Búnir að heyra nóg um Moggann

Punktar

UMRÆÐAN UM ÞÁTT MOGGANS í Baugsmálinu er kominn í þann farveg, að flestir eru búnir að loka sig inni í sinni skel og vilja ekki hlusta á meira. Sá helmingur þjóðarinnar, sem vill trúa því, að allt sé gott og fagurt í þjóðfélaginu, í ríkisstjórninni og í Mogganum, hefur fengið nóg af soranum.

HINIR ERU ENN AÐ MELTA þá miklu uppljóstrun, sem kom fram í frásögn af starfsmannafundi ritstjórans, að Morgunblaðið stendur oft gagnvart vali milli þess að segja fréttir, að þegja fréttir og búa til fréttir. Ef til dæmis er um að ræða Baug eða samráð olíufélaganna, færast fréttaskrifin af gólfi fréttastofunnar inn á kontór ritstjórans.

EKKI VELTA MENN MINNA vöngum yfir því, að Morgunblaðið skuli vera hlynnt uppljóstrunum úr tölvupósti og öðrum pósti, þegar það hefur sjálft verið að verki, svo sem um Gunnlaug Sigmundsson eða um Össur Skarphéðinsson, en er andvígt slíkum uppljóstrunum, ef þær birtast í öðrum blöðum og fjalla um Moggann og þá um ritstjórann sérstaklega.

LOKS ÞYKIR SUMUM SÉRSTAKT, að ritstjórinn skuli skrifa um, að honum hafi um langt árabil borizt mikið af leyndarskjölum af ýmsu tagi um menn og málefni, sem hann hefur ekki séð ástæðu til að birta, en gæti hugsanlega skipt um skoðun, væntanlega ef ekki linni hvassviðrinu um ritstjórn Moggans. Á að túlka þetta sem loforð, hótun eða neyðaróp?

ÞESSI HELMINGUR ÞJÓÐARINNAR er líka búinn að heyra nóg. Hann hefur séð raunveruleikann á bak við þá biskupsstofu, sem stýrir skrifum Morgunblaðsins. Á bak við sífellt jag um eigin heilagleika, hafa menn séð alls konar rugl, stórt og smátt, sem ekki á neitt skylt við fréttaflutning eða aðra heiðarlega blaðamennsku.

ÞETTA ER SKÝRINGIN á því, að þeir, sem eru yfir fimmtugt, halda tryggð við Moggann sinn, en þeir, sem eru undir fimmtugu, skilja hann alls ekki. Mogginn er nefnilega kansellí með siðferði kammerherra.

DV