Punktar

Seinagangur Evrópu

Punktar

Bretland og Svíþjóð eru einu Evrópuríkin, sem fylgja áætlun um aðgerðir til að ná markmiðum Kyoto-bókunarinnar um takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Frakkland, Grikkland og Þýzkaland eru sögð geta náð markmiðunum í tæka tíð, ef þau taka sig á. Önnur ríki eru meira eða minna í vondum málum. Íslands er ekki getið í þessu samhengi, enda erum við stundum ekki talin til Evrópumanna. Það er óháð stofnun, IPPR, sem kannaði stöðu ríkjanna. Forstjóri hennar sagði, að mannkynið væri nú komið í þá stöðu, að skaða

Vænisjúkur Pútín

Punktar

Efri deild rússneska þingsins samþykkti eftir jól lög gegn samtökum áhugafólks, þar sem ríkisvaldinu er heimilað að loka skrifstofum þeirra. Leyniþjónusta Rússlands telur eins og ríkisstjórn Íslands, að vondir aðilar stjórni kontórum á borð við mannréttindaskrifstofur. Leyniþjónustan telur líka, að samtök áhugafólks reyni að efna til stjórnarbyltingar. Undir stjórn fyrrverandi leyniþjónustuforingja, Vladimír Pútins, er Rússland á hraðri leið frá lýðræði aftur til fyrri stjórnar leyniþjónustunnar á lífi fólksins í landinu. Hinn nýi Stalín mun staðfesta lögin upp úr áramótunum.

Í faðmi handrukkarans

Punktar

ÉG BÝ Á Seltjarnarnesi. Þar grípur fólk til sinna ráða, ef það líkar ekki gangur mála. Menn fara úr flokkspólitískum álögum og taka saman höndum um að gera bæinn betri. Við mundum reka af okkur glæpamenn, ef þeir settust þar að.

ÞANNIG VAR endur fyrir löngu stofnað ofnavinafélag til að knýja bæjaryfirvöld til að taka á saltvanda í hitaveitunni. Þar var stofnað félag til að stöðva byggð á óbyggðum svæðum á Valhúsahæð og við Nesstofu og nú síðast við Valhúsaskóla.

ÖNNUR VIÐHORF eru í Vogunum, þar sem almenningur virðist ánægður með að hafa þar verst ræmda handrukkara landsins. Með oddvitann í broddi fylkingar hafa íbúarnir selt sér þá firru, að þeir hvíli þar í öruggum faðmi Annþórs Karlssonar.

TIL GLÖGGVUNAR fólki er rétt að minna á, að Annþór vílaði ekki fyrir sér að misþyrma sjúklingi í rúmi með járnröri og tók fjölskyldu í gíslingu af því að sonurinn þekkti mann, sem Annþór taldi skulda sér fé. Fyrir þetta var hann dæmdur.

MUNURINN Á þessum tveimur sveitum er, að á Seltjarnarnesi ríkir eins konar “zero tolerance”, algert umburðarleysi gagnvart vandamálum, meðan í Vogunum ríkir þetta spillta umburðarlyndi, sem stundum er talið íslenzkt þjóðareinkenni.

MÉR FINNST skelfilegt að vita til þess, að oddvitinn í Vogunum sé þingmaður Samfylkingarinnar. Ég vildi ekki bera með atkvæði mínu ábyrgð á þingsetu hans. Ég held, að hann sé firrtur með sama hætti og umburðarlyndir íbúar í Vogunum.

ÞJÓÐFÉLAG GROTNAR að innan, ef menn taka upp á því að hugsa eins og Jón Gunnarsson oddviti og sveitungar hans þeir, sem trúa, að refurinn skíti ekki við grenið, og telja sig geta flutt vandamálið í aðrar sveitir með búsetu handrukkarans.

VOGAR HAFA skipulagt lóðir fyrir aðflutta. Ég efast um, að nokkur Seltirningur vilji fara þangað í faðm Annþórs. Og mér dytti sjálfum aldrei í hug að flytja í slíkt samfélag.

DV

Enginn tengist Halldóri

Punktar

ÓSKAR BERGSSON hefur engar vöflur á því. Hann sækist eftir toppsæti Framsóknar í prófkjöri til borgarstjórnar og segir framboð sitt byggjast að hluta á, að mikið ólag sé á forustu flokksins, einkum hjá Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra.

ÓSKAR NEFNIR sérstaklega, að Siv Friðleifsdóttur var kastað úr embætti ráðherra og að Árni Magnússon varð ráðherra fram yfir Jónínu Bjartmarz, sem hafi staðið nær embætti. Óskar telur vinnubrögð Halldórs í fleiru hafa skaðað flokkinn.

