Punktar

Áfergja í plast

Punktar

Ég skil lítið í áfergju karlmanna í konur með áberandi plastbrjóst að hætti Pamelu Anderson, sem mér finnst vera fráhrindandi, líta út eins og skrímsli úr vísindaskáldsögu. Af hverju fá þeir sér ekki bara plastdúkku í kynórabúð í hverfi 101, úr því að plastið kveikir svona gríðarlega í þeim. Er ekki eitthvað athugavert við kynhvöt, sem snýst fyrst og fremst um plast? Ég mundi skilja þetta, ef það fæli í sér afturhvarf til smábarnsins, sem sækir næringu til mömmunnar, en mér er ómögulegt að setja plastið í slíkt samhengi, ekki frekar en í samhengi við kynferðismál.

Svimandi gróði

Punktar

Allt í kringum mig er fólk að reyna að hætta að reykja og er upptekið af því. Ég heyri um tyggjó og plástra, úða og stauta. Allt miðar þetta að því að fólk losni við tjöru án þess að missa af nikótínfíkn. Að fólk spari sér krabbamein og 360 þúsund króna kostnað á ári, sem þýði 600 þúsund króna laun. Það leggi í staðinn út 240 þúsund krónur á ári í nikótínlausnir, sem þýðir 400 þúsund krónur í laun. Ég var svo heppinn fyrir sautján árum, að ekkert af þessu dóti var til. Þess vegna gat ég losnað bæði við tjöruna og fíknina og hef síðan grætt um tuttugu milljónir að vöxtum meðtöldum.

Jón Ólafsson eltir Hannes Hólmstein

Punktar

MIKIL HLÝTUR REIÐI Jóns Ólafssonar að vera, úr því að hann fór fyrst aftan að Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni með málaferlum um meðyrði í London og eltir hann síðan upp til Íslands með ellefu milljón króna kröfu, allt vegna ummæla á ensku á ráðstefnu í Borgarfirði og á heimasíðu Hannesar.

AUÐVITAÐ MÁ SEGJA, að Hannes hefði átt að grípa til varna fyrir dómstóli í London. Það hefði örugglega leitt til lægri skaðabóta. En málarekstur í London hefði kostað mikla fyrirhöfn og kostnað, sem einstaklingar mikla auðvitað fyrir sér, þótt Hannes sé raunar mikið á ferð og flugi í útlöndum.

RAUNAR ER ÁHYGGJUEFNI, að brezkur dómur skuli dæma mann til að greiða svona háar bætur, án þess að hafa hlustað á rök hans eða lögmanns hans. Dómstólar verða að taka tillit til, hvort sakborningar búa í útlöndum eða ekki og hvaða aðstöðu þeir hafa til að verja hendur sínar gegn fullum höndum fjár.

LÍKLEGT MÁ TELJA, að vinir Hannesar skjóti saman peningum handa honum, enda hefur hann verið fremstur á götuvirkjum hinnar pólitísku umræðu hér á landi, venjulega í þágu vina sinna fremur en í þágu sjónarmiða sinna. Það stendur upp á vinina, að sjá til þess, að Hannes beri ekki fullan skaða.

DÓMAR Í BRETLANDI vegna meiðyrða hafa löngum verið sérstæðir í Evrópu, aðallega vegna meints gróða fjölmiðla af röngum fréttum. Hannes Hólmsteinn er sjálfur enginn fjölmiðill, en í seinni tíð hafa menn ekki varað sig á, að smám saman er réttilega farið að líta á heimasíður manna sem fjölmiðla.

VIÐ ERUM Í SAMSTARFI við Evrópu um fullnustu dóma, aðilar að Lugano-sáttmálanum, þar sem meðal annars segir, að dómar í einkamálum séu viðurkenndir milli landa. Við getum talið eðlilegt, að meiðyrðadómar í Evrópu séu viðurkenndir á Íslandi, en þurfum að líta brezka dóma sérstökum augum.

BREZKIR DÓMAR UM SEKT eða sakleysi geta gilt hér á landi, en setja þarf skorður við fáránlegum upphæðum, sem úrskurðaðir eru í Bretlandi. Með tilvísun til sérstöðu brezkra dóma þurfa aðilar Lugano-sáttmálans að setjast niður til að ræða, hvernig skuli fara með brezka sérstöðu í meiðyrðadómum.

