Punktar

Leiksoppur örlaganna

Punktar

Fyrir Landsdómi talaði Geir H. Haarde í gær eins og leiksoppur örlaganna. Trúði öllu, sem honum var sagt í aðdraganda hrunsins. Enda voru bankastjórar allir valinkunnir sjálfstæðismenn. Geir gat ekki lagt saman tvo og tvo og flaut því sofandi að feigðarósi. Guðmundur Andri Thorsson lýsir málflutningi hans svona: “Vissi ekki, sá ekki, fattaði ekki, vildi ekki, gerði ekki – var ekki.” Eftir daginn skil ég betur sagnorðið “að haardera”. Lýsir verkfælni Geirs á örlagastundu. Spurning er svo, hvort vitni segja sömu sögu af skorti á starfsgetu. Og hversu refsivert er, að leiðtoginn sé leiksoppur örlaganna.

Gjaldeyrissjóðurinn hvarf

Punktar

Geir H. Haarde fjallaði fyrir Landsdómi í gær um 82,5 milljarða lán Davíðs í Seðlabankanum til Kaupþings. Lánið var veitt í gjaldeyri rétt fyrir hrun. Geir sagði það hafa “farið annað en það átti að fara”. Ekki var hann látinn útskýra í gær, hvað hann átti við. Voru þó engir smápeningar í einu einasta láni, nánast allur gjaldeyrir landsins. Fóru bankastjórar Kaupþings bak við Davíð og Geir, hvenær vissu þeir félagar af örlögum peninganna? Týndist féð eða rann það til Tortola? Af hverju ekki gild veð og ekki fjármálaeftirlit? Það skýrist vonandi síðar í vitnaleiðslum. Vissulega var hægt að gera betur.

Glæpsamlegt þagnarsamsæri

Punktar

Af lýsingu Arnórs Sighvatssonar að dæma héldu Davíð og Geir dauðastríði bankanna leyndu fyrir þjóðinni árum saman. Allt frá árinu 2005 hafi verið ljóst, að í óefni stefndi. Verulegur háski hafi verið kominn til sögu árið 2006. Eigi að síður var haldið áfram sömu vitleysunni með auknum þunga. Bönkunum var leyft að leika lausum hala. Bankastjórarnir fengu að haga sér eins og brjálaðir menn. Ríkisstjórnin lét búa til áróðursgögn um fjármálasnilld Íslendinga. Og tók alla gagnrýnendur óblíðum tökum. Þetta var glæpsamlegt þagnarsamsæri gegn þjóðinni og útlendingum líka. Með samsærinu var tjón okkar margfaldað.

Það er Þóra Arnórs

Punktar

Þóra Arnórsdóttir hefur alveg stungið Stefán Jón Hafstein af í kosningunni á fésbók um verðandi forseta Íslands. Enda er Stefán Jón of tengdur pólitík og á að fara létt með að verða formaður Samfylkingarinnar. Ég held, að fólk sé ekki reiðubúið til að láta neinn fjórflokkinn gefa sér ráð um val á verðandi forseta. Þó treysti ég mér til að kjósa Stefán Jón og raunar alla tíu efstu á listanum. En tel fráleitt, að prívatsjónarmið spilli fyrir þeirri brýnu nauðsyn, að samkomulag verði um aðeins einn frambjóðanda. Annars losnum við ekki við gamla kallinn af Bessastöðum. En Þóra verður senn að svara okkur.

Engan kerfiskarl takk

Punktar

Löngu liðin er sú tíð, að stjórnmálaflokkar geti tekið sig saman um að finna forseta handa þjóðinni. Það var reynt með séra Bjarna og það gekk ekki upp. Þjóðin tekur ekki við fulltrúa kerfisins. Hún vill sinn eigin forseta. Fyrir þessu ætti að vera næg reynsla. Því lánast ekki Samfylkingunni og Vinstri grænum að finna forseta gegn Ólafi Ragnari. Og ekki lánast þessum flokkum að finna Rögnu Árnadóttir, fyrrum ráðherra. Þjóðin mun taka henni eins og einum af kerfiskörlunum. Frambjóðandi þjóðarinnar þarf að finnast í grasrótinni. Annars á hún engan séns. Látið því þjóðina í friði með leitina að henni.

