Kvótakórinn vælir enn

Punktar

VINSÆLDAÞRÁ hefur spillt Hafrannsóknastofnuninni og gert hana meðseka í ofveiði fiskistofna. Hún hefur árlega lagt fram tillögur, sem taka tillit til pólitískra og efnahagslegra sjónarmiða líðandi stundar. Hún er þrælpólitísk stofnun.

HAFRÓ ER MEÐSEK, en stjórnmálamenn og útgerðarmenn eru hinn raunverulegi glæpalýður. Árlega hefur sjávarútvegsráðherra gefið leyfi fyrir heldur meiri veiðum en Hafró hefur lagt til, fyrst og fremst vegna kröfu gírugra útgerðarmanna.

RÍKISSTJÓRN hefur gefið útgerðarmönnum kvótann og þeir hafa spillt þessari eign, sem áður var talin þjóðareign. Þeir hafa sölsað hana undir sig og bera fulla ábyrgð á allri ofveiði, þar á meðal á hruni þorsk- og rækjuveiða.

SAMÚÐ HÖFUM við ekki með sjávarútveginum. Hann er ekki lengur hornsteinn atvinnulífsins. Hvarvetna þarf erlent starfsfólk til að halda fiskvinnslu gangandi. Við erum hætt að hlusta á væl útvegsmanna. Þeir geta litið í eigin barm.

TIL AÐ BJARGA þorskinum undan hrammi útgerðarinnar, þarf að minnka árlega veiði úr 30% niður í 20%. Enn hörmulegri er staðan í rækjunni, þar sem ágirnd útgerðarmanna hefur farið hamförum. Allir heimta þeir, að ríkið komi sér til hjálpar.

VIÐ EIGUM EKKI að reyna að lækka gengið til að þóknast liði, sem hefur náð kvótanum af þjóðinni og farið illa með fiskistofnana. Við eigum ekki að hlusta á ómerkilega pólitíkusa og sveitastjórnarmenn í grátkór útgerðarinnar.

HAGSMUNAPOTARAR á borð við Einar Guðfinnsson ráðherra, Berg Ágústsson bæjarstjóra og Kristján Möller þingmann taka þátt í grátkórnum á síðum Morgunblaðsins, en þjóðin vill alls ekki hlusta.

DV