DV

Spánsk vín eru góð

Punktar

Undantekning á harðindum ferðamanna á Spáni er rauðvínið. Liðin er sú tíð, að menn þurfi að spyrja um Riocha til að fá frambærilegt borðvín. Flest héruð bjóða nú ágæt staðarvín, sem eru á matseðlum, oftast úr tempranillo vínberjum, en stundum úr blöndu með cabernet sauvignon undir áhrifum frá Frakklandi. Samferðafólk mitt var almennt ánægt með þessi staðarvín, en var minna hrifið af sterkari drykkjum á borð við brandí með kaffi. Á hótelum eru Spánverjar sem betur fer ekki með amerískt kaffivatn í morgunmat, heldur sterkt kaffi, ekki alveg eins gott og espresso, en frambærilegt.

Alls staðar sama sagan

Punktar

Ég fór um nokkur héruð Spánar um daginn, Extremadura, León, La Mancha og Andalúsíu, og fann hvarvetna sama skortinn á tilfinningu fyrir hráefni og fyrir pælingum nútímans í matargerð, raunar svipað og í Grikklandi. Algengt var að kryddleggja villibráð í römmu ediki og mauksjóða hana síðan. Kartöflur voru alltaf djúpsteiktar. Eftirréttir voru oftast ofursætar kökur. Eina leiðin til að forðast þetta var að nota leiðsögubækur á borð við rauða Michelin franska, sem tína upp þá fáu staði, er hafa fylgzt með tímanum eða ráðið Baska í eldhúsið eða sýna á annan hátt metnað í faginu.

Spánskir veitingastaðir

Punktar

Ítalskir og indverskir, kínverskir og japanskir, franskir og bandarískir veitingastaðir eru í hverri einustu borg, sem er borg með borgum í hinum vestræna heimi. Spánskir matstaðir eru hins vegar ekki algengir. Á því er einföld skýring. Spönsk matreiðsla er léleg, ef undan er skilið Baskaland á norðurströnd landsins. Spönsk matreiðsla einkennist af tapas, smáréttum, sem jóðla í olífuolíu, og paella, sem er hrísgrjónaréttur langt að baki ítölsku risotto. Spánskir kokkar hafa ekki lag á að láta hráefnin njóta sín. Þeir eru uppteknir af gamaldags sósum og arabískum langtímasuðum.

Góðar skemmti- og persónufréttir

Punktar

“EKKI ER HÆGT að neita, að hreinar skemmtifréttir hafa hlutverk í skoðanamyndun. Annars væri maður að gera ráð fyrir, að þær þjónuðu aðeins skemmtun, slökun, lífsflótta eða dreifingu hugans.”

HÉR ER HÆSTIRÉTTUR Þýzkalands að fjalla um Karólínumálið, þar sem kvartað var yfir myndbirtingum í þýzkum blöðum af aðlinum í Monaco. Í dómsorðunum segir áfram:

“SKEMMTIFRÉTTIR GETA líka sýnt mynd af veruleika og teflt fram umræðuefnum, sem leiða til viðbragða notenda og hafa áhrif á lífssýn þeirra, á mynztur gilda þeirra og hegðunar.

ÞANNIG HAFA skemmtifréttir mikilvæg félagsleg hlutverk. Þegar þær eru skoðaðar í ljósi varna prentfrelsis, er ekki hægt að telja þær smáar eða lítils virði. Því falla þær undir almenn mannréttindi.”

HÆSTIRÉTTURINN fjallaði ekki bara um stöðu skemmtifrétta í tilverunni, heldur hélt áfram í sama dúr um stöðu persónufrétta:

“SAMA ER AÐ SEGJA um fréttir af persónum. Persónufréttir eru mikilvæg aðferð í blaðamennsku við að draga að athygli. Oft eru persónufréttir það, sem fyrst vekur athygli á vandamáli og örvar óskir um staðreyndir. Á sama hátt er áhugi á viðburðum eða aðstæðum oft vakinn með persónufréttum.

ÞAR AÐ AUKI BÝR frægðarfólk yfir siðferði og lífsstíl, sem hefur áhrif á aðra, annað hvort til eftirbreytni eða til fráhvarfs. Frægðarfólk verður að skurðpunktum, þar sem kristallast gott og vont fordæmi. Því hafa fjölmiðlar áhuga á brokkgengu lífi frægðarfólks.”

HIMINN OG HAF er milli sjónarmiða Hæstaréttar Þýzkalands, sem sýknaði blöðin, og ýmissa álitsgjafa hér á landi, sem fjallað hafa um nafnbirtingar og myndbirtingar.

