Punktar

Þetta varðar málið

Punktar

Auðvitað varðar það Baugsmálið, að ritstjóri Morgunblaðsins og baráttukonan gegn Baugi hafi verið í nánu sambandi. Það getur skýrt, hvers vegna Styrmir Gunnarsson hefur beitt sér persónulega af afli í málinu. Frásögn Morgunblaðsins í fyrradag af fundi hans með blaðamönnum segir svart á hvítu, að í sumum málum tekur hann að sér fréttastjórn og heldur öllum þráðum blaðsins í eigin hendi. Þar á meðal í þessu margrædda Baugsmáli. Svo er það auðvitað mál blaðamanna og aðstandenda Morgunblaðsins, hvort þeir sætta sig við þetta. En þeir geta ekki sagt, að Styrmir standi utan við málið.

Flest eru nýfrönsk

Punktar

Stjörnuhús Michelin í Kaupmannahöfn hafa flest franska matreiðslu, sum nýklassíska, en flest þó nýfranska. Noma er með svokallaða nýnorræna matreiðslu, sem dregur dám af nýklassískri og notar hráefni frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi. Era Ora er ítalskur staður. Kong Hans og Oubaek eru nýklassískir og hinir fimm eru nýfranskir, André, Godt, Kommandanten, Ensemble og Formel B. Að þessu leyti eru hlutföllin í Kaupmannahöfn betri en í Reykjavík, þar sem nánast allir toppstaðirnir eru nýklassískir. Enginn staður íslenzkur notar hreina og tæra nýfrönsku í matargerðarlist.

Stjörnuhúsin eru níu

Punktar

Stjörnuhús Michelin eru níu í Höfn. Tvær stjörnur koma í hlut Ensemble, sem er að baki Konunglega leikhússins við Tordenskjoldgade 11. Eina stjörnu fá Kommandanten að baki hótels Angleterre við Ny Adelgade 7, Kong Hans Kælder við kanalinn í Vingårdstræde, Pierre André við Ny Østergade 21 og Godt við Gothersgade 21, bæði að baki Angleterre, Oubaek við Store Kongensgade 52 og Dronningens Tværgade, Era Ora við Overgaden neden Vandet 33B í Kristjánshöfn, Formel B við Vesterbrogade 182 og loks það hús, sem ég er ekki sammála, Noma við Strandgade 93, við hlið sendiráðs Íslands.

Snætt í Kaupmannahöfn

Punktar

Enga trausta leiðsögn er að fá um matarhús í Kaupmannahöfn, aðra en gamla og gráa Michelin, sem sættir sig seint við breytingar. Dagblaðið Politiken birtir að vísu vikulega veitingahúsarýni, sem er svo nákvæm, að gott er að átta sig á aðstæðum. En erfitt er að henda reiður á gömlum blaðagreinum, aðeins þær yngstu eru á vef blaðsins. Um Kaupmannahöfn og raunar um aðrar höfuðborgir Norðurlanda vantar harðskeytta veitingarýni, til dæmis að hætti frönsku GaultMillau bókanna eða bandarísku Zagat-bókanna. Vegna þessa verð ég að nota Michelin, þegar ég fer til Hafnar.

Ensemble á toppnum

Punktar

Um daginn kom ég í Ensemble, sem nú hefur tekið við sem forustusauður Kaupmannahafnar í Michelin. Meistarinn er Mikkel Maarbjerg, sem áður var á Kommandanten. Matsalurinn er í nýtízku naumhyggjustíl og allt að því kuldalegur með opnu eldhúsi við Tordenskjoldgade 11. Þjónusta var auðvitað fyrsta flokks, en ekki ýkt. Enginn hefðbundinn matseðill með vali er á Ensemble, heldur er þar fastur seðill, sem allir fá og breytist á tveggja vikna fresti. Hann kostar nú 550 danskar krónur á mann. Saltfisk- og humarkæfa er oft einn forréttanna og dádýr er einn aðalréttanna. Meistaraklassi.

Kommandanten var fínn

Punktar

Ég kom á Kommandanten í vor og líkaði vel. Matsalurinn er á nokkrum gólfum í húsi frá átjándu öld í Ny Adelgade 7, hlöðnum blómum, dýrmætu postulíni og nútímalegum húsbúnaði, meðal annars úr smíðajárni. Barinn á neðri hæðinni er úr skipinu Dannebrog og listaverkin þar eru eftir Andy Warhol. Þjónusta var fyrsta flokks og matreiðslan blanda af danskri og franskri hefð. Ekkert veitingahús á Íslandi stenzt samanburð við Kommandanten, enda fengi íslenzkt hús tæpast stjörnu. Fimm rétta matseðill með lúðu og hagagrís að aðalréttum kostar um þessar mundir 690 danskar krónur.

