Sænautafell

Frá Hákonarstöðum í Jökuldal um Víðirhóla og Sænautasel að þjóðvegi 901 á Jökuldalsheiði.

Milli Hákonarstaða og Klaustursels í Jökuldal er elsta akfæra brú landsins. Sérsmíðuð í Bandaríkjunum, flutt í hlutum hingað, hnoðuð saman á staðnum og sett upp 1908. Í Víðirhólum var tvíbýli. Þar eru minjar um áveitur, brunnhús og myllu við Brandslind. Við Sænautavatn stendur torfbær, sem hefur verið vel við haldið. Þar er rekin ferðamannaþjónusta á sumrin. Eitt af mörgum heiðarbýlum á Jökuldalsheiði, sem öll eru horfin nema þetta. Halldór Laxness segir í Sjálfstæðu fólki: “Það var ekki sjónarmunur á kotinu og jöklinum; samferðamenn mínir hittu á það með því að fylgja sérstökum miðum. Við geingum mörg þrep niðurí jökulinn til að komast inní bæjardyrnar. Baðstofukytran var á loftinu, niðri var hey og fénaður.”

Förum frá Hákonarstöðum vestnorðvestur á heiðina sunnan Þórfells. Erum þar í 580 metra hæð. Síðan norðvestur um Hákonarstaðaflóa að eyðibýlinu Víðirhólum. Við förum vestnorðvestur í skarðið í 600 metra hæð milli Stóra-Svalbarðs að norðanverðu og Litla-Svalbarðs að sunnanverðu. Síðan förum við norðaustur í Sænautasel við Sænautavatn. Frá Sænautaseli förum við norðvestur að Sænautafelli og norður með fellinu að vestanverðu. Að lokum norðvestur að þjóðvegi 901 nálægt Grjótgarðshálsi.

21,7 km
Austfirðir

Skálar:
Sænautasel: N65 15.709 W15 31.246.

Nálægir ferlar: Sænautasel.
Nálægar leiðir: Rangalón, Buskutjörn, Búðarháls, Þrívörðuháls, Merkisgreni.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort