Punktar

Þið eruð útdauðir

Punktar

Eftir andlát Herragarðsins við Laugaveg kom ég í samnefnda búð í Kringlunni og sá þar verzlunarmann frá Laugaveginum og spurði hann um tvíhneppta bleizera. “Þið eruð útdauðir”, sagði hann og þar með var málið afgreitt. Í Boss er ekki lengur hægt að fá uppháa sokka og í Waage er ekki lengur hægt að fá skó frá Pitti eða Magli. Allt snýst í búðunum um tízku, sem er svo ljót, að það verður að skipta um hana tvisvar á ári. Ekki er lengur neitt pláss fyrir hefðbundna vöru, sem hefur gengið í hundrað ár. “Þið eruð útdauðir” er svarið. Og ég á bara trosnaða bleizera til hversdagsbrúks.

CIA-rykfrakkar

Punktar

Í gamla daga þurfti ég að fara til London til að kaupa föt. Þá fór fullt af fólki í ferðalög til London til að kaupa á sig. Þetta var fyrir aldarfjórðungi. Þá var hægt að fá þar rykfrakka í CIA-stíl, tvíhneppta bleizera í hundrað ára gömlum stíl, uppháa hnésokka og ítalskar mokkasínur frá Pitti eða Magli. Síðan kom frelsið til Íslands og hægt var að fá allt hér. Til sögunnar kom Herrahúsið, sem var fyrst í Aðalstræti, síðan við Laugaveg, en hefur nú andazt inni í Kringlu. Eins og Boss og Steinar Waage. Í verzlunum nútímans fæst hvorki tangur né tetur af því sem ég vil kaupa.

Siðanefnd ræðir fyrirsagnir og myndir

Punktar

SIÐANEFND BLAÐAMANNAFÉLAGSINS hefur úrskurðað gegn DV í tveimur málum. Í hvorugu tilvikinu er dregið í efa, að DV hafi farið með rétt mál, en í báðum úrskurðað, að DV hafi ekki sýnt næga tillitsemi.

Í ÖÐRU MÁLINU ER VIÐURKENNT, að Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn sé opinber persóna og því eðlilegt að minnast á ættartengsl hans við soninn Þóri Rúnar Geirsson, sem reyndi að kyrkja hjartveikt gamalmenni í Grundarfirði, Guðmund Jóhannsson, er þurfti sprengitöflu til að ná sér eftir meðferð Þóris.

SIÐANEFNDIN TELUR HINS VEGAR, að fyrirsagnir og myndir í DV hafi ekki sýnt Geir Jóni Þórissyni nægt tillit og valdið honum óþarfa sársauka og vanvirðu. Það sé ámælisvert.

Í HINU MÁLINU ER FJALLAÐ um fréttir af hermannaveiki á Íslandi og úrskurðað, að ekki hafi neina nauðsyn borið til að almenningur vissi, hver sjúklingurinn væri né hvernig hann liti út. Fréttir DV hafi aukið þjáningar sjúklingsins og aðstandenda hans. Það sé alvarlegt brot á siðareglum.

SIÐAREGLUR BLAÐAMANNAFÉLAGSINS og dómvenja siðanefndar þess hefur frá upphafi lagt litla áherzlu á sannleikann í fréttum og jafnan sett tillit til málsaðila á hærri stall. Úrskurðir þessir eru í samræmi við það, sannleikurinn einskis metinn.

SIÐAREGLUR DV LEGGJA HINS vegar samkvæmt vestrænni fyrirmynd meiri áherzlu á sannleikann en tillitsemina, setja sannleikann á hærri stall. Það er sjónarmið, sem lengi hefur vantað í blaðamennsku hér á landi.

DV MUN FARA EFTIR siðareglum sínum, þótt þær stangist í þessu atriði á við siðareglur Blaðamannafélagsins, sem eru arfur frá vesælli tímum í blaðamennsku á Íslandi fyrir fjórum áratugum.

DV

Allir gátu séð bloggið

Punktar

EF SIGMUNDUR SIGURGEIRSSON svæðisútvarpsstjóri sendir Bjarna Harðarsyni álitsgjafa tölvupóst, er það einkamál þeirra. Ef Sigmundur bloggar hins vegar á netsvæði, sem allir geta séð, er það opinbert mál, sem getur varðað við meiðyrðalög.

HEIMA- OG BLOGGSÍÐUR eru ný tegund fjölmiðlunar, sem sumir hafa ekki áttað sig á. Þó er svo komið í Bandaríkjunum, að mikið af fréttaskúbbum birtist í slíkri fjölmiðlun. Dagblöð þar vestra fylgjast vel með slíkum síðum við fréttaöflun.

EF DV VÆRI EINA BLAÐIÐ á landinu, sem fylgdist með heima- og bloggsíðum, væri íslenzk blaðamennska léleg. En fleiri blöð birta daglega efni af slíkum síðum. Að vísu ekki Sunnlenska, sem fyrir er fullt af efni frá fyrirtækjum og stofnunum, er þurfa að koma sér á framfæri.

