Punktar

Woodward er fallinn

Punktar

BOB WOODWARD, blaðamaðurinn mikli frá Watergate, er fallinn af stalli. Umboðsmaður lesenda hjá Washington Post hefur áminnt hann og hann hefur beðist afsökunar. Hann lét spunameistara forsetans ljúga að sér og breiddi út lygar.

FYRIR TVEIMUR árum vissi Woodward um ýmis atriði um hjónin Joseph Wilson sendiherra, sem komst að raun um, að Írak hafði ekki keypt úraníum í Afríku, og Valerie Plame, sem var njósnari fyrir CIA og var opinberuð sem slík í hefndarskyni.

WOODWARD HÉLT vitneskju sinni leyndri fyrir ritstjórum Post, en notaði hana í skrifum og fullyrðingum í kjaftaþáttum í sjónvarpi, þar sem hann varði stjórnvöld og lýsti frati á skoðun Patrick Fitzgerald saksóknara á svonefndu Plamegate.

WOODWARD VAR átrúnaðargoð blaðamanna í lok Nixonstímans, en hefur nú sjálfur sogast inn í svartholið, þar sem söfnun auðs og frægðar hefur gert hann að hluta yfirstéttarinnar, sem hefur sameiginlegra hagsmuna að gæta gegn þjóðinni.

JUDITH MILLER var á endanum rekin frá New York Times fyrir svipað afbrot, vera í samkrulli með spunameisturum stjórnvalda til að koma spunanum á síður virtra dagblaða. Washington Post hefur hins vegar ekki rekið Woodward enn.

TRÚNAÐARBRESTUR New York Times við lesendur var hrikalegur og nú stefnir í enn meiri trúnaðarbrest hjá Washington Post. Benjamin Bradlee er fyrir löngu hættur þar sem ritstjóri fyrir aldurs sakir og aðrir bógar minni teknir við völdum.

ÞAÐ SEM ER að gerast hjá stórblöðum Bandaríkjanna er, að stjörnublaðamenn sturlast og hverfa inn í hringiðu kjaftaþátta í sjónvarpi og bókafrægðar og verða eins og hverjir aðrir fegurðarkóngar fréttamennsku í sjónvarpi.

ÞEIR LENDA Í hagsmunabandalagi frægðarfólks í pólitík, viðskiptum og sjónvarpi. Fall Woodward er mesta áfall, sem blaðamennska í heiminum hefur orðið fyrir um áratuga skeið.

DV

Safn af rusli

Punktar

Þegar fornleifar og sagnfræði og matreiðsla eru frátalin, er ekkert að finna á níutíu rásum Digital, sem spanna bíómyndir og teikniseríur og einkum boltaíþróttir yfir í helztu rásir nokkurra landa í Evrópu. Tölvan mín tekur fréttarásum CNN og BBC langt fram í hraða og gæðum. Ég nenni alls ekki að horfa á þessar samfelldu fréttarásir, sem endurtaka sömu fréttir í tímafrekri síbylju. Miklu betra, fljótlegra og hraðara er að hafa news.google uppi á skjánum og láta hana endurnýja sig á tíu mínútna fresti. Raunar er ég hættur að horfa á sjónvarp, hlusta bara með öðru eyranu úr öðru herbergi. Ég aðlagast.

Ferðir lélegar

Punktar

Ferðarásin er léleg, sumpart marklausar auglýsingar frá hagsmunaaðilum, stundum einhver skrípakarl, sem lætur illa. Þótt ferðir séu eitt mesta áhugamál mitt, hef ég ekki náð að festa mig við neinn þátt á þessari rás. Ég horfi í tvær-þrjár mínútur og gefst svo upp. Þetta er bara froða eins og nánast allar hinar rásirnar. Ég held, að einhver von sé í matargerðarrás BBC, þótt ég hafi ekki séð þar neitt, sem jafnast á við Jamie Oliver og hvað þá Nigellu Lawson, sem voru í gamla sjónvarpinu hér á landi. Einhvern tíma, þegar ég hef lítið að gera, reyni ég að kynnast rásinni betur.

