Tom DeLay var fram að helgi formaður þingflokks repúblikana í Bandaríkjunum, baráttumaður ofsafenginnar kristni, eindreginn hatursmaður einstæðra mæðra og umhverfisverndar. Hann var holdgervingur alls pakkans á róttækasta hægri kantinum í bandarískri pólitík. Hann hefur verið notaður sem dæmi um, að menn, sem annars staðar í heiminum væru settir á hæli, haldi um stjórnvöl Bandaríkjanna. Nú hefur hann orðið að segja af sér formennsku fyrir flokkspólitíska spillingu í embætti, sem er sögð mun meiri en nokkur önnur spilling í vissulega nokkuð skrautlegri sögu bandaríska þingsins.