MEÐ ÞESSU er Óskar auðvitað að beina framboði sínu gegn Birni Inga Hrafnssyni, aðstoðarmanni forsætisráðherra, sem einnig sækist eftir toppsæti Framsóknar í Reykjavík. Litið hefur verið svo á, að Halldór styðji framboð Björns Inga.

VIÐBRÖGÐ frambjóðendanna Björns Inga og Önnu Kristinsdóttur eru eindregin. Þau segjast líka vera óháð forsætisráðherra. Björn Ingi segist ekki taka ummæli Óskars til sín og Anna segist ekki vera sérstaklega tengd flokksforustunni.

ATHYGLISVERT er, að allir þessir frambjóðendur vilja búa til gjá milli sín og Halldórs Ásgrímssonar. Allir vita þeir, að forsætisráðherra er meira en lítið meðsekur í fylgishruni flokksins í skoðanakönnunum og vilja hreinsa sig af honum.

VANDI FRAMSÓKNAR kristallast í framboði Óskars og viðbrögðum Björns Inga og Önnu. Enginn þeirra vill kannast við Halldór Ásgrímsson í sínu liði. Enginn þeirra telur það vera sér til framdráttar að tengjast formanni flokksins og liði hans.

ÞETTA SEGIR ALLT, sem segja þarf um ástandið í Framsókn eftir langvinna formennsku Halldórs og tilheyrandi fylgistap flokksins. Við vitum altjend, hver er líkið í lestinni.

DV

Tungur tvær

Punktar

Af hverju er Sigríður Anna að dásama þessar ágætu tungur, sem hafa verið friðaðar, en minnist ekki orði á Þjórsárver, þar sem allir bíða í væntingu eftir orðum hennar? Er hún að þyrla upp ryki í augu okkar, eins og Valgerður Sverrisdóttir mundi gera? Er hún að stimpla sig sem umhverfisvin, þótt það komi í ljós í vikunni, að hún hafni verndun Þjórsárvera? Að mér setur þann ugg, að hún sé sami venjulegi pólitíkusinn og sumir reyndari ráðherrar, segi eitt og meini annað og sé að undirbúa að vinna sig úr þeirri stöðu, er hún verður talin versti umhverfisráðherra sögunnar. Vegna Þjórsárvera.

Þjórsárver

Punktar

Var Sigríður Anna að skrifa um Þjórsárver, merkustu ver á Íslandi og þau, sem hafa mesta viðurkenningu sem slík á alþjóðlegum vettvangi? Hún á einmitt að úrskurða fyrir áramót, hvort hún eigi að fylgja Samvinnunefnd hálendisins, sem vill friða Þjórsárver, eða Skipulagsstofnun, er vill setja upp miðlunarlón, sem nær inn í verin. Síðari stofnunin gengur í takt við ágjarna Landsvirkjun, sem er blind á fegurð íslenzkrar náttúru. Nei, Sigríður Anna var ekki að skrifa um Þjórsárver, heldur um Guðlaugs-, Svörtu- og Álfgeirstungur norðan Kjalar. Hvað er eiginlega á seyði.

Sigríður Anna

Punktar

Ég fæ næstum hnút í magann, þegar ráðherra opnar munninn í umhverfismálum. Ég hef ekki neina reynzlu af Sigríði Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra, en mér finnst sumir þeir, sem lengur hafa verið við völd, gera sér far um að ljúga að fólki og blekkja það, til dæmis Valgerður Sverrisdóttir, einkum er hún nær samstillingu hugans með Landsvirkjun, sem er mesta ósanninda- og skæruliðastofnun landsins. Nú hefur Sigríður Anna skrifað í Moggann grein um friðland, sem hún hefur leyft, að sé verndað, einkum vegna víðfeðms og gróins votlendis og fjölbreyttra mýra með mikilvægu gæsavarpi.

Garðar Garðarsson

Punktar

Garðar Garðarsson er formaður Kjaradóms, stofnunar, sem hefur um langt árabil markvisst unnið að auknum launamun og stéttaskiptingu í þjóðfélaginu með því að hækka tekjur stjórnmálamanna og helztu embættismanna langt umfram hækkun tekna almennings. Undir hans stjórn er Kjaradómur ekki hlutlaus stofnun, sem reynir að fara bil beggja og halda friðinn í þjóðfélaginu, heldur eindreginn skæruliði af hálfu yfirstétta ríkisvaldsins. Annað hvort starfar hann að vilja ráðamanna þjóðfélagsins eða að hann leikur lausum hala og þá þarf að losna við hann til að halda friðinn í þjóðfélaginu.