Ekki lasta sjónvarpsfrægðina

Punktar

Kristján Eldjárn, Vigdís Finnbogadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson voru öll fræg úr sjónvarpi. Þegar stuttur tími er til stefnu, er líklegt til árangurs að stefna á frambjóðanda, sem hefur slípað karisma úr sjónvarpi.

Í samkeppni við þjóðina

Punktar

Stjórnmálaflokkur Ólafs Ragnars Grímssonar virðist hafa tvö stefnumál. Fyrir utan endurkjör forsetans. Að hindra nýja stjórnarskrá og hindra aðild að Evrópusambandinu. Bæði málin eru í ferli, sem endar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig er forsetinn kominn í samkeppni við þjóðina um, hvor taki valdið á lokasprettinum, þjóðin eða forsetinn. Þjóðin er fyllilega sátt við að ráða báðum þessum málum sjálf og þarf ekki aðhald af hálfu forsetans. Honum kann að falla vel að veita ríkisstjórnum eftirlit, en öðru máli gegnir um fólk í þjóðaratkvæðagreiðslu. Pólitískt framboð Ólafs getur orðið honum að falli.

Tíu hæstu í tilnefningum

Punktar

Þessi hafa hlotið flestar tilnefningar í framboð til forseta á fésbók þeirra, sem vilja skipta um forseta. Nöfnin tíu eru talin upp í atkvæðaröð: Þóra Arnórsdóttir, Stefán Jón Hafstein, Ragna Árnadóttir, Páll Skúlason, Salvör Nordal, Andri Snær Magnason, Vilhjálmur Árnason, Herdís Þorgeirsdóttir, Gerður Kristný, Elín Hirst. Senn fer að koma tími til að vinda sér í könnun á, hver þeirra hefur mest fylgi. Síðan þarf að sannfæra viðkomandi um að bjóða sig fram. Út úr svona vinnu má ekki koma nema einn frambjóðandi. Annars vinnur Ólafur Ragnar á dreifingu atkvæða. Samtaka nú.

Er Landsdómur prívatmál?

Punktar

Umgjörð þinghalds í Landsdómi er dómurum hans til háborinnar skammar. Um allan hinn vestræna heim væri slíkt þinghald opinbert í sjónvarpi. Hér er þinghaldið svo mikið leyndó, að sumir erlendir blaðamenn komast ekki inn. Allt, sem fólk fær að vita um vitnaleiðslur, er eftir lýsingum blaðamanna, sem ekki mega nota upptökutæki. Ekki er von, að þjóðin verði burðugur aðili að lýðræðinu, þegar dómarar haga sér svona. Afdalamennska er rétta orðið, en ofurheimska er annað orð, sem kemur upp í hugann. Hugsanlega telja dómarar, að vitnaleiðslur séu eins konar prívatmál milli sín og tilkvaddra vitna.

Afskekktu gjaldmiðlarnir

Punktar

Með ólíkindum er umræðan um að taka upp einhverja aðra gjaldmiðla en evruna. Nefndir eru til sögunnar afskekktir gjaldmiðlar, sem þungbært er að nota í viðskiptum okkar við umheiminn og í ferðum okkar til útlanda. Sem einfalda ekki samskiptin við umheiminn, sem langmest eru við löndin í Evrópu. Hafið þið ekki tekið eftir, að evran hefur haldið sínu í lífsins ólgusjó síðustu mánuði? Þótt íslenzkir fjölmiðlar hafi linnulaust lapið gömlu tugguna upp úr Daily Telegraph um, að Evrópusambandið sé að hrynja. Evran hefur ekki tekið mark á því dagblaði Evrópuhaturs. Hún reynist traust, þrátt fyrir Grikkland.

