Punktar

Sjá allan þann auð

Punktar

Við erum á kafi í mat, virkjaðri orku og ferðamönnum. Guðmundur Franklín orðar það svo: „Sjávarútvegurinn okkar framleiðir 20 milljón matarskammta á dag! Við framleiðum 10x meira af rafmagni en við þurfum. við erum að fá 5 erlenda ferðamenn á ári á hvern íbúa landsins, en td ferðamannaeyjan Kýpur er með 2.5 per íbúa. Við erum að stórauka fjárfestingar í sprotafyrirtækjum og erum með skapandi greinar sem eru að gera frábæra hluti, td í kvikmyndagerð og tónlist.“ Okkar vantar hins vegar leiðir til að dreifa þessum gæðum jafnar til fólksins. Rentan af þjóðarverðmætum lendir að mestu leyti í ránsklóm pilsfaldagreifanna.

Þýzka Angelu-hrunið

Punktar

Staða Angelu Merkel og flokks hennar hrundi í kosningum um helgina. Alternative für Deutschland þjóðremban sogaði til sín fylgi vegna óvinsælda flóttafólks. Um leið hrundi staða Þýzkalands í samfélagi Evrópuríkja. Landamærum lokað kruss og þvers um Evrópu. Samningur Merkel við einræðisríkið Tyrkland fékk siðferðislega falleinkunn. Jafnvel Frakkland hristir haus. Fólk vill alls ekki, að Tyrkir fái Schengen-frelsi í Evrópu út á stöðvun flóttafólksins. Austurríki, Tékkland og Pólland hafa sameinast um grjótharða stefnu gegn Tyrklandi og komu flóttafólks. Ráða núna ferðinni í Evrópu. Danmörk og jafnvel Svíþjóð feta dauðhrædd á eftir.

Pass hjá VG – BF styður

Punktar

Á föstudaginn voru Píratar klárir í andstöðu við þrjá búta Sigmundarnefndar á stjórnarskránni. Á laugardaginn fylgdi Samfylkingin í kjölfarið, enda óttast hún fylgisleka til Pírata. Á sunnudaginn gáfu Vinstri græn upp annað viðhorf: Bíðum og sjáum. Eru ekki eins næm fyrir samkeppni frá Pírötum. Telja sig hafa sérstöðu í græna litnum, Píratar séu áberandi minna grænir. Vinstri græn telja sig því geta varið sitt 10% fylgi og eru sátt við það. Björt framtíð tók svo um kvöldið enn jákvæðar í bútana þrjá og telur þá til bóta. Hefur raunar löngum verið höll undir bófaflokkana. Ríkisstjórnin getur því knúið fram bútasauminn.

Vekur upp gamalt kjaftæði

Punktar

Sigmundur Davíð beinir athyglinni frá heilsuklúðri ríkisstjórnarinnar með bombu um landspítala í Garðabæ. Vakti auðvitað upp alþekkta andstöðu við uppbyggingu við Hringbraut. Deila um spítalastað hefur risið og hnigið í tvo áratugi. Fyrir löngu ákveðið að byggja við Hringbraut. Bomban er enn einn fleinn í gangverki endurreisnarinnar. Nú þegar er verið að reisa spítalann, hönnun og forvinnu er lokið, framkvæmdir hafnar. Spítalinn þolir enga bið. Bráðasjúklingar liggja í bílageymslu vegna plássleysis. Siglingin er hafin og koma þarf málinu í höfn. Enginn tími til að rækta gamalt kjaftæði. Takið lyfin ykkar, róið ykkur niður.

Tveir flokkar segja Nei

Punktar

Á föstudaginn höfnuðu Píratar öllum tillögum Sigmundarefndar um stjórnarskrána í almennri atkvæðagreiðslu. Degi síðar mælti enginn tillögunum bót á fundi í flokksstjórn Samfylkingarinnar. Formaður hennar einangraðist í eigin flokki og hlýtur að segja af sér næstu daga. Sama er uppi á teningnum í báðum flokkum, fólk vill stjórnarskrá Stjórnlagaráðs. Líklega með breytinum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis frá lokum síðasta kjörtímabils. Lætur ekki undanbrögð bófaflokka villa sér sýn. Þjóðarsátt felur ekki í sér neina sátt við bófaflokka auðgreifanna. Nú reynir á Vinstri græn og Bjarta framtíð að taka skýra afstöðu.

