Allir gátu séð bloggið

Punktar

EF SIGMUNDUR SIGURGEIRSSON svæðisútvarpsstjóri sendir Bjarna Harðarsyni álitsgjafa tölvupóst, er það einkamál þeirra. Ef Sigmundur bloggar hins vegar á netsvæði, sem allir geta séð, er það opinbert mál, sem getur varðað við meiðyrðalög.

HEIMA- OG BLOGGSÍÐUR eru ný tegund fjölmiðlunar, sem sumir hafa ekki áttað sig á. Þó er svo komið í Bandaríkjunum, að mikið af fréttaskúbbum birtist í slíkri fjölmiðlun. Dagblöð þar vestra fylgjast vel með slíkum síðum við fréttaöflun.

EF DV VÆRI EINA BLAÐIÐ á landinu, sem fylgdist með heima- og bloggsíðum, væri íslenzk blaðamennska léleg. En fleiri blöð birta daglega efni af slíkum síðum. Að vísu ekki Sunnlenska, sem fyrir er fullt af efni frá fyrirtækjum og stofnunum, er þurfa að koma sér á framfæri.

EÐLILEGT ER AÐ RÍKISÚTVARPIÐ efist um starfsgetu Sigmundar eftir óvenjulega hastarlegt níð hans á bloggsíðu sinni. Hann er þar á opinberum stað, þótt Bjarni Harðarson, ritstjóri Sunnlenska og álitsgjafi í Silfri Egils, telji annað.

EF MENN VILJA KOMA NÍÐI á framfæri við Bjarna eða lítinn hóp jámanna, geta þeir sent tölvupóst. Sigmundur kaus hins vegar að setja það í blogg og gera það að fjölmiðlun, aðgengilegri fyrir alla. Þá var hann kominn í hlutverk fjölmiðlungs.

BJARNI HEFUR ÁÐUR KVARTAÐ yfir afskiptum DV af meintum einkamálum manna á Suðurlandi, svo sem fréttum af einelti og sérstæðri hegðun í Þorlákshöfn. Kannski telur Bjarni allt sunnlenzkt vera einkamál nema “textreklame” frá fyrirtækjum.

DV