Pétur Blöndal

Punktar

Mér finnst skrítið, að Pétur Blöndal skuli vera svo andvígur velferð og því fólki, sem notar hana, að hann skuli blanda dóttur sinni í málið. Hann ákvað sjálfur að kalla í fulltrúa Mæðrastyrksnefndar og kvarta yfir matargjöf til dóttur sinnar. Menn hljóta að vera óvenjulega sannfærðir í trúnni og einstrengingslegir til að halda þannig á málum. Pétur hefur lengi verið talsmaður kapítalismans hér á landi og hefur gert það vel á köflum. Þetta dregur hins vegar úr áliti manna á honum og fælir fólk frá kuldanum, sem stafar af óheftri trú hans á, að hver skuli vera eigin gæfu smiður.

Steinunn Valdís

Punktar

Hvort sem mönnum líkar betur eða verr við Jónas Jónsson frá Hriflu, verða allir að viðurkenna, að hann breytti Íslandi. Flestir stjórnmálamenn koma og fara, ná samkomulagi um hitt og þetta, en skilja ekki eftir sig nein spor. Nú er kominn borgarstjóri, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sem ákveður sig og er strax farin að skilja eftir sig spor. Hún er að gera leikskóla ókeypis, eitt skref á ári á næsta kjörtímabili. Samt hefur hún stórhækkað laun starfsfólks á leikskólum. Hún neitar þar á ofan að taka við launahækkun, sem valdaklíka þjóðfélagsins hafði tekið sér. Hún er að breyta landinu.

Borgað fyrir góðvild

Punktar

MEÐ AUKINNI velsæld fólks er það farið að taka siðferðilega afstöðu í kaupum á vörum og þjónustu. Við höfum sérverzlanir á borð við Yggdrasil á Skólavörðustíg, þar sem seldar eru afurðir, sem vottunarstofur segja framleiddar af sanngirni.

ÞESSI ÞRÓUN er komin lengra í Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem notað er hugtakið “fair trade” um þessa nýju stefnu. Það þýðir, að varan er ekki framleidd af þrælum, heldur af fátæku fólki, sem fær mannsæmandi laun í þriðja heiminum.

SÉRSTAKAR vottunarstofur ábyrgjast, að þetta sé satt, eins og aðrar vottunarstofur ábyrgjast, að matur sé lífrænt ræktaður. Raunar er það oft sama varan, sem hefur stimpil um, að hún sé lífrænt ræktuð og framleidd af sanngirni.

FRANCES SELLERS segir í Washington Post, að komið sé í tízku í Bandaríkjunum að kaupa jólagjafir, sem eru vottaðar á þennan hátt. Hún segir, að fólk sé óbeint að friða samvizku sína á jólunum, en um leið að efla hag fátæks verkafólks.

SVIPUÐ VOTTUNARSTEFNA hefur farið af stað í Evrópu í verndun náttúrunnar. Fiskur frá sumum stöðum hefur stimpil, sem segir, að hann komi af sjálfbærum fiskimiðum og sé ekki ofveiddur. Íslenzkur fiskur nýtur ekki slíkrar vottunar.

VIÐ ERUM komin á það stig velmegunar að töluverður fjöldi fólks er reiðubúinn að kaupa dýrari vöru fremur en ódýrari, ef það telur tryggt, að varan sé framleidd við aðstæður, sem fólk telur góðar, það er vistvænar, sjálfbærar, sanngjarnar.

STÓRMARKAÐIR í Bretlandi og Bandaríkjunum bjóða slíka vöru fyrir þessi jól, af því að hún gefur búðunum jákvæða ímynd. Þess er skammt að bíða, að sama breyting verði hér á landi. Komin eru egg undan útivistarhænum og lífrænt ræktuð vara.

ALLT ERU þetta dæmi um, að fólk er í eðli sínu gott og sé jafnvel reiðubúið að borga sérstaklega fyrir það.