Sumir verða að lúffa

Punktar

Ég vil sjá nokkrar skoðanakannanir um fylgi forsetaefna í kosningabaráttunni. Sérstaklega vil ég sjá kannanir, sem sýna ekki bara fyrsta val, heldur einnig annað og þriðja val. Þá sjáum við, hverjir þurfa að draga sig í hlé á síðustu metrunum til að rýma fyrir þeim, sem betur gengur. Altjend þarf að hindra, að leiðindagaur á borð við Davíð Oddsson verði forseti út á 20% atkvæða. Þurfum frekar forseta, er nýtur víðtæks trausts sem annar og þriðji kostur. Þjóðin er búin að þola of mikið af völdum greifanna, sem fara með okkur eins og hunda. Þess vegna mega frambærileg forsetaefni ekki dreifa fylginu hvert frá öðru.

Á rangri hillu

Punktar

Forsætisráðherra skrifar meira um borgarmál en þjóðmál. Raunar búinn að gefast upp á þjóðmálunum. Innlegg hans þar leiða yfirleitt til háðslegra athugasemda álitsgjafa. Hann hefur ekkert respekt sem forsætis og ríkisstjórn hans er sú versta í sögu lýðveldisins. Öðru máli gegnir um borgina. Sigmundur nýtur þess að hafa grautað í skipulagsfræðum á próflausum vergangi sínum um erlenda skóla. Hefur skoðanir á borgarskipulagi og setur fram markvissa gagnrýni á meirihluta borgarstjórnar. Viðbrögð álitsgjafa eru snöggtum jákvæðari en í landsmálunum. Fallisti landsmálanna er orðinn að leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Reykjavík.

Frávísun Dags

Punktar

Fyrst fullyrti Dagur B. Eggertsson, að götur borgarinnar væru í góðu lagi. Þá fylltist fésbókin af myndum af holum í götum. Þetta voru borgargötur, hvorki þjóðvegir í þéttbýli né götur í nágrannabæjum. Dagur var þá aftur spurður og viðurkenndi slæmt ástand. Sagðist leita samstarfs við Vegagerðina og nágranna um úrbætur. Alveg eins og veslings vegagerðin og allt höfuðborgarsvæðið bæri ábyrgðina og hetjan Dagur væri að safna liði. Svona haga pólitíkusar sér, er þeir vita ekki, að samfélagsmiðlar rústa jafnóðum ámátlegum frávísunum á aðra. Í raun er borgarstjórinn að reyna að kvelja bílnotendur til að nota reiðhjól.

Að eiga beygingar orða

Punktar

Í fimm aðgreindum tilvikum hefur Árnastofnun eignað sér beygingar orða. Reynt að skrúfa fyrir vísindamenn, sem vilja birta sömu beygingar. David Blurtin var fyrstur til að upplýsa. Síðan komu Sverrir Á. Berg, Salvör Kristjana, Jón Jósef Bjarnason og ónefndur forritari. Í öllum tilvikum reyndi Árnastofnun að hindra aðgengi fólks að upplýsingum þeirra. Þetta er eins og að banna fólki að birta hnit staðar á þeirri forsendu að annar hafi eignað sér hnitin. Staðreyndir lúta ekki höfundarétti. Árnastofnun reynir að hindra þekkingu á íslenzku. Margt hef ég heyrt um fákænsku íslenzkra smákónga, en þetta er með því undarlegasta.

Stjórnarskráin sigraði

Punktar

Í almennri atkvæðagreiðslu á vefnum höfnuðu píratar aðild að öllum þremur tillögum nefndar Sigmundar Davíðs um breytingar á stjórnarskrá. Útkoman var eindregin og féll gegn meðmælum nefndarmanns pírata og þingmanna þeirra annarra en Birgittu. Þetta er mikill sigur þess sjónarmiðs að keyra beri á fullu á meginatriðum stjórnarskrár Stjórnlagaþings. Að ekki beri að láta sjónhverfingar og orðaleiki auðgreifa villa sér sýn á þeirri leið. Útkoman er hvatning til Samfylkingar um að falla frá stuðningi formanns síns við áðurefndar tillögur Sigmundarnefndar. Veikir framvindu tilraunar nefndarinnar til að drepa stjórnarskránni á dreif.

