Punktar

Ábyrgðin er ekki til

Punktar

Íslenzka ríkið hefur enn ekki ábyrgzt IceSave reikninganna. Pappírar um það efni binda ekki fjárveitingavaldið, sem er hjá Alþingi. Ráðherrar í fyrri ríkisstjórnum binda ekki ríkið fjárhagslega frekar en núverandi ráðherrar. Minnismiðar og plögg og yfirlýsingar og samstarfslýsingar í ráðuneytum binda ekki ríkið fjárhagslega. Allt slíkt er hlutskipti Alþingis. Þess vegna er ekki búið að ábyrgjast IceSave. Það gerist, ef og þegar Alþingi samþykkir samninginn við Bretland og Holland. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra fara rangt með, er þeir segja Alþingi verða að staðfesta áður gerða hluti.

Lögleg eða ólögleg rán

Punktar

Við vitum nú, að stjórnendur bankanna tæmdu þá í fyrrasumar. Létu eigendur og aðra vildarvini fá allt tiltækt fé, án þess að taka gild veð. Samtals gufuðu upp hundruð milljarða. Í öllum heiðarlegum ríkjum væri búið að setja alla bankastjóra og alla deildarstjóra banka í varðhald. Og frysta eignir þeirra. Þannig er það í Danmörku og þannig er það í Bandaríkjunum. Við búum hins vegar í bananalýðveldi, þar sem lögmenn gerðu fjársvik að einkamálum. Kannski munu einnig dómarar líta svo á, að rán, framin af valdamönnum, séu þeirra eigin einkamál. En við þurfum að fá úr því skorið. Sem allra fyrst.

Þögguð skuldastaða okkar

Punktar

Ríkisstjórnin hefur ekki sagt, hversu miklar verða skuldbindingar ríkissjóðs eftir IceSave samninginn. Líklega veit hún það ekki. En undarlegt hlýtur að teljast að vilja fá hann samþykktan án þess að segja frá ástandinu í heild. Aðrir hafa reiknað, að greiðslubyrði ríkissjóðs verði 150% útflutningstekna og heildarskuldir 240% af vergri landsframleiðslu. Hvor tveggja aðferðin sýnir okkur á mörkum þjóðargjaldþrots að mati Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Frekari lækkun krónunnar setur okkur yfir mörkin. Tveir þingmenn Vinstri grænna segja, að betra kunni að vera að lýsa gjaldþroti en borga IceSave.

Sala auðlinda: Taka tvö

Punktar

Geysir Green Energy og Svartsengi eru taka-tvö af einkavæðingu auðlinda og sölu þeirra til útlanda. Reykjavík Engergy Invest og Orkuveitan voru taka-eitt. Þá léku Vilhjálmur Vilhjálmsson og Björn Ingi Hrafnsson aðalhlutverk, nú er það Árni Sigfússon, bæjarstjóri á Reykjanesi. Kúlulánadrottningin Birna Einarsdóttir er að tjaldabaki, bankastjóri Íslandsbanka. Hann á öll fyrirtækin, sem eiga Geysir Green Engergy. Þau eru öll gjaldþrota. Það er semsagt gjaldþrota gengi, sem eignast orkuna í Svartsengi, beinlínis til að framselja hana til útlanda. Græðgisvæðing Íslands er enn á fullum dampi.

Sundurtættur kúlulögmaður

Punktar

Vilhjálmur Bjarnason, siðvæðingarmaður í fjármálum, tætti í gær sundur gein Helga Sigurðssonar lögmanns. Sá hafi í Fréttablaðinu gefið uppskrift að, hvernig megi snuða aðra. Helgi var yfirlögmaður bankans og fékk kúlulán upp á hálfan milljarð. Síðan úrskurðaði hann, að skuldarar kúlulána þyrftu ekki að borga krónu. Vegna sölubanns á hlutabréfum, sem er hugmyndafræði, er Vilhjálmur neitar að skilja. Grein Helga sýnir skort lögmanns á innsýn í spillingu. Lætur sér detta í hug að skrifa grein um, að afskrift eigin kúluláns sé eðlileg. En siðuðu fólki finnst vinnubrögð bankans óskiljanleg.