Fornleifar beztar

Punktar

Af níutíu rásum á Digital staðnæmist ég aðeins við eina rás, þá sem fjallar um löngu liðna tíma. Ég hafði gaman af sjá fornleifauppgröft í Tróju og leitina að borg Hómers. Ég hafði gaman af að sjá hinar ýmsu birtingarmyndir Kínamúrsins og mér fannst gaman af leitinni að gömlum faraóum í Dal konunganna í Egyptalandi. Flestir þættir um sagnfræði og fornleifagröft á rásinni virðast vera sæmilega vel gerðir og auðvitað bezt þeir, þar sem minnst fer fyrir sögumanni og þar sem hann er ekki valinn út á fegurð. Þetta er það eina, sem ég hef grætt á Digital, síðan ég fékk það fyrir mánuði.

Rækjur hverfa

Punktar

Annars þurfum við ekki að kvarta um skort á hvítsveppum og kavíar. Við erum sjálf einfær um að útrýma hér tegundum, sem þykja lostæti víða um heim. Humarinn minnkar bæði að stærð og aflamagni. Rækjur geta ekki lengu haldið verksmiðjum opnum. Til skamms tíma hefur verið hægt að næla í kassa af góðum humri, sem var á leið til Frakklands, en innan fárra ára verður sá lúxus einnig að baki. Flest bendir til, að við rústum þorskinum líka. Enda er framtíðin í kynslóðum, sem kunna betur við hamborga og pítsur. Hvað verður þá um Humarhúsið, Tjörnina, Þrjá Frakka, Tvo fiska og Fiskgallerí?

Kavíar hverfur

Punktar

Ekta kavíar úr styrjuhrognum er líka á uppleið í verði og á útleið af markaði. 28 grömm af Beluga eru komin yfir 10.000 krónur á eBay. Þetta er svartamarkaðsverð, því að ekki er til neinn venjulegur markaður með Beluga, Oscietre og Sevruga, dýrstu þrjár tegundirnar. Íranir og Rússar veiða mest af þessum kavíar í Kaspíahafi. Lögleg og ólögleg ofveiði hefur farið úr böndum á þeim slóðum. Ekta kavíar er nánast hættur að sjást í veitingahúsum í Evrópu. Hann fer aðallega til arabískra fursta. Við fáum okkur ekki lengur ekta kavíar með kampavíni og pönnukökum á Petrossian.

Sveppir hverfa

Punktar

Lúxus matgæðinga verður dýrari með hverju árinu og senn ófáanlegur. 850 grömm af hvítsveppum, svonefndum “tartufo” frá Ítalíu, voru nýlega seld á uppboði á 42.000 evrur eða þrjár milljónir króna. Svartsveppir eru annað afbrigði, “truffles” frá Frans og hafa hingað til verið litlu ódýrari. Hvorir tveggja eru sveppir, sem finnast undir yfirborði jarðar og eru grafnir upp með aðstoð svína, sem eru sérþjálfuð til að finna af þeim magnaða lyktina. Þegar verð er komið í slíkar upphæðir, verða dauðlegir menn að hætta. Tournedos Rossini á Mirabelle verður bara minning úr æsku.

Persónuvernd á víðavangi

Punktar

PERSÓNUVERND er söm við sig. Forstjóri hennar, Sigrún Jóhannesdóttir, amast við eftirlitsmyndavélum í ársskýrslu sinni, telur þær grafa undan rétti fólks til einkalífs á almannafæri. Þetta er einkennilegt hugtak, einkalíf á almannafæri.

EINKALÍF túlkar Persónuvernd svo, að það nái langt út fyrir heimili fólks, nái til dæmis til alls konar hegðunar fólks á almannafæri. Sigrún hefur sérstaklega túlkað þá skoðun, að einkalífshelgi fylgi fólki eins og blaðra á vegferð þess um opinbera staði.

ÓBEIT Persónuverndar á eftirlitsmyndavélum er sömu ættar og óbeit hennar á aðgangi almennings að tjónasögu bíla og óbeit hennar á aðgangi almennings að ættfræði á vefnum. Svindl í bílasölu og ættir fólks eru hrein einkamál að mati hennar og forvera hennar.

