Endurheimtum Vatnsmýrina

Punktar

LANGT ER SÍÐAN síðasta mýrin dó í Reykjavík. Kannski var það Kringlumýrin fyrir tveimur áratugum. Hún lifir enn í nafni hraðbrautar. Norðurmýrin lifir enn í reyfara eftir Arnald Indriðason. Vatnsmýrin er til umræðu sem óvinsælt flugvallarstæði, en sjálf er hún fyrir löngu horfin.

MÝRUM VAR SLÁTRAÐ í Reykjavík eins og á landsbyggðinni. Heil öld var undirlögð af skurðgreftri, þar sem landið var rist frá sjó og upp fyrir miðjar fjallahlíðar. Um tíma var þetta óstöðvandi aðgerð, því að skurðgröftur varð ein helzta tekjulind landbúnaðarins.

HALLDÓR KILJAN LAXNESS skrifaði um skurðina og undraðist óbeit þjóðarinnar á mýrum. Hann var lengi einn um þessa skoðun, en í nútímanum hafa menn vaknað til angurværrar minningar um megineinkenni landslags hér á landi, sem meðal annars skapaði þjóðlega hegðun, kallaða framsóknargöngulag.

Í NOKKUR ÁR HEFUR bændum verið borgað fyrir að moka ofan í skurði, sem þeir fengu áður styrki til grafa. Þetta er eins og girðingarnar, sem þeir fá nú styrki til að rífa og höfðu áður fengið styrki til að leggja. Þannig verður hringrás nútímans í landbúnaðinum, unz túnin leggjast í eyði.

REYKJAVÍKURBORG ÞARF AÐ taka þátt í þessu þjóðarátaki um endurheimt mýra og söngs mýrafugla. Nota má tækifærið, þegar við losnum við flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Þar á auðvitað hvorki að byggja hús né götur, heldur stífla framrás vatns, svo að aftur komi þar mýri eins og var í gamla daga.

KRAFAN ER ÞVÍ SÚ, að flugvöllurinn víki, ekki fyrir mannvirkjum, heldur fyrir endurvakinni mýri í Vatnsmýri. Svo má setja þar upp minnisvarða um aldarafmæli gullæðisins í Vatnsmýri fyrir daga flugvallarins. Og annan minnisvarða um tíðar ferðir dreifbýlinga til úthlutunarstofnana í Kvosinni.

DV