Íslenzkur „Coq au vin“

Veitingar

Kjúklingur, jafnvel Holtakjúklingur, verður aldrei Coq au vin, Hani í víni. Til þess þarf að ala hanann í 9 vikur. Síðan er hann matreiddur í Búrgundarvíni í heilan sólarhring til að gera hann meyran og bragðmikinn. Eini staðurinn hér á landi, sem býður ekta Coq au Vin er Friðrik V, sem kaupir alla framleiðslu af hönum hjá Bjarna Eiríki Sigurðssyni á Torfastöðum, þeim fræga hestaferðamanni. Gott dæmi um, að „beint frá bónda“ er tilefni ótrúlegrar fjölbreytni matseðla þeirra veitingastaða, sem gæla við hráefni með skilgreindum uppruna. Þannig hafa ýmsir bændur orðið kunnir af frábærum sérleiðum í ræktun og húsdýrahaldi.

12. Miðbær syðri – Monumento Vittorio Emanuele II

Borgarrölt

Monumento Vittorio Emanuele II, Roma

Monumento Vittorio Emanuele II

Við beinum nú athygli okkar að frægasta mannvirki 19. aldar í borginni, hinu konunglega minnismerki, sem blasir við Piazza Venezia, belgir sig út utan í Capitolum og skyggir rjómahvítt á rústir fornu Rómar. Þetta er hástig tertustílsgreinar sögustíls 19. aldar, teiknað 1884 af Giuseppi Sacconi, en varð ekki fullbyggt fyrr en 1922.

Fyrir miðju mannvirkinu er riddarastytta af Victor Emanuel II, sem var fyrsti konungur sameinaðrar Ítalíu. Fyrir framan styttuna er Þjóðaraltari Ítalíu, minnismerki óþekkta hermannsins.

Santa Maria d’Aracoeli

Við göngum hægra megin við minnismerkið og getum valið um að fara upp brattar tröppur vinstra megin að Santa Maria d’Aracoeli eða aflíðandi tröppur, Cordonata, hægra megin að Piazza del Campodoglio. Kirkjutröppurnar eru frá 1346, 122 að tölu. Efst úr þeim er gott útsýni yfir miðbæinn með hvolfþak Péturskirkju í bakgrunni. Kirkjustæðið var að fornu helgasti staður borgarinnar. Þar var borgarkastalinn, Arx, og hof Junos.

Santa Maria d’Aracoeli er frá 1250, búin gotneskum rósagluggum. Innan í henni er töluvert af listaverkum frá miðöldum, svo sem marmaragólf og steinkistur við innganginn, svo og freskur eftir Pinturicchio í kapellu hægra horns við innganginn. Mest helgi er á barnslíkneski, Santa Bambino í kapellu í vinstra þverskipi.

Næstu skref

11. Miðbær syðri – Piazza Venezia

Borgarrölt

Piazza Venezia

Við göngum áfram eftir Corso Vittorio Emanuele II og í framhaldi af henni Via del Plebiscito alla leið til Feneyjatorgs, miðtorgs borgarinnar, þar sem höfuðbrautir hennar skerast og þar sem umferðarhnútar verða verstir. Allar leiðir leigubíla virðast þurfa að liggja um þetta torg.

Á hægri hönd okkar er Palazzo Venezia, byggð 1455-1471 á vegum páfans Páls II, sem bjó hér. Síðan bjuggu hér margir páfar, svo og Karl VIII Frakkakonungur og Mussolini hafði hér skrifstofur sínar. Hér kom hann fram á svalirnar og talaði til lýðsins. Undir svölunum er helzti staður stefnumóta í borginni. Nafn hallarinnar kemur frá þeim tíma, er sendiherrar Feneyja bjuggu í hluta hallarinnar.

Andspænis henni við torgið er 20. aldar höll, sem dregur dám af Feneyjahöll.

Höllin er fyrsta borgaralega mannvirkið í endurreisnarstíl í Róm. Í stílnum eru miðaldaminni, svo sem hinn voldugi hornturn, en endurreisnartíminn kemur meðal annars fram í póstagluggum hallarinnar og tvöföldu súlnariði framhliðar hallarkirkjunnar til hliðar við turninn.

Kirkjan sjálf er raunar eldri en höllin, upphaflega frá 336, en endurbyggð á 9. öld. Að innan er hún mikið skreytt í stíl ýmissa tímabila. Höllin er líka mikið skreytt hið innra, þótt hún líti hófsamlega út að utanverðu. Í henni er frægur hallargarður og safn listmuna frá miðöldum.