EÐLILEGT ER AÐ RÍKISÚTVARPIÐ efist um starfsgetu Sigmundar eftir óvenjulega hastarlegt níð hans á bloggsíðu sinni. Hann er þar á opinberum stað, þótt Bjarni Harðarson, ritstjóri Sunnlenska og álitsgjafi í Silfri Egils, telji annað.

EF MENN VILJA KOMA NÍÐI á framfæri við Bjarna eða lítinn hóp jámanna, geta þeir sent tölvupóst. Sigmundur kaus hins vegar að setja það í blogg og gera það að fjölmiðlun, aðgengilegri fyrir alla. Þá var hann kominn í hlutverk fjölmiðlungs.

BJARNI HEFUR ÁÐUR KVARTAÐ yfir afskiptum DV af meintum einkamálum manna á Suðurlandi, svo sem fréttum af einelti og sérstæðri hegðun í Þorlákshöfn. Kannski telur Bjarni allt sunnlenzkt vera einkamál nema “textreklame” frá fyrirtækjum.

DV

Vilja enga vestrænu

Punktar

Martin Woollacott segir í Guardian, að allt sé á hverfandi hveli í Miðausturlöndum. Afleiðingar hernáms Íraks séu aukin áhrif sjíta í Írak og Íran og leit þeirra að auknum áhrifum í öðrum löndum Persaflóa. Súnnítar hafi farið halloka og styðji í auknum mæli hryðjuverk í Írak og á Vesturlöndum. Íslam sé að breytast í ofsatrú með dálæti á hryðjuverkum. Bandaríkjamenn hafi talið, að vestræn öfl biðu framsóknar í þessum ríkjum, en í ljós hafi komið í kosningunum í Íran, að þau eru næsta fylgislítil. Almenningur er mjög trúrækinn og hefur meiri áhuga á mörgu öðru en vestrænum framförum.

Svartsýnir auðmenn

Punktar

Hnattrænir auðmenn hittust um daginn í Svíþjóð til að meta ástandið í heiminum og voru svartsýnni en nokkru sinni fyrr. Þeir ræddu um hrun alþjóðareglna að frumkvæði Bandaríkjanna og aukna andstöðu almennings við hnattvæðingu, um hörmuleg áhrif glannagangs Banaríkjanna í Írak og um að Bandaríkin séu hætt að vera góða aflið í heiminum, um hnökra í samruna Evrópuríkja og samstarfi Arabaríkja. Þeir höfðu áhyggjur af John Bolton, sem orðinn er sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum eftir að hafa margsagt, að samtökin séu marklaus. Við virðumst vera að lifa Jobsbók á nýjan hátt.

Menningarlandafræði

Punktar

Um langt árabil hefur verið talið ósiðlegt að tala um menningarlegan mun á fólki eftir uppruna og umhverfi. Það voru taldar leifar af yfirlæti hvíta mannsins í heiminum. Með auknu offorsi í viðbrögðum mikils fjölda múslima við breytingum í umhverfinu hafa menn þó aftur farið að tala um hina gömlu fræðigrein Max Weber og Samuel Huntington. Svo virðist sem tækni nútímans geri minnihlutahópum kleift að sameinast á netinu um sérstæðar skoðanir, sem eru andstæðar hnattvæðingu, vinnuofsa Bandaríkjamanna, einingu Evrópu, einingu araba og vestrinu almennt. Og svo framvegis.

Ógild handklæði

Punktar

Lögmaðurinn Ralf Höcker frá Köln hefur valdið skelfingu meðal þýzkra sólarlandafara með því að segja, að þeir geti ekki merkt sér svæði með því að leggja handklæðið þar. Ekkert í þýzkum eða spænskum lögum bannar öðrum að taka handklæðið, fleygja því í burtu og leggjast sjálfir á bekkinn eða í sandinn. Þetta kemur fram í merkri bók hans, New Dictionary of Popular Legal Errors, sem gefin var út í síðustu viku. Í bókinni má finna dæmi um ýmsa hegðun, sem fólk telur löglega, en er í raun ekki svo. Hér eftir verða Þjóðverjar að heyja baráttuna um plássið á annan hátt.

Ódýra flugið í Evrópu

Punktar

Menn gleyma stundum, þegar þeir fljúga fyrir slikk um alla Evrópu, að nýja og lága verðið er Evrópusambandinu að þakka. Áður fyrr hafði hvert land einokun fyrir sig og tryggði gæludýrafélagi landsins forgang í tvíhliða samningum við önnur ríki. Með reglum Evrópusambandsins hefur myndazt svigrúm fyrir flugfélög á borð við RyanAir og EasyJet, sem hafa ágætan fjárhag, þótt þau fljúgi um alla Evrópu fyrir fimmþúsund kall á sætið. Þetta þýðir, að fjöldi manna er farinn að venjast því að verja helginni, hvar sem hugurinn býður, til dæmis í Prag eða Písa, Feneyjum eða Frankfurt.

