Svartar umhverfisfréttir

Punktar

HÖFRUNGAR í norðurhöfum eru orðnir ótrúlega mengaðir, segir BBC í fréttum. Þeir eru orðnir mengaðri en ísbirnir og hvalir, sem líka standa ofarlega í fæðukeðjunni. Mengun íshafsins byrjar í svifdýrum og færist svo upp fæðukeðjuna.

HÚN STAFAR af eiturefnum mannsins, svo sem skordýraeitri, plastefnum frá iðnaði og eldvarnakvoðu, sem enn er leyfð. Þetta er auðvitað áhyggjuefni öllu mannkyni, en einkum okkur, því að við búum við slóðir, þar sem eitrið endar.

GOLFSTRAUMURINN hefur minnkað í styrkleika um 30% segir brezka hafrannsóknastofnunin. Það getur leitt til, að hann nái ekki til Íslands og leiði annars vegar til minni veiði við Ísland og hins vegar til kaldara veðurfars við Ísland.

MINNKUN Golfstraumsins stafar af hitnum Mexikóflóa vegna áhrifa gróðurhúsalofttegunda. Sú hitnun leiðir til fleiri og stærri hvirfilbylja í Bandaríkjunum, en veldur okkur á Íslandi líka vandræðum, ef hún dregur úr Golfstraumnum.

Á FUNDI flestra ríkja heims í Montreal í Kanada fyrr í þessum mánuði náðu fulltrúar allra ríkja nema Bandaríkjanna samkomulagi um, að Kyoto-samkomulagið um varnir gegn eitri í andrúmsloftinu væri eini kosturinn í síversnandi stöðu.

SAMKOMULAGIÐ um ítrekun á Kyoto-bókuninni og um aðgerðir í framhaldi af henni, sýna rækilega, að menn eru búnir að gefast upp á að segja viðvaranir vísindamanna ekki vera sannaðar. Núna tala allir nema Bandaríkjamenn einum rómi.

Í HVERJUM mánuði hrannast upp nýjar viðvaranir. Sumar varða Ísland sérstaklega, af því að það situr á viðkvæmum stað á hnettinum. Við eigum að skoða betur erlendar fréttir af umhverfismálum og átta okkur á, að þetta er alls ekki grín.

UMHVERFISMÁL eru orðin spurning um líf og dauða á Íslandi.

DV