Hestur hengdur upp úr feni

Hestar

“Í þá daga höfðu menn með sér reipi með lipurri högld á endanum, þegar farið var í smalamennsku og útreiðar. Þetta reipi var notað, þegar hrossin lágu í og gátu ekki losað sig. Því var brugðið utan um háls hrossins og dregið í högldina og togað í eins og afl mannsins leyfði. Þegar herti að hálsinum og hesturinn ætlaði að kafna, neytti hann allra krafta til að komast upp, og þetta dugði oft vel. Þetta hét að hengja hest upp úr feni.” Þannig lýsir Þorsteinn Þorsteinsson frá Húsafelli ferðum og smalamennsku um mýrar og fúafen á Tvídægru, Núpdælagötum og Aðalbólsheiði í Húnaþingi.