Hestar

Upphækkaðir jeppar Sturlungu

Hestar

Gaman að lesa grein Helga Þorlákssonar um búsetu höfðingja á Sturlungaöld. Í nýjum árgangi Sögu. Valdamiðstöðvar fluttust frá nálægð við hafnir til miðra héraða nálægt vöðum. Oddi, Skálholt, Hruni, Reykholt, Stafholt, Sauðafell, Víðimýri, Flugumýri og Grund urðu valdamiðstöðvar. Í Sturlungu eru vöð afar mikilvæg, þar safnaðist fólk saman. Hruni er miðja vega milli Nautavaðs á Þjórsá og Kópsvatnseyra á Hvítá. Ámótsvað á Hvítá, fundarstaður í Sturlungu, er í kallfæri við Reykholt, Stafholt og Bæ. Víðimýri og Flugumýri kallast á yfir vöð á Héraðsvötnum. Hestar voru upphækkaðir jeppar þess langferðatíma.

Hryssur toppa goggunar-röðina

Hestar

Hryssur hafa verið til umræðu í pólitíkinni eftir áramótin. Vel til fundið, því að hryssur eru merkilegar verur, taldar goðumlíkar meðal þjóða, sem lifa á reiðmennsku. Ýmsir guðir voru í hryssulíki, samt ekki hjá Forn-Egyptum, sem áttu þó góða kerruhesta. Gamlar hryssur stýra stóði á Íslandi, ekki stóðhestar. Þeir hlaupa út og suður, viðþolslausir af greddu, magrir, bitnir og vansælir. Gömlu og rólegu merarnar stjórna hins vegar ferð, fara fyrir stóðinu og finna nýja bithaga og ný vatnsból. Í goggunarröð hrossanna eru fremstar hryssur, sem komnar eru til ára sinna. Þannig ætti að vera hjá oss.

Írsk og íslenzk hross

Hestar

Írar hafa löngum verið taldir hestamenn eins og Íslendingar. Þar eru saman komin mest verðmæti heimsins í hrossum talið. Frægustu veðhlaupahestar heims eru þar á beit. Með fjárhagshruni Írlands bilaði undirstaða hrossaeignar. Miðstéttarfólk, sem áður átti hest eða hlut í hesti, hefur ekki lengur ráð á að halda þeirri eign uppi. Lausnin er því miður oft sú að skilja hestinn eftir í reiðileysi. Þeim er sturtað á öskuhauga, þar sem þeir ráfa um í vatnsleysi og fæðuskorti. Tugþúsundir hrossa eru komin á vonarvöl á Írlandi. Hér á Íslandi gerðist ekkert slíkt. Hér hafa nánast öll hross nóg að bíta.

Fáksmenn éta hestana sína

Hestar

Hart er í ári hjá hestamönnum. Hjá Fáki eru þeir farnir að éta hestana sína. Ætla að koma saman á þrettándanum og þrauka. Éta saltað og reykt hrossakjöt, hrossasperðla, sviðna hausa og ýmsa aðra viðurstyggð. Svo sem Ora-baunir dísætt rauðkál og bragðlausa hveitistöppu, sem þeir kalla uppstúf. Að mínu viti er tiltækið verra en mannakjötsát, því að hross eru vitrari og siðaðri verur en vesælir eigendur þeirra. Er ekki hægt að láta Fáksmenn hafa forgang hjá samtökum, sem gefa aumingjum vikulega mat í poka? Hestamennska er dýr eftir hrun, kallar á sálgæzlu og matargjafir og “alls konar fyrir aumingja”.

Harðfylgi Sigurbjörns

Hestar

Sigurbjörn Bárðarson sýndi verðlaunapeninga sína í Kastljósi í gær. Sýndi þúsundir gripa í hundrað fermetra húsi. Segist bera virðingu fyrir þeim, vill ekki hafa þá í pappakössum. Sigurbjörn varð þrefaldur knapi ársins, þótt hann sé 58 ára. Fáir vita, að hann varð undir fjórhjóli fyrir áratug. Reis síðan með ótrúlegu harðfylgi til heilsu að nýju. Gengur óhaltur meðan báðir fætur eru jafnlangir. Og situr hest betur en aðrir menn. Kemur vel fyrir sig orði, þannig að allir skilja. Á sinn þátt í að gera hestamennsku að þriðju vinsælustu íþróttagrein landsins, næst á eftir fótbolta og golfi.

Á rófubeininu og eistunum

Hestar

Fyrir einni öld riðu margir bændur sitjandi í hnakki eins og í stól. Fyrir hálfri öld komu hingað þýzkir knapar, sem kenndu Íslendingum að standa í ístöðunum. Þá kom til sögunnar sú reiðmennska, sem gömlu karlarnir kölluðu tamningamanna-glenning. Hestamenn deildu um þetta mál. Forvígismenn nýju línunnar sögðu, að gömlu karlarnir riðu á rófubeininu. Þeir gömlu svöruðu í sömu mynt og sögðu nýja gengið ríða á eistunum. Af þessu varð hvellur. Nú eru menn hálfstandandi og hálfsitjandi í hnakki. Sigurbjörn Bárðarson fer bil beggja, er nær gömlu bændaásetunni, enda situr hann hest bezt allra.

Dansar ekki og hoppar ekki

Hestar

Við sjáum oft hesta í sjónvarpinu. Við sjáum þá í kapphlaupi, í stökki yfir hindranir eða í dansæfingum. Allt þetta gera þeir betur en íslenzkir hestar. Hér voru kappreiðar eftir seinna stríð, en þær lognuðust út af. Íslenzki hesturinn er of mikill kubbur fyrir íþróttir. Hann er fyrst og fremst ganghestur, hefur margs konar gang, fet og brokk og tölt og skeið og stökk og valhopp. Hann er rólegri en erlendir sýningarhestar og hentar betur sem fjölskylduvinur og ferðahestur. Einkum er hann rosalega þolgóður. Stóð sig vel í þolkeppni yfir Bandaríkin þver og endilöng, lenti þar í efsta sæti.

Hestur hengdur upp úr feni

Hestar

“Í þá daga höfðu menn með sér reipi með lipurri högld á endanum, þegar farið var í smalamennsku og útreiðar. Þetta reipi var notað, þegar hrossin lágu í og gátu ekki losað sig. Því var brugðið utan um háls hrossins og dregið í högldina og togað í eins og afl mannsins leyfði. Þegar herti að hálsinum og hesturinn ætlaði að kafna, neytti hann allra krafta til að komast upp, og þetta dugði oft vel. Þetta hét að hengja hest upp úr feni.” Þannig lýsir Þorsteinn Þorsteinsson frá Húsafelli ferðum og smalamennsku um mýrar og fúafen á Tvídægru, Núpdælagötum og Aðalbólsheiði í Húnaþingi.

Farþeginn hangir í faxinu

Hestar

Fyrir öld brúa urðu hestar að vera vel syndir, þegar í harðbakkann sló á erfiðum vöðum. Eða þegar menn vildu stytta sér leið. Skaftfellskir hestar, einkum úr Hornafirði og Öræfum, voru eftirsóttir fyrir einni öld. Kallaðir vatnahestar. Sumir hestar eru svo djúpsyndir, að varasamt er að sitja þá. Aðrir synda hátt í vatni og eru þægilegir ásetu við þær aðstæður. Einstaka hestar leita sífellt botns og hoppa því á sundinu. Ég sá einn hoppa þannig í Holtsós. Þeir eru hættulegir. Hlutverk fólks á sundreið er að vera farþegar, toga ekki í tauminn, standa í ístöðunum og hanga að öðrum kosti í faxinu.

Sauðkindin sigraði Hrunamenn

Hestar

Tvisvar á sunnudaginn hélt ég, að ég væri að fá hjartaslag. Klifraði niður í þrjú gil og upp úr þremur giljum með hest í eftirdragi. Elti rollur tvisvar sinnum hringinn kringum stapa. Klöngraðist þrisvar upp á stapa og þrisvar niður aftur. Þannig var smalað á Kaldbak, Kluftum og Hrunakrók og á stórbýli fjármálaráðuneytisins, Hrunaheiðum. Steingrímur J. Sigfússon var að vísu ekki mættur, en ég puðaði fyrir hann. Árangurinn var þessi: Fyrir smölun voru fimmtán óboðnir hausar í túninu á Kaldbak. Nú eru átta hausar á Kluftum að éta skógrækt Skógar-Björns. Sigur sauðkindarinnar, ósigur Hrunamanna.