Næstu skref

10. Miðbær syðri – Gesú

Borgarrölt

Gesú

Gesú, Roma

Gesú

Frá torginu förum við austur eftir aðalgötunni Corso Vittorio Emanuele II og komum fljótlega að voldugri kirkju, Gesú.

Gesú er frá 1568-1575, fyrsta hlaðstílskirkja Rómar, hönnuð af Vignola fyrir nýstofnað munklífi jesúíta og er enn höfuðkirkja þess. Framhliðin, sem við sjáum, er eftir Giacomo della Porta, frá árunum 1573-1584. Þessi virðulega og spennuþrungna framhlið með súlnapörum á tveimur hæðum, sem eru tengdar með bókrolluvindingum varð fyrirmynd mikils fjölda kirkna víða um heim.

Gesú, Roma 2

Gesú

Sjálf kirkjan er samþjöppuð að formi, teiknuð í anda gagnsiðaskipta kristmunka, sem vildu færa söfnuðinn nær prestunum. Hún er aðeins einskipa, og kapellustúkur koma í stað hefðbundinna hliðarskipa. Þetta auðveldaði söfnuðinum að sjá til prestanna. Ennfremur var reynt að hafa hljómburð sem beztan í kirkjunni.

Hinar miklu skreytingar eru viðbrigði frá fyrri byggingarstílum, enda eru þær einni öld yngri en kirkjan, frá þeim tíma, er hlaðstíll hafði fest sig betur í sessi. Giovanni Battista var fenginn 1672 til þess að búa kirkjuna freskum. Frægust þeirra er myndin af Jesú í skipshvolfi kirkjunnar.

Skrautlegasti hluti kirkjunnar er þriðja kapellan hægra megin, tileinkuð stofnanda reglunnar, Ignatiusi Loyola, gerð af Andrea Pozzo 1696-1700, lögð dýrum steinum á borð við dökkbláan lapis azuli á grænum marmara.

Næstu skref

9. Miðbær syðri – Largo di Torre Argentina

Borgarrölt

Largo di Torre Argentina, Roma

Largo di Torre Argentina

Við höldum áfram frá torginu eftir Via Paganica og komum að stóru torgi með niðurgrafinni miðju.

Hér komum við að fornleifagreftri, sem meðal annars sýnir, hversu miklu lægra var yfirborð lands á dögum Rómarveldis. Minjarnar, sem hér sjást, eru leifar elztu hofa, sem fundizt hafa í Róm, frá lýðveldistíma borgarinnar, sumpart frá 5. öld f.Kr.

Við göngum framhjá miðaldaturni á horni torgsins og meðfram grindverkinu austan megin torgsins. Fyrst komum við að leifum elzta hofsins, sem var í etrúskum stíl. Miðhofið var hringlaga, frá 2. öld f.Kr. Þriðju og síðastar í röðinni eru rústir hofs, sem byggt var og endurbyggt á ýmsum tímum, frá 4. öld til 1. aldar f.Kr, en inni í því eru einnig leifar miðaldakirkju. Að baki þessa hofs er hár veggur, sem að fornu var hluti almenningsnáðhúss.

Að baki rústanna, vestan torgsins, er leikhúsið Argentina, þar sem Rakarinn frá Sevilla var fyrst settur upp og kolfelldur, svo sem frægt hefur orðið. Sömu megin er eitt af frægustu kaffihúsum Rómar, Bernasconi.

Næstu skref

8. Miðbær syðri – Ghetto

Borgarrölt
Fontana della Tartarughe, Roma

Fontana della Tartarughe

Ghetto

Við göngum Via Portico d’Ottavia til vesturs í átt til Via del Progesso. Á þessum slóðum er Gyðingahverfi Rómar, svokallað Ghetto.

Gyðingar bjuggu fyrst í Trastevere, handan árinnar. Þeir voru látnir flytja hingað á 13. öld og Páll páfi IV lét gera múr um hverfið um miðja 16. öld. Hann var síðan rifinn um miðja 19. öld, en hverfið umhverfis Octaviuport ber enn Gyðingleg merki, þar á meðal veitingahúsin. Áður var nefnt veitingahúsið Vecchia Roma og hér í þversundinu Via Monte de’Cenci út frá Via del Progresso er annað, Piperno.