DV

Krua Thai

Punktar

Krua Thai

Góður skyndibitastaður austrænn er á horni Geirsgötu og Tryggvagötu, Krua Thai, sem býður vel úti látna tælenzka rétti á 1000 krónur hvern. Í hádeginu er þar á ofan boðin fjórrétta blanda á 800 krónur. Þetta er auðvitað skyndibiti upp úr hitakössum, en mjög frambærilegur fyrir þetta verð. Húsakynni eru að vísu ekki merkileg, en tandurhrein og snyrtileg. Við diskinn má fletta handbók með myndum af réttunum að hætti margra skyndibitastaða. Þjónusta er hröð, ég var kominn heim aftur eftir 35 mínútur, þar af fimm mínútur í hvora ferð. Þetta er þriggja stjörnu staður.

Veitingarýni

Réttur dagsins var djúpsteiktur fiskur og tvenns konar kjúklingur, hrísgrjón og núðlur með sætsúrri sósu. Fiskurinn var furðanlega góður, að vísu frystur, en ekki gamall og ekki of mikið djúpsteiktur. Kjúklingurinn var mildur og meyr og sama var að segja um kjúkling með cashew-hnetum. Sterkari var svonefndur pad ped kjúklingur í rauðu karríi. Svínakjöt í mildri engifer- og ostrusósu var ekki nógu meyrt. Betra var svínakjöt satay í þunnum sneiðum á fimm grilluðum tréspjótum, ekki tiltakanlega ofeldað. Núðluréttur með kjúklingi var hvorki fallegur né áhugaverður.

Indland og Kína

Matreiðslan á Krua Thai er fínlegri en gengur og gerist á tælenzkum stöðum. Til dæmis var betur farið með fisk, sem annars staðar er eldaður út í eitt. Tæland er venjulega staðsett milli Kína og Indlands í matreiðslu. Frá Kína koma núðlur og frá Indlandi kemur karrí. Skyndibitastaður hlýtur í sjálfu sér að taka tillit til aðstæðna í nýju landi, en mér finnst þessi staður tiltakanlega ekta. Til að kynnast tælenzkri matreiðslu þarf þó að heimsækja dýrari staði.

DV

Svartar umhverfisfréttir

Punktar

HÖFRUNGAR í norðurhöfum eru orðnir ótrúlega mengaðir, segir BBC í fréttum. Þeir eru orðnir mengaðri en ísbirnir og hvalir, sem líka standa ofarlega í fæðukeðjunni. Mengun íshafsins byrjar í svifdýrum og færist svo upp fæðukeðjuna.

HÚN STAFAR af eiturefnum mannsins, svo sem skordýraeitri, plastefnum frá iðnaði og eldvarnakvoðu, sem enn er leyfð. Þetta er auðvitað áhyggjuefni öllu mannkyni, en einkum okkur, því að við búum við slóðir, þar sem eitrið endar.

GOLFSTRAUMURINN hefur minnkað í styrkleika um 30% segir brezka hafrannsóknastofnunin. Það getur leitt til, að hann nái ekki til Íslands og leiði annars vegar til minni veiði við Ísland og hins vegar til kaldara veðurfars við Ísland.

MINNKUN Golfstraumsins stafar af hitnum Mexikóflóa vegna áhrifa gróðurhúsalofttegunda. Sú hitnun leiðir til fleiri og stærri hvirfilbylja í Bandaríkjunum, en veldur okkur á Íslandi líka vandræðum, ef hún dregur úr Golfstraumnum.

Á FUNDI flestra ríkja heims í Montreal í Kanada fyrr í þessum mánuði náðu fulltrúar allra ríkja nema Bandaríkjanna samkomulagi um, að Kyoto-samkomulagið um varnir gegn eitri í andrúmsloftinu væri eini kosturinn í síversnandi stöðu.

SAMKOMULAGIÐ um ítrekun á Kyoto-bókuninni og um aðgerðir í framhaldi af henni, sýna rækilega, að menn eru búnir að gefast upp á að segja viðvaranir vísindamanna ekki vera sannaðar. Núna tala allir nema Bandaríkjamenn einum rómi.

Í HVERJUM mánuði hrannast upp nýjar viðvaranir. Sumar varða Ísland sérstaklega, af því að það situr á viðkvæmum stað á hnettinum. Við eigum að skoða betur erlendar fréttir af umhverfismálum og átta okkur á, að þetta er alls ekki grín.

UMHVERFISMÁL eru orðin spurning um líf og dauða á Íslandi.

DV

Ísland styður okkur

Punktar

COLIN POWELL segir í viðtali við BBC, að “Evrópa” geti ekki röflað mikið út af fangaflutningum um evrópska flugvelli, “evrópskir vinir okkar” vissu um þá. Utanríkisráðherrann fyrrverandi gerir ekki mun á fólki, þjóðum, ríkjum, löndum.