Davíð veður enn á súðum

Punktar

Davíð Oddsson er ósvífnasti lýðskrumari landsins. Velur langsótt atriði úr fortíðinni til að endurskrifa söguna. Vísar til munnlegra ummæla sinna, sem stangast á við prentuð gögn frá honum og Seðlabankanum á sama tíma. Talar eins og seðlabankastjóri sé valdalaus húsmóðir í Vesturbænum. Talar eins og hann hafi ekki afnumið bindiskyldu bankanna á versta tíma. Talar eins og hann hafi ekki hrósað útrásinni fram á síðustu stundu. Firrir sig ábyrgð á IceSave, þótt hann hafi undirritað ábyrgðarplagg Seðlabankans til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Davíð veður jafnan á súðum í ellinni. Bless, Davíð.

Gangið fyrst að skúrkunum

Punktar

Almenningur sættir sig ekki við að verða hnepptur í þrældóm til að greiða skuld auðmanna vegna IceSave. Hann vill, að fyrst verði gengið að þeim, sem fundu upp IceSave. Fyrst og fremst að Björgólfi Thor Björgólfssyni og Björgólfi Guðmundssyni, eigendum bankans, Sigurjóni Árnasyni og Halldóri Kristjánssyni bankastjórum. Þeir hafa ekki verið færðir til yfirheyrslu og ekki fengið stöðu grunaðra. Undirbúa þarf málsókn gegn þeim og leita að földum fjársjóðum á Tortola og víðar. Meðan aðgerðir gegn skúrkum sjást engar neitar fólk að borga fyrir menn, er enn hafa ekki verið handsamaðir.

Sæmdarheitið stjörnulögmaður

Punktar

Annar hver lögmaður er önnum kafinn að semja skýrslur fyrir hagsmunaaðila. Plöggin eru tvenns konar. Sum fjalla um, að allt, sem er siðlegt, sé í raun ólöglegt. Önnur fjalla um, að alls, sem er siðlaust, sé í raun löglegt. Þannig má Gunnar Birgisson bæjarstjóri svindla eins og hann vill. Þannig má Björgólfur Thor svindla eins og hann vill. Þannig má Sigurjón P. Árnason svindla eins og hann vill. Lögmenn sjá um, að vanhæfir og óhæfir og gráðugir séu enn við völd. Og megi haga sér eins og þeim þóknast. Lögmanninum, sem hraðast lýgur í slíkum skýrslum, er gefið sæmdarheitið: Stjörnulögmaður.

Landstjóri í blekkingaleik

Punktar

Landsstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins segir varla satt orð. Hann segir ríkisstjórnina ráða stefnu sinni. En hann stjórnar henni sjálfur. Segir peningamálastefnunefnd Seðlabankans ráða forvöxtum. En hann stjórnar þeim sjálfur. Segir afgreiðslu lána frá sjóðnum vera óháða samþykkt Alþingis á samningi um IceSave. En hún er greinilega tengd. Segir ráðamenn Bretlands og Hollands ekki hafa áhrif á sjóðinn. En þeir stjórna honum samt meira eða minna. Allt hjal Franek Roswadowski er tóm blekking, honum til skammar. Alþjóða gjaldeyrissjóðinn setur niður við tálsýnir, rugl og endurtekna lygi.

Næst er að skipta um þjóð

Punktar

Ríkisstjórnin telur þjóðina vera til stórkostlegra vandræða. Þrisvar fleiri hafna IceSave samkomulaginu en þeir, sem styðja það. Samkvæmt síðustu skoðanakönnun. Ríkisstjórnin veit betur. Fjármálaráðherra talar um það sem heimsendi, ef eindreginn meirihlutavilji þjóðarinnar næði fram að ganga á Alþingi. Forsætisráðherra segist ekki hafa neitt plan B, ef svo hrapallega færi. Greinilegt er samkvæmt þessu, að þjóðin og vilji hennar eru hið versta mál. Þjóðarviljinn er myllusteinn um háls velviljaðrar ríkisstjórnar. Hvernig er það, væri ekki bezta lausnin að skipta bara um þjóð í landinu?

