Prestur stýrir sorg

Punktar

BOLLI BOLLASON prestur gefur ekki færi á neinni rökræðu um þá kenningu hans í Morgunblaðinu í gær, að DV líti á sig sem dómsvald og hafi hátt í nærveru sálar. Eina dæmið, sem hann nefnir er helber tilbúningur: “Stal penna á unglingsárum.”

GREININ MINNIR mig á prest fyrir nokkrum áratugum, sem var ósáttur við, að myndir birtust af látnum mönnum í sjóslysi, áður en hann taldi vera tíma til kominn og hafði hann þó haft miklu meira en nógan tíma til að ná í aðstandendur.

Í STAÐ ÞESS að sefa tilfinningar fólks, sem lenti í villum, fór hann að stýra þeim og magna þær, gera þær að óleysanlegu og varanlegu viðfangsefni sínu. Ég held, að þjóðkirkjan eigi að vara sig á slíkum aðferðum og alls ekki að hampa þeim.

BOLLI BOLLASON vill fá það, sem hann kallar nægan tíma með fólki, svo að það fái frið til að vinna úr sorgum sínum. Ég held, að hann sé raunar að búa til starfsvettvang til langs tíma, sem hentar betur sálfræðingum eða félagsráðgjöfum.

ÁÐUR FYRR leysti fólk sálræn vandamál sín að mestu leyti sjálft. Nú hafa komið til sögunnar sérstakar stéttir, sem aðstoða við það. Þekktust er áfallahjálp, þar sem prestar koma stundum við sögu. En þeir mega þá ekki magna sorgina.

ÞJÓÐKIRKJAN þarf að finna sér farveg við áfallahjálp, svo að starf hennar gagnist fólki við að komast aftur inn í gráan hversdagsleikann. Engum kemur að gagni, að prestar stýri sorginni og magni hana, unz hún verður óviðráðanleg.

HITT ER SVO alveg rétt, að prestum getur sárnað að fá það á tilfinninguna, að þeir séu í baráttu við tímann, þar sem fram streyma fréttir, sem breyta forsendum áfallahjálpar. Vill ekki Bolli bara banna fréttir? Það vilja sumir aðrir.

DV