Mikill árangur DeLay

Punktar

Tom DeLay náði þeim árangri, að stærsta þrýstifyrirtækið við K-stræti er eingöngu skipað repúblikönum, að 33 af 36 stærstu fyrirtækjunum á því sviði er eingöngu stjórnað af repúblikönum. Hann náði þeim árangri, að margir eigendur fjölmiðla þorðu varla að segja frá, þegar hann var hrakinn úr formennsku vegna spillingar. Hann náði þeim árangri, að 80% af kosningafé olíufyrirtækja rennur til repúblikana. Tveir aðstoðarmanna hans og vina, Michael Scanlon og Jack Abramoff, eru líka komnir í klær réttvísinnar. Nú er þessi mikli snillingur glæpanna kominn á leiðarenda í pólitík.

Svartir listar DeLay

Punktar

Tom DeLay sýndi blaðamönnum minnisbækur með svörtum listum yfir fyrirtæki og greinar, sem ekki máttu koma sjónarmiðum sínum á framfæri við þingið, af því að þau eða þær höfðu greitt í kosningasjóði demókrata. Markmið hans var, að K-stræti í Washington, gata þrýstihópanna, væri eingöngu skipuð fyrirtækjum, sem hefðu alls enga demókrata í vinnu. Í tíð hans varð þingið að strangri skömmtunarstofu, þar sem eingöngu var hlustað á trausta repúblikana og fjármagni hins opinbera eingöngu veitt til áhugamála þeirra, svo sem til afnáms náttúruverndar og til aukinnar olíumengunar.

Ofsatrúaður Tom DeLay

Punktar

Tom DeLay var fram að helgi formaður þingflokks repúblikana í Bandaríkjunum, baráttumaður ofsafenginnar kristni, eindreginn hatursmaður einstæðra mæðra og umhverfisverndar. Hann var holdgervingur alls pakkans á róttækasta hægri kantinum í bandarískri pólitík. Hann hefur verið notaður sem dæmi um, að menn, sem annars staðar í heiminum væru settir á hæli, haldi um stjórnvöl Bandaríkjanna. Nú hefur hann orðið að segja af sér formennsku fyrir flokkspólitíska spillingu í embætti, sem er sögð mun meiri en nokkur önnur spilling í vissulega nokkuð skrautlegri sögu bandaríska þingsins.

Össur og Ögmundur slúðra

Punktar

ÖSSUR OG ÖGMUNDUR slúðra um DV í fjölmiðlum vegna skrifa blaðsins um náið samband Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, og Jónínu Benediktsdóttur dálkahöfundar blaðsins. Þeir eru ósáttir við, að DV skuli segja frá slíku einkamáli. Tilræði við siðað lýðræði, segir Ögmundur.

EKKI EFAST ÞEIR SJÁLFIR frekar en aðrir um, að gagnkvæmur tölvupóstur milli Styrmis og Jónínu staðfesti frétt DV. Þeir neita hins vegar að láta sér detta í hug, að málarekstur Styrmis í þágu Jónínu eigi upptök í þessu sambandi. Þannig gerði Styrmir einmitt þetta einkamál að opinberu máli..

FRÉTT DV AF MÁLINU var ekki slúður, heldur sannleikanum samkvæm. Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson eru hins vegar pólitíkusar að reyna að slá ódýrar pólitískar keilur með því að slúðra um DV í von um, að fjölmennur minnihluti hræsnara í þjóðfélaginu minnist þeirra með hlýju..

ÞJÓÐFÉLAGIÐ ER HÉR Á LANDI meira eða minna gegnsýrt af samráði og spillingu, þar sem mikilvægara er talið að þegja yfir málum með tilvísun til friðhelgi einkalífs, heldur en að segja dónalegan sannleika. Þessi hræsni mun sízt minnka, ef þeir Össur og Ögmundur komast einhvern tíma til áhrifa..

VONANDI KOMAST SLÚÐRARARNIR Össur og Ögmundur ekki til valda og fá ekki tækifæri til að leggja lóð á þá vogarskál, að yfir þjóðfélaginu ríki biskup, sem ákveði, hvenær eigi að segja fréttir og hvenær eigi að þegja fréttir. Þeir félagar eru gamlingjar með úrelt viðhorf frá valdaskeiði hræsninnar.

DV

Búnir að heyra nóg um Moggann

Punktar

UMRÆÐAN UM ÞÁTT MOGGANS í Baugsmálinu er kominn í þann farveg, að flestir eru búnir að loka sig inni í sinni skel og vilja ekki hlusta á meira. Sá helmingur þjóðarinnar, sem vill trúa því, að allt sé gott og fagurt í þjóðfélaginu, í ríkisstjórninni og í Mogganum, hefur fengið nóg af soranum.