Ráðherra kvótagreifanna

Punktar

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra skipaði svonefnda sáttanefnd til að finna lausn á kvótastjórninni. Í nefndina skipaði hann fulltrúa hagsmunaaðila. Landssambands íslenzkra útvegsmanna, Samtaka fiskvinnslustöðva, Samtaka fiskframleiðenda. Og svo framvegis. Seint held, ég, að þeir muni búa til neina þjóðarsátt um kvótakerfið. Þvert á móti munu þeir finna leið til að halda óbreyttu eignarhaldi kvótagreifa. Með skipun hlægilegrar sáttanefndar svíkur Jón Bjarnason kosningaloforð Vinstri grænna. Tryggir, að ekki verði hróflað við greifunum. Þyrlar upp ryki. Ráðherra fyrir hönd kvótagreifanna.

Kúlufólkið enn við völd

Punktar

Landsins mesta græðgisfólk er kúlufólkið. Ætlaði sér að græða tugmilljónir, sumt jafnvel milljarða, á innantómri loftbólu. Fólk eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrum ráðherra. Hún ætlaði að græða 893 milljónir upp úr potti galdramanna. Hún er enn á Alþingi. Kúlufólk sést enn við völd. Til dæmis Magnús Guðmundsson, forstjóri Kaupþings í Luxembourg. Ætlaði að græða 2,3 milljarða upp úr potti galdramanna. Er enn við völd í Luxembourg. Þar gera fyrrum stjórnendur Kaupþings ítrekaðar tilraunir til að komast yfir flakið af bankanum. Fyrir milligöngu dularfullra sjeika af Arabíuskaga.

Sjálfsmark ríkisstjórnarinnar

Punktar

Ríkisstjórnin getur sjálfri sér kennt um hrun stjórnarflokkanna í könnun Gallups. Hún beit sig fast í stefnu Sjálfstæðisflokksins, þegar hann var í stjórnarforustu í fyrrahaust. Ríkisstjórn vinstri grænna hefur lokað sig inni í fílabeinsturni og hlustar ekki á góð ráð. Hún fellst ekki á, að skynsamlegt sé, að Alþingi setji þak á árlegar greiðslur vegna IceSave. Allt eða ekkert, segir Steingrímur, þegar meiri þörf er á millileið en nokkru sinni fyrr. Afleiðingin er, að þjóðin er farin að halda, að IceSave sé núverandi ríkisstjórn að kenna. Ríkisstjórnin getur sjálfri sér um kennt.

Steingrímur kann bara að slást

Punktar

Skoðanakönnunin sýnir, að ríkisstjórnin gjörtapaði IceSave stríðinu. Svo algerlega, að þjóðin heldur, að IceSave sé núverandi ríkisstjórn að kenna. Einkum Steingrími Sigfússyni, sem kom hvergi að málinu á sínum tíma. Þessa gröf hefur ríkisstjórnin grafið sjálfri sér. Einkum Steingrímur. Þetta var ríkisstjórn, sem hafði allt í höndum sér. Hún hafði stuðning okkar til að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir. Öllum þessum góðvilja sóaði hún í IceSave. Þjóðin vildi öryggisventil á samninginn og fékk ekki. Stjórnin kann ekki að hlusta á fólk, Steingrímur kenn bara að slást. Því fór sem fór.

Dæmalaust er þjóðin vitlaus

Punktar

Þjóðin styður Sjálfstæðisflokkinn í sama mæli og fyrir hrun. Flokkinn, sem tróð frjálshyggju upp á þjóðina. Styður flokkinn, sem einkavæddi banka og gerði þá eftirlitslausa. Flokkinn, sem færði okkur Davíð Oddsson, fyrst í pólitík og síðan í Seðlabanka. Styður flokkinn, sem beinlínis hannaði IceSave ruglið. Flokkinn, sem fyrir tæpu ári lagði drög að þeim IceSave samningum, sem nú hefur verið lokið. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafa gleymt öllu þessu. Stjórnmálaflokkur, sem ætti af blygðunarsemi að vera hættur í pólitík, siglir þar fullum dampi. Dæmalaust er þjóðin vitlaus.