökulsvegur, Byttuskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hvannalindir

Frá Kreppulóni um Hvannalindir að Lönguhlíðarleið sunnan við Lönguhlíð.

Hvannalindir eru vin í eyðimörk sanda og grjóts í 630 metra hæð. Mýri, grundir, víðiflákar og hvannir einkenna svæðið. Þarna eru vel varðveittar mannvistarleifar. eignaðar Fjalla-Eyvindi, sem talinn er hafa búið hér í nokkur ár. Þetta eru fjórir sambyggðir kofar, að hluta enn með þaki, og tveir stakir kofar. Hvannalindir fundust 1834, þegar gerðir voru út menn til að leita reiðleiðar norðan Vatnajökuls milli Austurlands og Suðurlands. Leiðin er erfið og varð aldrei alfaraleið, lá frá Brú á Jökuldal um Grágæsadal og Hvannalindir og síðan yfir aura Jökulsár á Fjöllum og Gæsavatnaleið yfir á Sprengisand.

Byrjum á mótum þjóðvega F910 og F903 hjá Kreppulóni. Förum suðsuðvestur um Krepputungu, yfir Lindaá og um fjallaskálann í Hvannalindum. Þar beygir jeppavegurinn til suðvesturs í Kverkhnjúkaskarð, þar sem fjallvegir F902 og F903 mætast.

23,9 km
Austfirðir

Skálar:
Hvannalindir: N64 53.300 W16 18.426.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Upptyppingar, Kverkfjöll, Vatnajökulsvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hróarstunga

Frá vegi 925 við félagsheimili í Hróarstungu um Fornastaðaás til Húseyjar.

Á Hallfreðarstöðum bjó Páll Ólafsson skáld, sem orti um Hróarstungu: “Við mér hlógu hlíð og grund, / hvellan spóar sungu. / Enn var þó til yndisstund / í henni Hróarstungu.”

Húsey er yzti bærinn í Hróarstungu, lengi afskorin af jökulfljótum á eyju milli Geirastaðakvíslar, Jökulsár á Dal og Lagarfljóts. Eyjan er hvergi meira en þrettán metrar yfir sjávarmáli. Þar er mikið gósenland fyrir seli og fugla, þar á meðal grágæsir. Einnig gnótt af silungi og laxi. Þar eru 170 tegundir plantna. Húsey er ein mesta náttúru- og matarkista landsins.

Byrjum við þjóðveg 925 hjá Hallfreðarstaðahjáleigu í Hróarstungu. Förum norður um Hallfreðarstaðablá að Hrærekslæk. Norðan Hrærekslækjar beygjum við suðaustur um Fiskilæk og Kirkjubæ að félagsheimili sveitarinnar. Þaðan förum við norður með Skersli og Fornastaðaás að Geirastöðum. Þaðan norðaustur um Aur og Barm að Húsey. Norður að Jökulsá á Dal og síðan suðaustur með Lagarfljóti. Áfram bugana suður og suðvestur meðfram fljótinu til Sandhóla. Þaðan vestur um Steinboga að heimreiðinni að Húsey.

39,2 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Krókavatn, Stekkás.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hraungarðsbunga

Frá Þingmúla í Skriðdal um Geitdal og Hraungarðsbungu að Buðlungavöllum í Fljótsdal.

Áður fyrr var farið með fjárrekstra úr Fljótsdal yfir Buðlungavallaheiði og áfram austur fyrir Þingmúla, inn Þórudal og sveigt úr honum austur yfir Brúðardal á Þórdalsheiði til kaupstaðar í Reyðarfirði. Er það mun styttri leið en með bílvegum.

Förum frá Þingmúla eftir jeppaslóð inn Geitdal að Geitdal. Þaðan norðvestur yfir Hraungarðsbungu norðanverða og áfram um Buðlungavallaheiði að Gilsá. Förum norður með Gilsá að austanverðu um Stórás niður að eyðibýlinu Buðlungavöllum.

16,5 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Stafdalur, Remba, Flosaleið, Kelduá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins