Punktar

Þöggun er viðkvæm

Punktar

Tilefni pistils míns í gær var evrópsk skoðanakönnun, er sýndi mikinn meirihluta allra þjóða andvígan aðflutningi útlendinga. Ég tel mislukkaða þöggun vandamála við aðflutninginn hafa hraðað þessu ferli. Margir sjá þessa þöggun og hugsa í samræmi við það. Gunnar Smári hefur áður orðið reiður mínum málflutningi og varð að þessu sinni enn æstari. Reiðilesturinn má sjá á þræði Sósíalista í gær. Ég er að tala um framgang hægri öfgaflokka sem vandamál, en GSE túlkar orð mín sem rasisma. Telur tal um þöggun vera rasisma minn og engan raunveruleika. Ég tel mikla reiði hans afsaka orðnotkun hans og ekki leiða til frekari skoðanaskipta.

Þöggunin stórtapar

Punktar

Mér sýnist af skoðanakönnun í helztu ríkjum Evrópu, að mikill meirihluti fólks í öllum löndum sé andvígur komu múslima. Mér sýnist þetta munu leiða til mikils kosningasigurs róttækra flokka á hægri kanti. Sumir þessara flokka munu einnig hafa á stefnuskrá að leggja niður skatta. Þöggunin margumtalaða hefur ekki snúið þessu við. Kratar verða næsta fylgislausir í Svíþjóð og Svíþjóðardemókratar verða stærsti flokkurinn. Þannig innleiðist Trumpismi í Svíþjóð og öðrum löndum, þar sem kratar og aðrir fjölmenningarsinnar hafa hingað til oftast haft völdin. Breytingin verður hörðust í Svíþjóð, þar sem þöggunin hefur verið ákafast keyrð.

Framtíðin ekki búin

Punktar

Mér sýnist doði hlaupinn í stuðningsmenn Pírata. Væntu 30% fylgis, en fengu 15%. Þeim finnst það vera ósigur. En sá kann allt, sem bíða kann. Nú fá 10 þingmenn Pírata tækifæri til að læra á þingræðið og skrafið í hornunum. Þeir fá færi á að fara um kjördæmin og átta sig betur á viðbrögðum kjósenda. Öðlast skilning á því, hvers vegna 15% þjóðarinnar daðraði við Pírata fyrir kosningar, en brast kjarkinn í kjörklefanum. Í næstu kosningum verða Píratar málefnalega betur undir baráttuna búnir. Skilja betur ris og hnig í áhuga á stjórnarskrá og mikilvægi þess að mæta sjónhverfingum og lygum af fullri hörku. Framtíðin er alls ekki búin enn.

Fjárfestar kokka arðinn

Punktar

Verði auðlindaarður kreistur út úr greifunum, sem hafa einkarétt á nýtingu auðlindanna, mun hann ekki renna til þjóðarinnar. Bjarni Ben yfirbófi hefur stofnað nefnd fjárfesta og hagspekinga til að finna leið til að koma arðinum í hendur einkavina. Bankarnir verða seldir á einkavinaverði til skattsvikara, sem fá 20% afslátt, ef peningarnir koma úr skattaskjóli. Afgreiðslustofnun auðlindaarðs fær heitið stöðugleikasjóður. Alltaf góðir í nafngiftum, bófarnir. Hins vegar hefur stjórnarandstaðan hugsað sér, að auðlindaarðurinn fari í að halda uppi alvöru norrænni velferð og heilsu almennings. Þjóðin vill fá að nota arðinn sjálf.

Stuðningsfólk bófaflokksins

Punktar

20% Íslendinga greiða öðrum laun, fyrir utan þá, sem eru sjálfstæðir. Því er ekkert skrítið, að hægri flokkar, fjármagnaðir af atvinnurekendum, njóti svipaðs fylgis. Fæstir þessara hafa nokkuð gagn af pilsfaldinum, sem er lykillinn að ofsagróða. En margir telja samt sjálfsagt að kjósa gerspilltan bófaflokk, sem þurrkar upp hinn árlega þjóðararð. Hvaðan koma þá þessi 5% sem koma fylgi Sjálfstæðisflokksins upp í 25%? Og hvaðan koma þessi 5%, sem styðja Viðreisn. Ætli þetta séu ekki fíflin margumtöluðu. Alveg eins og í gamla daga, þegar allt fólkið í Pólunum kaus Sjálfstæðisflokkinn. Fífl kjósa bófa, sem hafa það gott.

Ýfingar stjórnarflokka

Punktar

Ýfingar eru að hefjast milli stjórnarflokkanna. Helzt eru þar að verki Sigríður Andersen og Jón Gunnarsson, sem taka ekki mark á þeim línum stjórnarsáttmálans, sem ættuð eru frá samstarfsflokkunum. Jón Gunnarsson rekur harða stefnu í þágu fjárhaldsmanna sinna. Sigríður er bókstafstrúuð á Hannesarkredduna. Telur ekki þörf á að jafna kynbundinn launamun, því að hann sé ekki til. Hún styður þannig ekki stjórnarsáttmálann. Einnig vill hún lúskra á hælisleitendum. Erfiðir tímar eru framundan hjá samstarfsflokkunum, þegar þeir fara að útskýra valdalausa stöðu sína. Kannski eru þeir ekki til, ekki frekar en kynbundinn launamunur.

Mossack-Fonseca

Punktar

Banksterarnir Jürgen Mossack og Ramon Fonseca á Tortola hafa verið settir í fangelsi í framhaldi af Panama-lekanum. Hvenær fara Bjarni Ben og Sigmundur Davíð í fangelsi?

Flokkun flokkanna

Punktar

Pólitísk vandræði stafa mest af aldri flokka, sem hafa smám saman spillzt af langvinnu samstarfi. Því þorir VG ekki að pota í kvótagreifa og afurðastöðvar. Munur Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar er, að sá fyrri er hreinn bófaflokkur, sem flaggar markaðskreddu, en rekur pilsfaldakerfi fyrir ríkustu prósentin. Viðreisn er fulltrúi atvinnugreifa líkt og hægri flokkar markaðskreddu í nálægum löndum. Björt framtíð er hagsmunaflokkur fyrir vel menntuð fífl. Samfylkingin er blanda nokkurra flokka, sem gæta hagsmuna miðstétta. Píratar horfa fram á veginn til byltingarinnar, sem mun leysa kommúnisma og kapítalisma af hólmi innan áratuga.

Kyrrlát einkavinavæðing

Punktar

Fáir fjölmiðlar hafa fattað, að ríkisstjórnin stefnir að mestu einkavinavæðingu sögunnar. Hún hyggst einkavinavæða bankana og bara skilja eftir hjá ríkinu 30% af Landsbankanum. Þetta á að gerast í áföngum á kjörtímabilinu. Arion verður fyrstur fyrir lok þessa árs. Hvergi kemur fram, að fyrst þurfi að siðvæða bankana, áður en þeir verða afhentir fjáraflabófum landsins. Hvergi kemur fram, að greina verði milli sparnaðarbanka og braskbanka. Ekki heldur, að greina þurfi milli viðskipta heima fyrir og erlendis. Þetta er það, sem allar ríkisstjórnir eftir hrunið hafa trassað að laga. Eindregið er stefnt að nýrri kollsteypu í þágu peningagreifa.

Orð Bjartrar týndust

Punktar

Lykilmál Bjartrar framtíðar er ekki í stjórnarsáttmálanum, þótt Björt Ólafsdóttir ráðherra segi svo. Hvergi er „talað um náttúru- og umhverfisvernd“ í rammalögum um ívilnanir til nýfjárfestinga í orkufrekum iðnaði. Björt var í þeim hópi, sem samdi sáttmálann, og hefur því verið meðvitundarlítil á þeim tíma. Sama er að segja um aðra lykilmenn Bjartrar framtíðar. Óttarr Proppé er heilbrigðisráðherra. Virðist þar sætta sig við, að ekki verði sett nauðsynlegt aukið fjármagn í Landspítalann. Heldur verði gerð áætlun um tilfærslur INNAN heilbrigðisgeirans á næstu árum. Það verður því enginn áherzlumunur milli Kristjáns Þórs og Proppé.