MARGIR RÁÐHERRAR í Evrópu vissu um flutningana, en þögðu um þá. Það var ekki fyrr en sannleikurinn lak út og almenningur varð reiður, að valdastéttir í Evrópu skiptu um stíl og fóru að kvarta um ofbeldi og yfirgang bandarískrar leyniþjónustu.

Á SAMA HÁTT þögðu bandarískir pólitíkusar um, að þúsundir Bandaríkjamanna sættu eftirliti leyniþjónustu. Það var ekki fyrr en New York Times braut þagnarmúrinn, að almenningur varð reiður og knúði pólitíkusana til að hugsa sinn gang.

Í BÁÐUM TILVIKUM var um bandarísk dagblöð að ræða. Fyrst sagði Washington Post frá fangafluginu og síðan sagði New York Times frá njósnum um borgarana, raunar eftir að hafa legið með eldfima vitneskjuna niðri í skúffu í heilt ár.

ÞESSI MÁL segja okkur margt um leyndina, sem hvílir yfir stórum þáttum ríkisvaldsins. Aðilar, sem taldir eru sækja vald sitt til kjósenda, eru sannfærðir um, að ekki megi opna neina glugga, ekki fyrr en dagblöð birta leka um svínaríið.

HERFORINGI og stjórnmálamaður á borð við Colin Powell lifir í fílabeinsturni, þar sem leikendur eru ráðherrar. Kjósendur eða almenningur kemur þar hvergi nærri. Þegar Powell talar um Evrópu, er hann að tala um tuttugu manns eða þrjátíu.

GEGNSÆI ER stærsta hagsmunamál kjósenda á Vesturlöndum, aðgangur fólks að fréttum, sem valdahafar halda leyndum. Hjúpur leyndar er varðveittur af lögregluráðherrum, leyniþjónustum og sérstökum reglugerðum til varnar leynd.

HÉR Á LANDI geta forsætis- og utanríkisráðherra farið í stríð við Langtburtistan án þess að spyrja nokkurn. Því getur Powell sagt: “Ísland styður okkur í Afganistan og í Írak. Þess vegna eiga Íslendingar ekki að vera að röfla.”

ÞVÍ MEIRI sem lekinn er í fjölmiðla, því minni munur er á valdhöfum og kjósendum og því meira er lýðræðið. Það er allt annað og merkilegra en kosningar á fjögurra ára fresti.

DV

Prestur stýrir sorg

Punktar

BOLLI BOLLASON prestur gefur ekki færi á neinni rökræðu um þá kenningu hans í Morgunblaðinu í gær, að DV líti á sig sem dómsvald og hafi hátt í nærveru sálar. Eina dæmið, sem hann nefnir er helber tilbúningur: “Stal penna á unglingsárum.”

GREININ MINNIR mig á prest fyrir nokkrum áratugum, sem var ósáttur við, að myndir birtust af látnum mönnum í sjóslysi, áður en hann taldi vera tíma til kominn og hafði hann þó haft miklu meira en nógan tíma til að ná í aðstandendur.

Í STAÐ ÞESS að sefa tilfinningar fólks, sem lenti í villum, fór hann að stýra þeim og magna þær, gera þær að óleysanlegu og varanlegu viðfangsefni sínu. Ég held, að þjóðkirkjan eigi að vara sig á slíkum aðferðum og alls ekki að hampa þeim.

BOLLI BOLLASON vill fá það, sem hann kallar nægan tíma með fólki, svo að það fái frið til að vinna úr sorgum sínum. Ég held, að hann sé raunar að búa til starfsvettvang til langs tíma, sem hentar betur sálfræðingum eða félagsráðgjöfum.

ÁÐUR FYRR leysti fólk sálræn vandamál sín að mestu leyti sjálft. Nú hafa komið til sögunnar sérstakar stéttir, sem aðstoða við það. Þekktust er áfallahjálp, þar sem prestar koma stundum við sögu. En þeir mega þá ekki magna sorgina.

ÞJÓÐKIRKJAN þarf að finna sér farveg við áfallahjálp, svo að starf hennar gagnist fólki við að komast aftur inn í gráan hversdagsleikann. Engum kemur að gagni, að prestar stýri sorginni og magni hana, unz hún verður óviðráðanleg.

HITT ER SVO alveg rétt, að prestum getur sárnað að fá það á tilfinninguna, að þeir séu í baráttu við tímann, þar sem fram streyma fréttir, sem breyta forsendum áfallahjálpar. Vill ekki Bolli bara banna fréttir? Það vilja sumir aðrir.

DV