ALLT LÍF þessarar stofnunar snýst um að loka gögnum fyrir fólki, að vinna gegn því, sem er hornsteinn lýðræðis í heiminum, það er að segja gegnsæi. Persónuvernd vill, að peningar séu einkamál, stjórnmál séu einkamál, glæpir séu einkamál.

STOFNUNIN hefur farið út fyrir verksvið sitt með því að reyna að segja fjölmiðlum fyrir verkum. Óumbeðin hefur hún gefið út álit, sem gagnrýnt hefur verið af prófessor í lögfræði. Álitið felur í sér, að fréttamenn megi ekki segja fréttir.

PERSÓNUVERND hefur haft mikil áhrif til ills. Nú æpa allir “einkamál”, þegar þeir hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Þannig telur utanríkisráðuneytið, að það sé einkamál fólks, hvort það fái diplómatapassa. Þetta eru sjúkleg áhrif frá Persónuvernd.

FORVERI Persónuverndar var Tölvunefnd, sem ætlað var að fjalla um tölvugögn. Nú er stofnunin byrjuð að og á eftir að valda miklum skaða, áður en hún verður aflögð. Baráttan gegn eftirlitsmyndavélum er dæmi um það.

DV

Það endar með her

Punktar

ERFITT VERÐUR að semja um svonefndar varnir landsins. Stjórn Bandaríkjanna hefur lagt til, að Ísland borgi ekki bara rekstur flugvallarins, heldur einnig rekstur svonefnds varnarliðs. Eins og önnur ríki Atlantshafsbandalagsins.

ÞETTA ER ANNAÐ viðhorf en það, sem Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hafa haldið fram, að hafi verið í viðræðum þeirra við George W. Bush Bandaríkjaforseta. Þeir gefa í skyn, að undirmenn Bush séu að tefla skákina að honum forspurðum.

MISVÍSANDI viðhorf aðila í Bandaríkjastjórn fara raunar eftir þekktum aðferðum í stofnunum, þar sem forstjórinn telur sig neyddan til að vera kurteisan út á við og aðstoðarmenn hans sjá svo um hörkuna í samningaviðræðum.

BANDARÍKIN telja sig ekki lengur hafa gagn af samningi um varnir á Íslandi. Áhyggjuefni þeirra eru ekki lengur handan Norðurpólsins, í Sovétríkjunum, heldur í þriðja heiminum, einkum í löndum múslima. Þetta eru nýir straumar að vestan.

VIÐ VERÐUM óhjákvæmilega að taka við rekstri flugvallarins og verðum jafnframt að ákveða, hvort okkur þyki svo vænt um sjálft varnarliðið, að við viljum borga fyrir það. Raunar vilja flestir losna við það, en það er önnur og gömul saga.

NÆSTA SKREF er, að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra klæðir gamalt áhugamál í ný föt. Hann kynnir heimavarnir, sem felast í landhelgisgæzlu, friðargæzlusveitum og svartstökkum lögreglunnar. Hann fer aftur að tala um íslenzkan her.

VIÐ GETUM dregið málið á langinn, ef við viljum og meðan Stephen Hadley hættir ekki bara að borga til að setja á okkur þrýsting.

DV

Langfeðgarnir

Punktar

Íslenzka eins og persneska og sanskrít er indóevrópskt mál, sem á rætur sínar hjá Kúrgönum, horfinni þjóð, sem var uppi fyrir 5.000 árum eða 150 kynslóðum. Tungumál þessi fylgja geninu M17, sem til dæmis greinir sanskrít frá dravídamálum í Indlandi. Genið M17 er komið út frá geninu M173, sem var einkenni hellamálara ísaldar, er útrýmdu Neanderdalskyninu, sem á sér enga arftaka í nútímanum. Genafræði nútímans er þannig í samræmi við eldri samanburðarfræði tungumála. Við erum komnir frá Kúrgönum, sem bjuggu á gresjum Úkraínu og Suður-Rússlands og voru fyrstir til að ríða hestum af viti.