Tveggja stjörnu skipti

Punktar

Veitingahúsabransinn í Kaupmannahöfn er í föstum skorðum eins og hér á landi. Efst tróna nokkur hús í nýklassískum stíl frönskum, þar af níu með stjörnu í Michelin. Skipti hafa orðið á tveggja stjörnu húsum. Kommandanten í Ny Adelgade að baki Angleterre hótels er dottinn niður í eina stjörnu og Ensemble að baki Konunglega leikhússins hefur í staðinn risið upp í tvær stjörnur. Michelin er að vísu tæpast marktækur mælikvarði, því að hann sér breytingar seint og illa. Eitthvað marktækt hlýtur þó vera að baki breytingum, siginu á Kommandanten og risinu á Ensemble.

Góðar járnbrautir

Punktar

Járnbrautir eru skemmtilegri aðferð við að ferðast en flugið. Á öðrum klassa í Evrópu er meira persónurými, við getum teygt úr okkur, verið með farangurinn handhægan, keypt okkur snarl, ef við nennum að bera okkur eftir því, lesið góða bók eða sofnað við rólegan nið ferðalagsins. Í vögnunum er fyrst og fremst nóg pláss milli breiðra stóla, enda kem ég úthvíldur út úr þriggja tíma lestarferð, en örmagna úr þriggja tíma flugi á þessum venjulega gripaklassa. Eini gallinn við lestirnar er, að nú orðið kostar farseðillinn þar eins mikið og í fluginu, eftir að flugverðlagið hrundi.

Norræn dagblöð

Punktar

Danir hafa BT og Extrabladet, Norðmenn hafa Verdens Gang og Dagbladet, Svíar hafa Expressen og Aftonbladet. Allt eru þetta gömul blöð. Þar hafa menn lengi vanizt persónulegri og beinskeyttri blaðamennsku eins og komin er til sögunnar á DV. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er ekkert rifizt út af þessu. Nýja blaðamennskan er þar komin til að vera. Hér á Íslandi eru hins vegar hræsnarar enn að rífast út í DV, af því að þeir eru vanir dagblöðum, sem tala undir rós um nafnlaust og myndlaust fólk. Hálf íslenzka þjóðin er enn ósátt við, að dagblöð fjalli á opinskáan hátt um persónur.

Danir reykja pípu

Punktar

Danir reykja ofboðslega eins og Hollendingar. Hvarvetna eru þar karlar með pípu, sem eru hættir að sjást í Reykjavík. Það eru mikil viðbrigði að fara frá Kaupmannahöfn til Málmeyjar. Svíar reykja ekki, þeir borða hollan mat og þeir hjóla. Enda eru sænskar konur fallegri en danskar konur, halda sér vel fram eftir öllum aldi, meðan danskar konur eru gráar eins og Margrét drottning, sem lengi hefur verið slæmt fordæmi. Mér er næst að halda, að drottningin sjálf beri hluta af ábyrgðinni á, að Danir eru sjúskaðri en nágrannar þeirra í Svíþjóð. Við erum sem betur fer líkari Svíum.

Morgunblaðið vaknar

Punktar

Það eru fleiri en Preston hjá Guardian, sem eru að velta vöngum yfir þessu. Morgunblaðið er byrjað að taka tillit til samkeppninnar. Um daginn birti það mynd af kærðum manni, sem ekki hafði fengið dóm og var raunar sýknaður degi síðar. Nokkrum dögum síðar birti það á forsíðu mynd af fótalausum strætisvagnastjóra á sóttarsæng. Það eru því fleiri en DV, sem brjótast um á hæl og hnakka til að verjast kröfu Persónuverndar um útvíkkað svið einkalífsins. Hefðbundnir fjölmiðlar verða annað hvort að reyna að svara kalli tímans eða sæta því að hinn nýi fjölmiðill, bloggið, valti yfir þá.

Bloggið tekur við

Punktar

Í Bandaríkjunum er bloggið orðið svo þróað, að flest skúbb í fjölmiðlum eiga þar upptök sín. Þeim fer fjölgandi, sem sækja upplýsingar um lífið og tilveruna ekki úr hefðbundnum fjölmiðlum, heldur úr blogginu. Ungt fólk sér hefðbundna fjölmiðla sem eins konar stofnanir, part af kerfinu. Mörgum framhaldsskólanemum finnst bezt, að ríkisstjórnin samþykki efni dagblaðanna fyrirfram. Þegar svigrúm hefðbundinna fjölmiðla þrengist, rennur bloggið í eyðurnar. Smám saman tekur það við af fjölmiðlum, sem drukkna í kröfum fólks um aukna tillitssemi við fólk, um útvíkkað hugtak einkalífsins.

Dissa stjórnmálin

Punktar

Nútímafólk hafnar stjórnmálamönnum og stjórnmálum. Peter Preston, útgáfustjóri Guardian, benti á það um daginn, að kjósendur og blaðalesendur væru alltaf að eldast. Unga fólkið tekur ekki við og les ekki Guardian, heldur Mirror og Sun, sem leggja bara eina síðu á dag undir kosningabaráttu. Aðrir hafa bent á, að stjórnmálamenn séu leiðinlegir, af því að þeir séu alltaf að rífast. Þeir rífast, þótt þeir séu komnir í ríkisstjórn og hafi ekki yfir neinu að kvarta. Þeir agnúast þá út í stjórnarandstöðuna, af því að þeir komast ekki upp úr sandkassanum, þar sem flokkarnir ólu þá upp.