Hata lög og rétt

Punktar

Á opinberum fundum í Viðskiptaráði er sagt eðlilegt, að atvinnurekstur fari 70% eftir reglum. Engin furða, þótt smákrimmar telji sér leyfast það. Hatur á lögum og rétti er inngróið í samfélagið. Lagatæknar innleiddu margvísleg nýyrði yfir þjófnað, svo sem „undanskot“, „á svig við“ og „umboðssvik“. Lagatæknar líta á lög og reglur sem fyrirstöður, er þurfi að skauta framhjá. Í hópi viðskipta og laga er linnulaust ráðist á regluverkið og hneykslast á „eftirlitsiðnaðinum“. Evrópusambandið er hatað vegna ýtarlegs regluverks. Andverðleikafólk er ráðið yfirmenn eftirlitsstofnana. Ísland er þannig orðið að kjörlendi fyrir bófa.

Ekki dreifa fylginu

Punktar

Töluvert framboð er þegar af forsetaefnum, sem fengið hafa innri köllun til að gegna embættinu. Ekkert þeirra mun fá marktækt fylgi. Ekkert framboð er enn af fólki, sem kæmi til með að fá marktækt fylgi, yfir 20%. Vandinn er þó annar, að of margir slíkir bjóði sig fram. Gæti leitt til, að Davíð Oddsson sigraði út á 20%. Það er óbærileg tilhugsun, að helzti hrunvaldurinn og fólið í pólitíkinni yrði forseti. Góðir frambjóðendur þurfa að halda opnu að draga sig í hlé, sýni kannanir, að atkvæði dreifist of víða. Alvöru frambjóðendur gegn bófaflokkum auðs og valda mega helzt ekki verða fleiri en tveir, er framboðsfresti lýkur.

Einæði Landsnets

Punktar

Landsnet er verri bófaflokkur en Landsvirkjun. Reynir í skjóli ríkisvaldsins að valta yfir alla. Reyndi að ná yfirráðum fjögurra jarða á Reykjanesskaga vegna nýrrar línu. Dómstóll hafnaði kröfunni sem andstæðri eignarétti í stjórnarskrá. Landsnet er alveg ónæm fyrir langvinnri gagnrýni um línulagnir án tillits til sjónarmiða umhverfis, ferðamennsku og eignaréttar. Hafnar kröfum um lagningu raflína í jörð. Birtir ítrekað upplognar tölur í því skyni. Viðhorf Landsnets til lífsins og tilverunnar eru meira en röng pólitík. Þau eru hreint einæði. Þegar alvara kemst til ríkisvalda, þarf að leggja niður bófaflokkinn Landsnet.

Vandinn er plástraður

Punktar

Stjórnvöld ráðast aldrei að rótum vandans. Þegar ungt fólk hefur ekki ráð á íbúð, er ekki skoðuð vaxandi misskipting tekna, sem veldur peningaleysi. Í þess stað er íhugað að plástra hér og þar og alltaf of seint, samanber Eygló. Þegar bankar og tryggingar fara fram úr sér í græðgi er ekki skipt út yfirmönnum og útvegað siðað fólk. Í staðinn er rætt um bankaskatt, bann við bankabónusum og nýjan happaskatt. Þegar eftirlitsstofnanir eru staðnar að því að sinna engum störfum sínum, er andverðleikum ekki skipt út. Í staðinn væla ráðherrar bara. Við þurfum nýtt fólk í pólitíkina, sem er ekki heltekið af möguleikum plástra.

Þurfum við Björk?

Punktar

Mér sýnist Svanur Kristjánsson prófessor hafa á réttu að standa á báðum póstum. Að Össur fari fram og að hann nái ekki kjöri. Samfylkingin er lítið og lélegt bakland og pólitíkusar engin söluvara. Katrín Jakobsdóttir er líklega sá eini, sem hefði átt séns. Líklega af því að fólk telur hana heiðarlega og sáttfúsa. En hún hyggst ekki bjóða sig fram. Senn þurfum við nýja könnun til að segja okkur, hver rýfur 8% fylgisþakið, sem birtist í nýlegri könnun MMR. Enn er ekki kominn miður marz, svo góður tími er til stefnu. Óvíst er, að rétta persónan birtist fyrr en eftir mánaðamót. Þurfum við þá pírata eða kannski bara Björk?