Reglugerð brýtur lög

Hestar

Þegar menn setja reglugerðir, sem brjóta lög, þurfa þeir að vara sig. Til dæmis taka mark á athugasemdum eða útskýra, hvers vegna ekki. Að auki segir reglan, að viðra beri umdeild mál, áður en þau eru framkvæmd. Smákóngarnir dissa ferlið. Alveg eins og mannaráðningar, þegar auglýsing um starf er bara formsatriði, búið var áður að velja manninn. Framkvæmdastjórn Vatnajökuls hagar sér svona. Semur reglur um þjóðgarðinn, sem brjóta Náttúruverndarlögin frá 1999. Fær ótal athugasemdir, en tekur ekki mark á þeim. Reynir ekki einu sinni að flytja gagnrök. Heimtar bara, að ráðherra banni hesta í Bárðargötu.

Fjallmenn í vöfflukaffi

Hestar

Kátt var á Kaldbaki í hádeginu í gær. Samkvæmt hefð hófu fjallmenn sex daga leitir hér í vöfflukaffi. Kindum fækkar og fjallmönnum fjölgar. Fleira fólk en fé verður í Hrunarétt á föstudaginn kemur. Hér höfðu menn þrjá til reiðar og hafa kokk með sér á fjöllum. Veðurspáin er góð, bara skúrir, hiti góður og engin þoka, sem er allra bezt. Munur er að vera fjallmaður í dag. Alls staðar eru góðir fjallaskálar, jafnvel með klósetti. Og það er munur að vera hestur í leitum, þegar menn hafa þrjá til reiðar. Í gamla daga létu menn sér einn nægja, enda urðu hestar snemma gamlir. Núna eru þeir allir hressir.

Vestan við syðri fótinn

Hestar

Guugu Ymithirr er nýfundið mál frumbyggja nyrzt í Queensland í Ástralíu. Þar nota menn ekki persónuleg viðmið, þegar þeir segja til vegar. Segja ekki: Beygðu til hægri. Þeir segja: Beygðu í austnorðaustur. Eða: Paddan er vestan við syðri fót þinn. Þeir nota seguláttirnar. Sem fararstjóri í hestaferðum veit ég, að það er betra. Stundum þarf að fara í öfuga átt við leiðbeiningu. Þá er betra að vita um austur en um hægri. Í þoku dugir ekki að stefna á miðjan Eiríksjökul, betra er að fara suðsuðvestur áttavitann. Í gagnabanka mínum um 800 reiðleiðir á Íslandi nota ég ætíð vegalýsingar Guugu Ymithirr.

Fetað í fótspor hreindýra

Hestar

Sumum þjóðgarðsvörðum og náttúruunnendum er uppsigað við hesta. Jóna Guðný Eyjólfsdóttir í Snæfellsskála er einn þeirra. Kvartar yfir gróðurskemndum af völdum hesta. Getur hún ekki beðið hestana um að feta í fótspor hreindýra, svo að allt verði með sóma? Hestar eru partur af náttúrunni eins og kýr og kindur, hreindýr og tófur. Eðlilegt er, að spor eftir hesta sjáist vítt um landið og jafnvel kúkur eftir þá. Aðrir hafa kvartað yfir hestaslóðum, til dæmis Sigurður Sigurðarson bloggari. Því miður er ekki nóg af slíkum slóðum, sem gefa náttúrunni sagnfræði. Ég gleðst alltaf, þegar ég kem auga á hófför.

Sturlunga á reiðkorti

Hestar

Ný útgáfa af reiðslóðakorti mínu er komin á netið, www.jonas.is. Fjölgað hefur slóðunum, þær eru orðnar yfir 800. Færri eru gróft teiknaðar eftir kortum og fleiri nákvæmlega sýndar eftir ferilpunktum GPS-tækja. Helzta viðbótin er þó sú, að 200 slóðum er nákvæmlega lýst í texta. Til dæmis eru raktar frásagnir úr Sturlugu og skýrt frá sérkennum svæðisins. Mesti kostur safnsins er, að menn hlaða slóðunum inn í sína eigin tölvu og þaðan yfir í eigið GPS-tæki. Aðgangur að reiðslóðakortinu er ókeypis. Notendur mega senda mér hlýjar hugsanir. Muna samt, að engin tækni kemur í stað fyrirhyggju.