Góðar skemmti- og persónufréttir

Punktar

“EKKI ER HÆGT að neita, að hreinar skemmtifréttir hafa hlutverk í skoðanamyndun. Annars væri maður að gera ráð fyrir, að þær þjónuðu aðeins skemmtun, slökun, lífsflótta eða dreifingu hugans.”

HÉR ER HÆSTIRÉTTUR Þýzkalands að fjalla um Karólínumálið, þar sem kvartað var yfir myndbirtingum í þýzkum blöðum af aðlinum í Monaco. Í dómsorðunum segir áfram:

“SKEMMTIFRÉTTIR GETA líka sýnt mynd af veruleika og teflt fram umræðuefnum, sem leiða til viðbragða notenda og hafa áhrif á lífssýn þeirra, á mynztur gilda þeirra og hegðunar.

ÞANNIG HAFA skemmtifréttir mikilvæg félagsleg hlutverk. Þegar þær eru skoðaðar í ljósi varna prentfrelsis, er ekki hægt að telja þær smáar eða lítils virði. Því falla þær undir almenn mannréttindi.”

HÆSTIRÉTTURINN fjallaði ekki bara um stöðu skemmtifrétta í tilverunni, heldur hélt áfram í sama dúr um stöðu persónufrétta:

“SAMA ER AÐ SEGJA um fréttir af persónum. Persónufréttir eru mikilvæg aðferð í blaðamennsku við að draga að athygli. Oft eru persónufréttir það, sem fyrst vekur athygli á vandamáli og örvar óskir um staðreyndir. Á sama hátt er áhugi á viðburðum eða aðstæðum oft vakinn með persónufréttum.

ÞAR AÐ AUKI BÝR frægðarfólk yfir siðferði og lífsstíl, sem hefur áhrif á aðra, annað hvort til eftirbreytni eða til fráhvarfs. Frægðarfólk verður að skurðpunktum, þar sem kristallast gott og vont fordæmi. Því hafa fjölmiðlar áhuga á brokkgengu lífi frægðarfólks.”

HIMINN OG HAF er milli sjónarmiða Hæstaréttar Þýzkalands, sem sýknaði blöðin, og ýmissa álitsgjafa hér á landi, sem fjallað hafa um nafnbirtingar og myndbirtingar.