Siðanefnd ræðir fyrirsagnir og myndir

Punktar

SIÐANEFND BLAÐAMANNAFÉLAGSINS hefur úrskurðað gegn DV í tveimur málum. Í hvorugu tilvikinu er dregið í efa, að DV hafi farið með rétt mál, en í báðum úrskurðað, að DV hafi ekki sýnt næga tillitsemi.

Í ÖÐRU MÁLINU ER VIÐURKENNT, að Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn sé opinber persóna og því eðlilegt að minnast á ættartengsl hans við soninn Þóri Rúnar Geirsson, sem reyndi að kyrkja hjartveikt gamalmenni í Grundarfirði, Guðmund Jóhannsson, er þurfti sprengitöflu til að ná sér eftir meðferð Þóris.

SIÐANEFNDIN TELUR HINS VEGAR, að fyrirsagnir og myndir í DV hafi ekki sýnt Geir Jóni Þórissyni nægt tillit og valdið honum óþarfa sársauka og vanvirðu. Það sé ámælisvert.

Í HINU MÁLINU ER FJALLAÐ um fréttir af hermannaveiki á Íslandi og úrskurðað, að ekki hafi neina nauðsyn borið til að almenningur vissi, hver sjúklingurinn væri né hvernig hann liti út. Fréttir DV hafi aukið þjáningar sjúklingsins og aðstandenda hans. Það sé alvarlegt brot á siðareglum.

SIÐAREGLUR BLAÐAMANNAFÉLAGSINS og dómvenja siðanefndar þess hefur frá upphafi lagt litla áherzlu á sannleikann í fréttum og jafnan sett tillit til málsaðila á hærri stall. Úrskurðir þessir eru í samræmi við það, sannleikurinn einskis metinn.

SIÐAREGLUR DV LEGGJA HINS vegar samkvæmt vestrænni fyrirmynd meiri áherzlu á sannleikann en tillitsemina, setja sannleikann á hærri stall. Það er sjónarmið, sem lengi hefur vantað í blaðamennsku hér á landi.

DV MUN FARA EFTIR siðareglum sínum, þótt þær stangist í þessu atriði á við siðareglur Blaðamannafélagsins, sem eru arfur frá vesælli tímum í blaðamennsku á Íslandi fyrir fjórum áratugum.

DV