Fosfórsprengur

Punktar

Ríkissjónvarpið á Ítalíu hefur sakað Bandaríkin um að nota fosfórsprengjur á byggð svæði í Írak og þannig valdið dauða og örorku saklauss fólks, til dæmis í Falluja, þar sem 300.000 manns urðu að flýja. Bandaríkin eru ekki aðilar að alþjóðlegu banni við notkun fosfórsprengja, ekki frekar en þau eru aðilar að alþjóðlegu banni við pyndingum og öðru ógeði í hernaði. Smám saman reytist burt stuðningur fólks við Bandaríkin. Berlusconi forsætisráðherra segist margoft hafa reynt að fá George W. Bush ofan af stríðsplönum sínum. Halldór Ásgrímsson er síðasti staðfasti stuðningsmaður Bush.

Má ekki bulla

Punktar

Ernst Zundel er 66 ára maður, sem hefur verið kærður í Þýzkalandi fyrir að afneita fjöldamorðum á gyðingum og að telja Hitler hafa verið hinn bezta mann. Þetta er skrítin kæra, því að menn ættu að mega hafa rangt fyrir sér, til dæmis halda því fram, að þróunarkenningin sé marklaus eða að jörðin sé flöt eða að CIA hafi látið drepa John F. Kennedy. Auðvitað eiga það að vera sjálfsögð mannréttindi að hafa skoðanir, án tillits til þess hvort félagslegur réttrúnaður á hverjum stað og tíma sé á öðru máli. Það er Þýzkalandi nútímans til skammar að hafa dregið Zundel fyrir dóm.

Framleiðir neyðina

Punktar

ÁSTA MÖLLER er varaformaður heilbrigðisnefndar Alþingis og hefur forustu um aðgerðir ríkisstjórnar og stjórnarflokkanna fyrir tvískiptu heilbrigðis- og tryggingakerfi, þar sem almenningur nýtur lágmarksþjónustu og hinir betur settu geta keypt viðbótarþjónustu hjá fyrirtæki Ástu, Liðsinni ehf.

SPILLING ÁSTU er önnur og meiri en spilling hinna mörgu þingmanna, sem beita atkvæði sínu í þágu hagsmuna úti í bæ, svo sem hagsmuna landbúnaðarins eða útgerðarmanna. Þeir eru að gæta hagsmuna hópa úti í bæ, en ekki eins fyrirtækis eins og Ásta gerir, ekki fyrirtækis þeirra sjálfra eins og Ásta.

HÉR ER EKKI verið að deila um félagshyggju og markaðshyggju eins og Egill Helgason heldur fram á vondum dögum. Hér er ekki verið að deila á, að þingmaður sé í bisness úti í bæ, heldur að hún sitji á fjárhirzlum okkar og framkalli þar þörf almennings fyrir viðskipti við hennar eigið fyrirtæki.

FÍNT ER, að þingmaður reki bisness úti í bæ, en ekki er fínt, að hún stýri nefnd, sem skammtar fé á þann hátt, að færi opnist fyrir hennar eigið persónulega fyrirtæki. Raunar er ekki heldur fínt, að þingmenn reki erindi fyrir hóp fyrirtækja, til dæmis fyrir útgerðarmenn eða landbúnað.

EN ÞAÐ ER örugglega ekki á gráa svæðinu, heldur langt inni á svarta svæðinu, þegar fyrirtækin eru eign þingmanna og fjölskyldu þeirra. Til dæmis er deiluefni, hvort eðlilegt sé, að forsætisráðherra og fjölskylda hans hagnist á, að forsætisráðherra hafði forustu um að gefa þeim kvóta.

EINFALDLEGA er það sannleikanum samkvæmt, þegar DV segir, að þingkona mali gull á neyð sjúklinga. Ásta Möller býr til neyðina og kemur svo sjálf með þjónustu, sem kostar peninga. DV ítrekar því fullyrðinguna.

DV

Kvótakórinn vælir enn

Punktar

VINSÆLDAÞRÁ hefur spillt Hafrannsóknastofnuninni og gert hana meðseka í ofveiði fiskistofna. Hún hefur árlega lagt fram tillögur, sem taka tillit til pólitískra og efnahagslegra sjónarmiða líðandi stundar. Hún er þrælpólitísk stofnun.

