Sænautasel

Frá Hrafnkelsdal um Sænautafell að Rangalóni á Jökuldalsheiði.

Við Sænautavatn stendur torfbær, sem hefur verið endurbyggður. Þar er rekin ferðamannaþjónusta á sumrin. Eitt af mörgum heiðarbýlum á Jökuldalsheiði, sem öll eru horfin nema þetta. Leiðin úr Fljótsdal um Vegkvíslar og Hrafnkelsdal til Sænautafells og áfram til Möðrudals er hluti þjóðvegar gamla tímans. Við Brú á Jökulsá í Jökuldal var brú í öndverðu og hafa þar æ síðan verið krossgötur. Halldór Laxness segir í Sjálfstæðu fólki: “Það var ekki sjónarmunur á kotinu og jöklinum; samferðamenn mínir hittu á það með því að fylgja sérstökum miðum. Við geingum mörg þrep niðurí jökulinn til að komast inní bæjardyrnar. Baðstofukytran var á loftinu, niðri var hey og fénaður.” Leiðin liggur líka um eyðibýlin Grunnavatn í 585 m hæð og Netsel.

Byrjum í Hrafnkelsdal í 430 metra hæð, þar sem fjallvegurinn um Fljótsdalsheiði liggur niður í dalinn fyrir norðan Grjótöldu og Kálffell. Förum norður eftir dalnum um Aðalból og Vaðbrekku og síðan yfir í Jökuldal, þar sem við förum hjá Brú yfir Jökulsá. Síðan norður á fjallið vestan við Þverá að Þverárvatni. Þar förum við upp á Jökuldalsheiði í 600 metra hæð og norður með Ánavatni að Sænautavatni. Þar er eyðibýlið Sænautasel og fjallakofi í 520 metra hæð. Við höldum áfram til norðurs austan við vatnið og komum að þjóðvegi 910 vestan við eyðibýlið Rangalón.

39,5 km
Austfirðir

Skálar:
Sænautasel: N65 15.709 W15 31.246.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Rangalón, Sænautafell, Brattifjallgarður, Miðgötumúli, Hvannstóðsfjöll, Aðalbólsleið, Vegkvíslar, Kárahnjúkar, Fljótsdalsheiði, Hölkná, Vesturöræfi, Byttuskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort