Ísland styður okkur

Punktar

COLIN POWELL segir í viðtali við BBC, að “Evrópa” geti ekki röflað mikið út af fangaflutningum um evrópska flugvelli, “evrópskir vinir okkar” vissu um þá. Utanríkisráðherrann fyrrverandi gerir ekki mun á fólki, þjóðum, ríkjum, löndum.

MARGIR RÁÐHERRAR í Evrópu vissu um flutningana, en þögðu um þá. Það var ekki fyrr en sannleikurinn lak út og almenningur varð reiður, að valdastéttir í Evrópu skiptu um stíl og fóru að kvarta um ofbeldi og yfirgang bandarískrar leyniþjónustu.

Á SAMA HÁTT þögðu bandarískir pólitíkusar um, að þúsundir Bandaríkjamanna sættu eftirliti leyniþjónustu. Það var ekki fyrr en New York Times braut þagnarmúrinn, að almenningur varð reiður og knúði pólitíkusana til að hugsa sinn gang.

Í BÁÐUM TILVIKUM var um bandarísk dagblöð að ræða. Fyrst sagði Washington Post frá fangafluginu og síðan sagði New York Times frá njósnum um borgarana, raunar eftir að hafa legið með eldfima vitneskjuna niðri í skúffu í heilt ár.

ÞESSI MÁL segja okkur margt um leyndina, sem hvílir yfir stórum þáttum ríkisvaldsins. Aðilar, sem taldir eru sækja vald sitt til kjósenda, eru sannfærðir um, að ekki megi opna neina glugga, ekki fyrr en dagblöð birta leka um svínaríið.

HERFORINGI og stjórnmálamaður á borð við Colin Powell lifir í fílabeinsturni, þar sem leikendur eru ráðherrar. Kjósendur eða almenningur kemur þar hvergi nærri. Þegar Powell talar um Evrópu, er hann að tala um tuttugu manns eða þrjátíu.

GEGNSÆI ER stærsta hagsmunamál kjósenda á Vesturlöndum, aðgangur fólks að fréttum, sem valdahafar halda leyndum. Hjúpur leyndar er varðveittur af lögregluráðherrum, leyniþjónustum og sérstökum reglugerðum til varnar leynd.

HÉR Á LANDI geta forsætis- og utanríkisráðherra farið í stríð við Langtburtistan án þess að spyrja nokkurn. Því getur Powell sagt: “Ísland styður okkur í Afganistan og í Írak. Þess vegna eiga Íslendingar ekki að vera að röfla.”

ÞVÍ MEIRI sem lekinn er í fjölmiðla, því minni munur er á valdhöfum og kjósendum og því meira er lýðræðið. Það er allt annað og merkilegra en kosningar á fjögurra ára fresti.

DV