Ekki þjórfé lengur

Punktar

Meistarakokkurinn Thomas Keller á Per Se hefur valdið fjaðrafoki í New York með því að afnema þjórfé og bæta í staðinn prósentu á reikninginn eins og í Evrópu. Sáran kvarta frjálshyggjumenn og segja sósíalisma þannig ryðja auðhyggju úr vegi. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt, að upphæð þjórfjár er ekki í neinu sambandi við meint gæði þjónustunnar. Steven A. Shaw segir í New York Times, að þjónusta sé betri á stöðum með fastri prósentu í París en á þjórfjárhúsum Manhattan og að hún sé tiltölulega góð á MacDonalds, þótt þar sé ekki leyft að taka við þjórfé.

Er komið að 1914?

Punktar

Velmegun er orðin svo almenn og svo mikil er orðin vissan um endalausa hækkun hlutabréfa, að ástandið á Vesturlöndum er farið að minna á gullöldina, sem ríkti í heila öld í Evrópu fram að fyrri heimsstyrjöldinni, sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, án þess að umtalsverður ágreiningur væri um landamæri í Evrópu. Svo var Ferdinand erkihertogi skotinn og allt fór á hvolf. Samt var hann ekki einu sinni kóngur. Langt tímabil friðar og velsældar fær fólk til að trúa, að friður og velsæld verði til enda veraldarinnar, þótt sjá megi ýmsar blikur á lofti, sem menn neita að taka mark á.

Eitur í túnfiskdósum

Punktar

Þungamálmar finnast í auknum mæli í sjávarafurðum, einna mest í túnfiski, sem seldur er í dósum. Börn og unglingar, er nota túnfisk sem skyndibita, hafa reynzt missa eftirtekt og námsgetu. Algengt er í Bandaríkjunum, að þau hafi 25 sinnum meira magn í sér af þungamálmum en ráðlegt hámark. Börn og unglingar, sem hafa hætt að borða túnfisk, hafa náð sér aftur í eftirtekt og námsgetu. Spurningin er, hvenær mengun hafsins leiðir til of mikilla þungamálma í venjulegum fiski, sem við seljum til útlanda. Getur svo farið fyrr eða síðar, að útlendingar banni neyzlu fiskjar frá Íslandi?

Sporðreist hnattvæðing

Punktar

Hnattvæðingin á sér nokkra óvini, sem geta sporðreist hana. Vesturlöndum hefur ekki tekizt að nýta leiðir til að leysa olíuna af hólmi, til dæmis með vetni. Gífurlegur hagvöxtur er í risaríkjunum Kína og Indlandi, þar sem fólk er farið að hafa ráð á þvottavélum og sjónvarpi og sér einkabílinn í hillingum. Þetta mun valda auknum slagsmálum um verðmæt hráefni, einkum olíu, sem mest er til af í púðurtunnu þeirri, er nefnist Miðausturlönd, einkum í pappírstígrinum Sádi-Arabíu. Mikil og vaxandi hætta er á hryðjuverkum og styrjöldum í tengslum við olíudansinn á allra næstu árum.

Enginn áhugi á Baugsmáli

Punktar

Brezkir fjölmiðlar hafa verið einstaklega þögulir um ákæruna á Baug. Guardian hóf málið með breiðsíðu á föstudaginn, en eingöngu Times og Independent fylgdu í kjölfarið um helgina með litlum klausum, sem sögðu fátt. Telegraph kom loks í gær. Breiðsíðan virðist hafa þau áhrif, að fjölmiðlar telji málið fullrætt að sinni. Það verði því fréttirnar tvær í Guardian, sem stýri skoðunum Breta á Baugi og aðild hans að verzlunarkeðjum þar í landi. Mýgrútur er til af dagblöðum í Bretlandi, vikulegum fréttablöðum og fagritum á ýmsum sviðum, en Baugsmálið hefur ekki vakið þar upp neina elda.

Trúarofstæki á fullu

Punktar

George W. Bush Bandaríkjaforseti magnar þessa dagana ofstæki í trúmálum. Hann lýsti nýlega yfir, að þróunarkenning Darwins væri bara kenning, þótt mikið af vísindum nútímans noti hana sem staðreynd. Ennfremur lýsti hann yfir, að æðri hugsun sé að baki þróunar, þótt ekkert af vísindum nútímans noti sér það sem forsendu. Mikið æði er nú í Bandaríkjunum, einkum í biblíubeltinu, þar sem menn keppast við að líma inn í skólabækur aðvaranir gegn þróunarkenningu Darwins og ábendingar um, að kenningin um æðri hugsun að baki þróunar eigi líka að vera til athugunar í kennslu í raunvísindum.