Margt er það, sem ég veit ekki. Þegar ég kom til landsins í fyrrakvöld, las ég, að háskólakennarinn Þorfinnur Ómarsson segi alla hafa fyrir löngu vitað um náið samband Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, og Jónínu Benediktsdóttur, baráttukonu gegn Baugi. Sjálfur kom ég af fjöllum, unz tölvupóstur milli þeirra varð að fréttaefni hér í blaðinu. Svona get ég verið utan gátta, þótt það sé atvinna mín að fylgjast með fréttum. Úti í bæ er hins vegar fullt af fólki, sem kann enga blaðamennsku, en veit samt um lykilatriði í framvindu mikilvægra mála í þjóðfélaginu.