Stritast við að sitja

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson hyggst stritast við að sitja, þótt þátttaka í áskorun hafi verið minni en hann vonaði. Hann er einnig orðinn að stjórnmálaflokki, sem hyggst hafa gætur á pólitíkusum næstu árin. Telur það munu ganga vel í lýðinn. Hefur löngum verið óþolandi, en nú tekur steininn úr. Jafnvel Ástþór er skárri en hann, hefur þó hugsjón. Nú þarf ábyrgt fólk að taka sig saman í andlitinu og finna farsælt mótframboð. Það ætti að vera framkvæmanlegt gegn umdeildum forseta, sem veit ekki, hvenær tími hans er liðinn. Ólafur Ragnar er af tagi Davíðs Oddssonar, pólitískur bófi, sem spilar með fávísan lýðinn.

Séríslenzkt er handónýtt

Punktar

Krónan er ónýtur gjaldmiðill og hefur alltaf verið það. Vísitölur eru ónýt aðferð við að samræma gengi krónunnar í dag við gengið í gær. Hvort tveggja er séríslenzk aðferð við að leysa eðlilega hagstjórn af hólmi. Óhjákvæmileg niðurstaða af krónu og vísitölu er verðbólga. Séríslenzkur vítahringur getur ekki komið í stað hagstjórnar. Séríslenzk hagspeki reyndist handónýt. Meðan við höfum krónu, vísitölu og verðbólgu verður ekki nein hagstjórn af viti. Við þurfum að leggja niður verðbólguna með því að afnema vísitölu-viðmiðin og krónuna. Getur tekið nokkurn tíma og þarf líklega að gerast í áföngum.

Öfgar bankaleyndar

Punktar

Þegar reglur um bankaleynd eru notaðar til að valda fjölmiðlungum óþægindum, er ruglið í kerfinu komið út yfir allan þjófabálk. Og það er fyrst og fremst ríkisstjórninni að kenna. Hún hefur trassað að setja saman frumvarp um afnám slíkra ákvæða. Margoft hefur verið bent á, að vitlausu ákvæðin eru notuð til að fela glæpi bankanna. Í hvert sinn sem glittir í upplýsingar um athæfi bankastjóra og annarra yfirmanna banka, fela þeir sig að baki slíkra ákvæða. Kerfið yrði gegnsærra og betra, ef við værum laus við þau. Hvaða rugl er á stjórn Fjármálaeftirlitsins? Er hún í vinnu hjá Guðlaugi Þór og Flokknum?

Fagnaðarfundur siðblindra

Punktar

Martin Feldstein er verst ræmdi prófessor og ráðgjafi heimsins í hagfræði. Var til dæmis ráðgjafi AIG, risavaxins tryggingafélags, sem varð vogunarsjóður eins og Sjóvá og fór á hausinn. Kom fram í Óskarsverðlaunamyndinni The Inside Job. Birtist þar sem nánast geðveikur siðblindingi. Útskýrði, hvers vegna háskólamenn mættu vera til sölu í þágu peningaaflanna. Hannes Hólmsteinn er kórdrengur í samanburði við hann. Feldstein var fyrirlesari á Íslandi í boði Landsbankans. Vel er við hæfi, að siðblindir bófar noti ríkisstyrkinn til að bjóða siðblindum bjána að troða hrunverja-rugli upp á heimska fjármálamenn.

Tungumála-þokur

Punktar

Skemmtilegar uppákomur verða, þegar menn eiga erfitt með að skilja erlendar tungur. Frægt var, þegar framsóknarmennirnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Höskuldur Þór Þórhallsson fóru til Noregs. Þeir ætluðu að sækja hundruð milljarða, sem fyrirfundust ekki. Enn varð framsókn fræg í gær af tilraun til kraftaverka. Þá ætlaði Sigmundur að taka upp kanadískan dollar fyrir tilstilli sendiherra Kanada. Enginn framsóknarmaður kemst þó í hálfkvisti við Davíð Oddsson, þegar hrunið brast á. Hann taldi sig redda heilum þúsund milljörðum hjá húsverðinum, sem óvart tók upp símann í seðlabanka Rússlands.