Endurheimtum Vatnsmýrina

Punktar

LANGT ER SÍÐAN síðasta mýrin dó í Reykjavík. Kannski var það Kringlumýrin fyrir tveimur áratugum. Hún lifir enn í nafni hraðbrautar. Norðurmýrin lifir enn í reyfara eftir Arnald Indriðason. Vatnsmýrin er til umræðu sem óvinsælt flugvallarstæði, en sjálf er hún fyrir löngu horfin.

MÝRUM VAR SLÁTRAÐ í Reykjavík eins og á landsbyggðinni. Heil öld var undirlögð af skurðgreftri, þar sem landið var rist frá sjó og upp fyrir miðjar fjallahlíðar. Um tíma var þetta óstöðvandi aðgerð, því að skurðgröftur varð ein helzta tekjulind landbúnaðarins.

HALLDÓR KILJAN LAXNESS skrifaði um skurðina og undraðist óbeit þjóðarinnar á mýrum. Hann var lengi einn um þessa skoðun, en í nútímanum hafa menn vaknað til angurværrar minningar um megineinkenni landslags hér á landi, sem meðal annars skapaði þjóðlega hegðun, kallaða framsóknargöngulag.

Í NOKKUR ÁR HEFUR bændum verið borgað fyrir að moka ofan í skurði, sem þeir fengu áður styrki til grafa. Þetta er eins og girðingarnar, sem þeir fá nú styrki til að rífa og höfðu áður fengið styrki til að leggja. Þannig verður hringrás nútímans í landbúnaðinum, unz túnin leggjast í eyði.

REYKJAVÍKURBORG ÞARF AÐ taka þátt í þessu þjóðarátaki um endurheimt mýra og söngs mýrafugla. Nota má tækifærið, þegar við losnum við flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Þar á auðvitað hvorki að byggja hús né götur, heldur stífla framrás vatns, svo að aftur komi þar mýri eins og var í gamla daga.

KRAFAN ER ÞVÍ SÚ, að flugvöllurinn víki, ekki fyrir mannvirkjum, heldur fyrir endurvakinni mýri í Vatnsmýri. Svo má setja þar upp minnisvarða um aldarafmæli gullæðisins í Vatnsmýri fyrir daga flugvallarins. Og annan minnisvarða um tíðar ferðir dreifbýlinga til úthlutunarstofnana í Kvosinni.

DV

Kortleggið áfallaþol skerjabyggða

Punktar

MORGUNBLAÐIÐ SAGÐI í gær frá nefnd, sem er að meta áhættu af ýmsum uppákomum á höfuðborgarsvæðinu, svo sem veðurofsa og stórflóðum, sem hafa verið í fréttum undanfarna mánuði vegna flóðbylgjunnar við Indónesíu og fellibylsins í New Orleans. Í grein Moggans er sérstaklega vitnað til fellibylsins.

Á SAMA TÍMA FRÉTTUM við af nýjum aðgerðum erlendis til að mæta stórflóðum. Kaupmannahöfn er að hækka teina nýrrar neðanjarðarbrautar, hafnarborgirnar Hamborg og Rotterdam eru að efla flóðavarnir við höfnina, Sussex og Norfolk á Englandi eru að undirbúa færslu mannabyggðar frá ströndinni.

HÉR Á LANDI EIGUM VIÐ að minnast Básendaflóðsins fyrir 200 árum, þegar sjór gekk yfir Reykjavík um Kolbeinsstamýrina. Það var áður en mannana verk, svo sem aukinn útblástur koltvísýrings jók hættu á ofsa í veðurfari og hafstraumum, svo sem hefur skýrast komið í ljós í flóðinu í New Orleans.

ÞRÁTT FYRIR ALLT ÞETTA er í tízku hér að hanna alls konar mannvirki úti í sjó. Lengi hafa verið tillögur um að byggja flugvöll úti á skerjum í Skerjafirði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til fjölmenna byggð úti í Hólmanum og öðrum skerjum. Verkfræðingur hefur lengt byggðina út í yztu sker.

HUGMYND VERKFRÆÐINGSINS er róttækust. Hún gerir ráð fyrir, að landið verði þanið vestur fyrir Seltjarnarnes um Kerlingasker, Jörundaborða og Leiruboða langt vestur fyrir Álftanes. Þar úti á rúmsjó á að byggja alþjóðlegan flugvöll og járnbraut, auðvitað auk iðnaðarhverfa og íbúðabyggðar.

ALLAR ÞESSAR HUGMYNDIR um mannvirki í útskerjum eru botnlaust rugl og standast ekki áhættumat. Athyglisvert er, að aðdáendur flugvallar í Skerjafirði og aðdáendur byggðar úti í sjó og enn síður verkfræðingur yztuskerjastefnu hafa fjallað neitt að ráði um hættu af fárviðri og sjávargangi.

GOTT ER AÐ ÁHÆTTUNEFNDIN, sem Mogginn talar um, taki slíkar hugmyndir fyrir og afgreiði þær út af borðinu áður en vonlausir opokapólitíkusar gleypa við þeim og sporðrenna.

DV