Við förum ekki alla leið til Via del Progresso, heldur beygjum til hægri út af Via Portico d’Ottavia eftir Via Sant’Ambrogio til Piazza Mattei. Þar er frægur gosbrunnur, Fontana della Tartarughe, frá 1581-1584.

Næstu skref

7. Miðbær syðri – Teatro di Marcello

Borgarrölt
Teatro di Marcello, Roma

Teatro di Marcello

Teatro di Marcello

Þegar við höfum skoðað eyna, förum við til baka Ponte Fabricio og göngum milli San Nicola og Teatro di Marcello til áðurnefndrar götu, Via di Tetro di Marcello, þar sem við beygjum til vinstri meðfram Teatro di Marcello.

Smíði leikhúss Marcellusar hófst á dögum Cesars og var lokið 11 f.Kr. á stjórnarárum Augustusar, tileinkað systursyni hans. Af hinu upprunalega leikhúsi standa enn tvær hæðir súlnariða af þremur. Neðst er dórísk súlnaröð, þar ofan á jónísk, og talið er, að hin þriðja hafi verið kórinþsk. Talið er, að súlnariðin hafi verið fyrirmynd Colosseum.

Súlurnar, sem enn sjást, eru hluti af hálfhringlaga áhorfendasvæði leikhússins. Þetta var næststærsta leikhús Rómar, á eftir leikhúsi Pompeiusar á Marzvöllum, var 120 metrar í þvermál og rúmaði 20.000 áhorfendur. Hér voru leiksýningar, tónleikar, upplestur og ræðuhöld að fornu.

Rústum leikhússins var 1150 breytt í kastala og síðan í höll á 16. öld. Minjar þess má sjá ofan á súlnariðum leikhússins.

Framan við súlnarið Marcellusar sjáum við þrjár kórinþusúlur, sem eftir standa af frægu hofi Apollos, sem reist var 433-431 f.Kr. og endurnýjað 34 f.Kr. Hinn gríski guð var í metum hjá Rómverjum, einkum þegar leitað var ráða gegn sjúkdómum.

Portico d’Ottavia

Við förum framhjá hofi Apollos og beygjum til vinstri á Piazza di Campitelli, þar sem er kirkjan Santa Maria in Campitelli frá 1661, hlaðin súlnariðum að innan sem utan.

Á næstu gatnamótum, þar sem er veitingahúsið Vecchia Roma, beygjum við enn til vinstri í Via Tribuna di Campitelli og göngum þá götu og framhald hennar, Via di Sant’Angelo di Peschieria, alla leið til Via Portico d’Ottavia.

Hér sjáum við Octaviuport, leifar mikils mannvirkis, sem Caecilius Metellus lét reisa 146 f.Kr. Portið er hluti girðingar umhverfis tvö hof, helguð Juno og Jupiter.

Augustus keisari lét endurbæta mannvirkið 27-23 f.Kr. og tileinkaði Octaviu konu sinni. Severus keisari lét enn endurbæta það 203 og frá þeim tíma er portið, sem nú sést.

Í stað tveggja af súlum portsins var á miðöldum byggður múrsteinabogi til að halda portinu uppi og stingur hann mjög í stúf við hinn upprunalega hluta.

Næstu skref

6. Miðbær syðri – Ponte Fabricio

Borgarrölt
Tibur-eyja & Ponte Fabricio

Tibur-eyja & Ponte Fabricio hægra megin

Árbakkinn við Forum Holitorum og Forum Boarium var höfnin í Róm fornaldar. Hingað sigldu skip með varning til Rómar. Svæðið frá Santa Maria in Cosmedin og hingað til San Nicola var hafnarhverfi Rómar, þétt skipað hofum af ýmsu tagi.

Í framhaldi af þessu kaupskipalægi var svo herskipalægi til norðurs upp með ánni. Við förum þá leið, sem liggur meðfram ánni að kirkjubaki, Lungotevere dei Pierleoni, 300 metra leið að brúnni yfir ána.

Ponte Fabricio

Ponte Fabricio er eina brúin á Tiburfljóti, sem hefur varðveitzt óbreytt frá fornöld. Hún var reist 62 f.Kr., á tíma Fabriciusar ræðismanns, og er því meira en 20 alda gömul. Hún tengir meginhluta borgarinnar við Tibureyju.

Breið boghöf hennar sýna, hversu djarfir og traustir rómverskir verkfræðingar fornaldar voru í burðarþolsfræðum og hve vel sum verk þeirra þola jarðskjálfta, flóð og styrjaldir.

