Borgað fyrir góðvild

Punktar

MEÐ AUKINNI velsæld fólks er það farið að taka siðferðilega afstöðu í kaupum á vörum og þjónustu. Við höfum sérverzlanir á borð við Yggdrasil á Skólavörðustíg, þar sem seldar eru afurðir, sem vottunarstofur segja framleiddar af sanngirni.

ÞESSI ÞRÓUN er komin lengra í Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem notað er hugtakið “fair trade” um þessa nýju stefnu. Það þýðir, að varan er ekki framleidd af þrælum, heldur af fátæku fólki, sem fær mannsæmandi laun í þriðja heiminum.

SÉRSTAKAR vottunarstofur ábyrgjast, að þetta sé satt, eins og aðrar vottunarstofur ábyrgjast, að matur sé lífrænt ræktaður. Raunar er það oft sama varan, sem hefur stimpil um, að hún sé lífrænt ræktuð og framleidd af sanngirni.

FRANCES SELLERS segir í Washington Post, að komið sé í tízku í Bandaríkjunum að kaupa jólagjafir, sem eru vottaðar á þennan hátt. Hún segir, að fólk sé óbeint að friða samvizku sína á jólunum, en um leið að efla hag fátæks verkafólks.

SVIPUÐ VOTTUNARSTEFNA hefur farið af stað í Evrópu í verndun náttúrunnar. Fiskur frá sumum stöðum hefur stimpil, sem segir, að hann komi af sjálfbærum fiskimiðum og sé ekki ofveiddur. Íslenzkur fiskur nýtur ekki slíkrar vottunar.

VIÐ ERUM komin á það stig velmegunar að töluverður fjöldi fólks er reiðubúinn að kaupa dýrari vöru fremur en ódýrari, ef það telur tryggt, að varan sé framleidd við aðstæður, sem fólk telur góðar, það er vistvænar, sjálfbærar, sanngjarnar.

STÓRMARKAÐIR í Bretlandi og Bandaríkjunum bjóða slíka vöru fyrir þessi jól, af því að hún gefur búðunum jákvæða ímynd. Þess er skammt að bíða, að sama breyting verði hér á landi. Komin eru egg undan útivistarhænum og lífrænt ræktuð vara.

ALLT ERU þetta dæmi um, að fólk er í eðli sínu gott og sé jafnvel reiðubúið að borga sérstaklega fyrir það.

DV