Gjafahagkerfið

Punktar

Skipti- og gjafahagkerfi hefur risið af myndarbrag á vefnum. Ungt fólk vill losna við gamla eldavél og býður hana gefins þeim, sem vill sækja hana. Annað ungt fólk  kemur á bíl með kerru, skoðar vélina og vill taka hana. Í leiðinni spyr það, hvort það geti gert eitthvað í staðinn. Jú, það getur lánað kerruna í flutninga í einn dag. Þannig gerir fólk hvert öðru greiða án þess að peningar fari á milli. Og án þess að neinn hagvöxtur sé skráður. Hefði allt þetta verið keypt og leigt í búðum, mundi hafa reiknazt hagvöxtur af öllu saman. Þetta sýnir, að hagvöxtur er marklaust hugtak, svo sem eins og raunar önnur hugtök og tilgátur „hagfræðinnar“.

Burt með greifana

Punktar

Kvótagreifar halda uppi vinnudeilu við sjómenn, því að þeim er alveg sama, hvenær fiskurinn er veiddur. Þeir missa ekki einkaréttinn, þótt verkfallið dragist á langinn. Óbærilegt er, að þeir þannig leikið sér með fjöregg þjóðarinnar eins og þeim þóknast. Tímabært er að taka skipin eignarnámi og bjóða þau út með kvóta á frjálsu uppboði samkvæmt reglum hins frjálsa markaðar. Í leiðinni má ýta kvóta til sjávarþorpa, sem hafa farið illa út úr samskiptum við greifana. Ekki gengur lengur, að greifarnir geti hagað sér eins og þeir eigi fiskinn. Við eigum að nota vinnudeiluna til að losna við greifana úr hagkerfinu með einni snarpri aðgerð.

Fjölmiðli útskúfað

Punktar

Wikipedia hefur bannað tilvitnanir í Daily Mail á síðum sínum. Brezka sorpritið er fyrsti fjölmiðillinn, sem lendir í þessu. Kjaftað er um, að Russia Today og Fox News muni fylgja á eftir. Allt væri það landhreinsun. Lygasögur eru undir smásjá þessar vikurnar, einkum vegna Trump og aðstoðarmanna hans. Þeir halda áfram að bulla hjáreyndir, þótt þeir hafi verið leiðréttir. Staðreyndir skipta slíka fugla engu máli. Þess varð líka vart í síðustu kosningum hér, að sumir flokkar gáfu út stefnuskrá, sem stingur í stúf við gerðir þeirra í ríkisstjórn. Kannski kemur að því, að Óttarr Proppé nái heimsfrægð fyrir bann hjá Wikipedia.

Stjórnarfylgið er hrunið

Punktar

Fylgi ríkisstjórnar-flokkana hefur hrunið í vetur. Samkvæmt nýjustu könnun MMR er fylgi þeirra alls komið niður í 36% og ríkisstjórnarinnar sjálfrar niður í 33%. Sjálfstæðisflokkurinn er kominn niður fyrir fjórðung atkvæða. Semsagt kominn tími til fyrir Bjarna Ben bófaforingja að skila lyklunum að stjórnarráðinu. Svo notuð séu hans eigin orð af minna tilefni. Svikararnir í Viðreisn og Bjartri framtíð eru við það að fara niður fyrir 5% lágmarkið. Fólk vill ekki þetta ofsafengna hægra-hægri. Kjósendur hafa hlaupið yfir í Vinstri græn, þegar rétt andlit bófanna kom í ljós eftir kosningar. Vinstri græn eru orðin stærsti flokkur landsins með 27% atkvæða. Þau hafa hreinan meirihluta með Pírötum og Framsókn.

Túristabólan að springa

Punktar

Nánast mánaðarlega springa tölur um áætlaðan fjölda ferðamanna. Í janúar reyndist fjöldinn vera 75% hærri en í janúar í fyrra. Ekki kæmi mér á óvart, þótt þetta ár komi 80% fleiri en í fyrra. Hingað til hefur verið unnt að hýsa umframfólk með rosaátaki AirB&B fólks. Fólk hefur fixað upp herbergi og íbúðir fyrir ferðafólk. Alls um 3.000 herbergi á Reykjavíkursvæðinu. Segir lítið upp í aukninguna, að Reykjavík geri klárt fyrir 1.400 smáíbúðir á þessu ári. Það er krækiber í helvíti almenns húsnæðisleysis á höfuðborgarsvæðinu. Túristar og fátækir slást um þessi herbergi. Koma þarf umsvifalast böndum á túrismann, annars springur túristabólan.