HAFRÓ ER MEÐSEK, en stjórnmálamenn og útgerðarmenn eru hinn raunverulegi glæpalýður. Árlega hefur sjávarútvegsráðherra gefið leyfi fyrir heldur meiri veiðum en Hafró hefur lagt til, fyrst og fremst vegna kröfu gírugra útgerðarmanna.

RÍKISSTJÓRN hefur gefið útgerðarmönnum kvótann og þeir hafa spillt þessari eign, sem áður var talin þjóðareign. Þeir hafa sölsað hana undir sig og bera fulla ábyrgð á allri ofveiði, þar á meðal á hruni þorsk- og rækjuveiða.

SAMÚÐ HÖFUM við ekki með sjávarútveginum. Hann er ekki lengur hornsteinn atvinnulífsins. Hvarvetna þarf erlent starfsfólk til að halda fiskvinnslu gangandi. Við erum hætt að hlusta á væl útvegsmanna. Þeir geta litið í eigin barm.

TIL AÐ BJARGA þorskinum undan hrammi útgerðarinnar, þarf að minnka árlega veiði úr 30% niður í 20%. Enn hörmulegri er staðan í rækjunni, þar sem ágirnd útgerðarmanna hefur farið hamförum. Allir heimta þeir, að ríkið komi sér til hjálpar.

VIÐ EIGUM EKKI að reyna að lækka gengið til að þóknast liði, sem hefur náð kvótanum af þjóðinni og farið illa með fiskistofnana. Við eigum ekki að hlusta á ómerkilega pólitíkusa og sveitastjórnarmenn í grátkór útgerðarinnar.

HAGSMUNAPOTARAR á borð við Einar Guðfinnsson ráðherra, Berg Ágústsson bæjarstjóra og Kristján Möller þingmann taka þátt í grátkórnum á síðum Morgunblaðsins, en þjóðin vill alls ekki hlusta.

DV

Bjánar við völd

Punktar

CHRISTOPHER MEYER, sem var sendiherra Breta í Bandaríkjunum, hefur lýst í Guardian skelfilegri heimsku og bjánaskap Tony Blair og ráðgjafa hans í opinberri heimsókn í Washington. Bandaríkjamenn héldu um magann og hlógu að föruneytinu.

JOHN PRESCOTT ráðherra reyndi að slá um sig með skoðunum á “Balklöndum” og “Kovasa” samkvæmt orðfæri hans. Jonathan Powell og Alastair Campbell voru önnum kafnir að klippa sendiherrann út úr boðum og komast sjálfir í staðinn.

TONY OG CLAIRE Blair voru eins og túristar frá miðlöndum Bretlands, störðu opineyg á frægðarfólk úr leikara- og söngvarabransanum. Lýsing sendiherrans á bjánaskapnum er stórfengleg og vekur skilning á fylgispekt Blair við Bush.

MEÐAN TONY Blair starði í vímu ferðamannsins á allt, sem hann sá, voru Powell og Campbell að plotta framhjá honum í farsímum í öðrum bílum. Meyer sendiherra segir sér hafa tekizt að hindra brögð þeirra, en mikill tími hafi eyðst.

MEYER SENDIHERRA telur forsætisráðherra sinn, ráðherra hans og ráðgjafa vera hreina fávita. Það eina, sem Powell og Campbell hafi kunnað, var að ljúga í Mirror og Sun kjaftasögum um, hvað þeir hafi verið klárir og sniðugir.

FÁHEYRT ER, að fyrrverandi sendiherra lands segi slíkar sögur af ráðamönnum þjóðar sinnar í viðtali við dagblað. Christopher Meyer verður því seint sakaður um hugleysi.

EN ER HANN ekki bara einmitt að lýsa ráðamönnum eins og þeir eru flestir í raun? Og er hann ekki að lýsa frati á kjósendur, sem gera ruglaða sölumenn snákaolíu að landsfeðrum sínum.

DV