HINIR ERU ENN AÐ MELTA þá miklu uppljóstrun, sem kom fram í frásögn af starfsmannafundi ritstjórans, að Morgunblaðið stendur oft gagnvart vali milli þess að segja fréttir, að þegja fréttir og búa til fréttir. Ef til dæmis er um að ræða Baug eða samráð olíufélaganna, færast fréttaskrifin af gólfi fréttastofunnar inn á kontór ritstjórans.

EKKI VELTA MENN MINNA vöngum yfir því, að Morgunblaðið skuli vera hlynnt uppljóstrunum úr tölvupósti og öðrum pósti, þegar það hefur sjálft verið að verki, svo sem um Gunnlaug Sigmundsson eða um Össur Skarphéðinsson, en er andvígt slíkum uppljóstrunum, ef þær birtast í öðrum blöðum og fjalla um Moggann og þá um ritstjórann sérstaklega.

LOKS ÞYKIR SUMUM SÉRSTAKT, að ritstjórinn skuli skrifa um, að honum hafi um langt árabil borizt mikið af leyndarskjölum af ýmsu tagi um menn og málefni, sem hann hefur ekki séð ástæðu til að birta, en gæti hugsanlega skipt um skoðun, væntanlega ef ekki linni hvassviðrinu um ritstjórn Moggans. Á að túlka þetta sem loforð, hótun eða neyðaróp?

ÞESSI HELMINGUR ÞJÓÐARINNAR er líka búinn að heyra nóg. Hann hefur séð raunveruleikann á bak við þá biskupsstofu, sem stýrir skrifum Morgunblaðsins. Á bak við sífellt jag um eigin heilagleika, hafa menn séð alls konar rugl, stórt og smátt, sem ekki á neitt skylt við fréttaflutning eða aðra heiðarlega blaðamennsku.

ÞETTA ER SKÝRINGIN á því, að þeir, sem eru yfir fimmtugt, halda tryggð við Moggann sinn, en þeir, sem eru undir fimmtugu, skilja hann alls ekki. Mogginn er nefnilega kansellí með siðferði kammerherra.

DV

Handstýrðar fréttir

Punktar

Morgunblaðið er ekki hefðbundinn miðill, heldur stofnun á borð við þjóðkirkjuna. Þar er biskup, sem ákveður, að ekki sé sagt frá mikilvægum fréttum á borð við hótanir Davíðs í garð umboðsmanns Alþingis. Þar er biskup, sem ákveður í smæstu atriðum, hvernig fjallað er um lykilfréttir á borð við Baugsmál og samráð olíufélaga. Það kom fram á fundi hans með starfsfólki ritstjórnar. Svo kom í ljós í frétt í DV, að hann hefur náinna persónuhagsmuna að gæta, sem Þorfinnar í þjóðfélaginu hafa vitað um, en haldið leyndu, af því að það er ekki til siðs að fjalla um einkamál. Því þarf þjóðin DV.

Þetta varðar málið

Punktar

Auðvitað varðar það Baugsmálið, að ritstjóri Morgunblaðsins og baráttukonan gegn Baugi hafi verið í nánu sambandi. Það getur skýrt, hvers vegna Styrmir Gunnarsson hefur beitt sér persónulega af afli í málinu. Frásögn Morgunblaðsins í fyrradag af fundi hans með blaðamönnum segir svart á hvítu, að í sumum málum tekur hann að sér fréttastjórn og heldur öllum þráðum blaðsins í eigin hendi. Þar á meðal í þessu margrædda Baugsmáli. Svo er það auðvitað mál blaðamanna og aðstandenda Morgunblaðsins, hvort þeir sætta sig við þetta. En þeir geta ekki sagt, að Styrmir standi utan við málið.

Sagt á allra vitorði

Punktar

Margt er það, sem ég veit ekki. Þegar ég kom til landsins í fyrrakvöld, las ég, að háskólakennarinn Þorfinnur Ómarsson segi alla hafa fyrir löngu vitað um náið samband Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, og Jónínu Benediktsdóttur, baráttukonu gegn Baugi. Sjálfur kom ég af fjöllum, unz tölvupóstur milli þeirra varð að fréttaefni hér í blaðinu. Svona get ég verið utan gátta, þótt það sé atvinna mín að fylgjast með fréttum. Úti í bæ er hins vegar fullt af fólki, sem kann enga blaðamennsku, en veit samt um lykilatriði í framvindu mikilvægra mála í þjóðfélaginu.