Hróarstunga

Frá vegi 925 við félagsheimili í Hróarstungu um Fornastaðaás til Húseyjar.

Á Hallfreðarstöðum bjó Páll Ólafsson skáld, sem orti um Hróarstungu: “Við mér hlógu hlíð og grund, / hvellan spóar sungu. / Enn var þó til yndisstund / í henni Hróarstungu.”

Húsey er yzti bærinn í Hróarstungu, lengi afskorin af jökulfljótum á eyju milli Geirastaðakvíslar, Jökulsár á Dal og Lagarfljóts. Eyjan er hvergi meira en þrettán metrar yfir sjávarmáli. Þar er mikið gósenland fyrir seli og fugla, þar á meðal grágæsir. Einnig gnótt af silungi og laxi. Þar eru 170 tegundir plantna. Húsey er ein mesta náttúru- og matarkista landsins.

Byrjum við þjóðveg 925 hjá Hallfreðarstaðahjáleigu í Hróarstungu. Förum norður um Hallfreðarstaðablá að Hrærekslæk. Norðan Hrærekslækjar beygjum við suðaustur um Fiskilæk og Kirkjubæ að félagsheimili sveitarinnar. Þaðan förum við norður með Skersli og Fornastaðaás að Geirastöðum. Þaðan norðaustur um Aur og Barm að Húsey. Norður að Jökulsá á Dal og síðan suðaustur með Lagarfljóti. Áfram bugana suður og suðvestur meðfram fljótinu til Sandhóla. Þaðan vestur um Steinboga að heimreiðinni að Húsey.

39,2 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Krókavatn, Stekkás.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort