Framleiðir neyðina

Punktar

ÁSTA MÖLLER er varaformaður heilbrigðisnefndar Alþingis og hefur forustu um aðgerðir ríkisstjórnar og stjórnarflokkanna fyrir tvískiptu heilbrigðis- og tryggingakerfi, þar sem almenningur nýtur lágmarksþjónustu og hinir betur settu geta keypt viðbótarþjónustu hjá fyrirtæki Ástu, Liðsinni ehf.

SPILLING ÁSTU er önnur og meiri en spilling hinna mörgu þingmanna, sem beita atkvæði sínu í þágu hagsmuna úti í bæ, svo sem hagsmuna landbúnaðarins eða útgerðarmanna. Þeir eru að gæta hagsmuna hópa úti í bæ, en ekki eins fyrirtækis eins og Ásta gerir, ekki fyrirtækis þeirra sjálfra eins og Ásta.

HÉR ER EKKI verið að deila um félagshyggju og markaðshyggju eins og Egill Helgason heldur fram á vondum dögum. Hér er ekki verið að deila á, að þingmaður sé í bisness úti í bæ, heldur að hún sitji á fjárhirzlum okkar og framkalli þar þörf almennings fyrir viðskipti við hennar eigið fyrirtæki.

FÍNT ER, að þingmaður reki bisness úti í bæ, en ekki er fínt, að hún stýri nefnd, sem skammtar fé á þann hátt, að færi opnist fyrir hennar eigið persónulega fyrirtæki. Raunar er ekki heldur fínt, að þingmenn reki erindi fyrir hóp fyrirtækja, til dæmis fyrir útgerðarmenn eða landbúnað.

EN ÞAÐ ER örugglega ekki á gráa svæðinu, heldur langt inni á svarta svæðinu, þegar fyrirtækin eru eign þingmanna og fjölskyldu þeirra. Til dæmis er deiluefni, hvort eðlilegt sé, að forsætisráðherra og fjölskylda hans hagnist á, að forsætisráðherra hafði forustu um að gefa þeim kvóta.

EINFALDLEGA er það sannleikanum samkvæmt, þegar DV segir, að þingkona mali gull á neyð sjúklinga. Ásta Möller býr til neyðina og kemur svo sjálf með þjónustu, sem kostar peninga. DV ítrekar því fullyrðinguna.

DV