Tibureyja er aðsetur munkareglu, Fatebenefratelli, sem fæst við hjúkrun í beinu framhaldi af, að þetta var eyja læknislistar í heiðnum sið. Þar sem nú er kirkjan San Bartolomeo, var áður hof Æsculapiusar, guðs læknislistarinnar. Byggingar eyjarinnar eru að mestu leyti sjúkrahús.

Næstu skref

5. Miðbær syðri – Arco di Giano

Borgarrölt

Arco di Giano

Arco di Giano, Roma

Arco di Giano

Við þann enda torgsins, sem lengst er frá hofunum tveimur, er Janusarbogi, sérstæður að því leyti, að hann hefur fjórar hliðar með bogagöngum, en ekki tvær, enda spannaði hann að fornu krossgötur við norðurenda kjötmarkaðarins Forum Boarium. Hann er frá 4. öld, tileinkaður guðinum Janusi.

Frá torginu göngum við Via di San Giovanni Decollato 200 metra leið norður til Piazza della Consolazione. Fyrir enda torgsins er Santa Maria della Consolazione, kirkja frá 1470 með forhlið frá 16. öld. Síðan göngum við 300 metra leið eftir Vico Jugario undir hlíðum Kapítóls-hæðar að breiðgötunni Via di Tetro di Marcello. Fyrir ofan hlíðarnar er Tarpeiu-klettur, þar sem svikurum var fleygt fram af, heitinn eftir Tarpeiu þeirri, sem hleypti her Sabína inn í borgina á dögum Romulusar.

San Nicola in Carcere

Hinum megin við breiðgötuna er San Nicola in Carcere, reist á 11. öld á rústum þriggja hofa, sem stóðu hlið við hlið ofan við Forum Holitorum, grænmetismarkaðinn. Í hliðarvegg kirkjunnar má sjá súlnarið úr einu hinna gömlu hofa.

Næstu skref

4. Miðbær syðri – Vesta & Fortuna Virile

Borgarrölt

Tempio di Vesta, Roma 2

Tempio di Vesta

Andspænis kirkjunni við torgið er hringlaga hof frá 2. öld f.Kr., ranglega kennt við Vestu, af því að það líkist Vestuhofinu á Rómartorgi, en er sennilega Herkúlesarhof. Þetta er elzta marmarahof, sem hefur varðveitzt í Róm, reist úr marmara, sem var fluttur inn frá Grikklandi.

Hringlaga kórinþusúlnariðið er frá tíma Tiberiusar keisara, sem lét gera hofið upp. Hofið varðveittist á hinum kristnu öldum, af því að það þjónaði þá sem kirkja.

Tempio di Fortuna Virilis, Roma

Tempio di Fortuna Virile

Tempio della Fortuna Virile

Við hlið Herkúlesarhofsins er annað hof í ágætu ástandi, að sögn tileinkað karlmannsgæfu, Fortuna Virilis, en upprunalega sennilega helgað árguðnum Portumnusi. Það er frá sama tíma, 2. öld f.Kr., er ferhyrnt í laginu og skartar gáruðum jóníusúlum. Þetta hof hefur einnig varðveitzt um aldirnar á þeim forsendum, að það þjónaði sem kirkja. Það er eitt hið bezt varðveitta í Róm.

Næstu skref

 

3. Miðbær syðri – Santa Maria in Cosmedin

Borgarrölt

Santa Maria in Cosmedin

Santa Maria in Cosmedin, Roma

Santa Maria in Cosmedin

Við göngum niður brekkuna eftir Via dei Circo Massimo og síðan Via Greca í beinu áframhaldi norður í átt til gamla miðbæjarins, niður á Piazza Bocca della Verità, alls 400 metra leið. Okkur á hægri hönd er kirkjan Santa Maria in Cosmedin, auðþekkjanleg á háum turni. Torgið nær nokkurn veginn yfir sa
ma svæði og Forum Boarium, hinn forni nautgripamarkaður Rómar. Norðan við hann upp með ánni var hinn forni Forum Holitorium, ávaxta- og grænmetismarkaður.

Kirkjuturninn hái er frá 12. öld, en sjálf kirkjan frá 6. öld, ein fegursta kirkja sem um getur í rómönskum stíl, látlaus og stílhrein. Eftir ýmsar breytingar fyrri alda var hún á 19. öld færð í upprunalegt horf.

Bocca della Verita, Roma

Bocca della Verita

Vinstra megin í kirkjuportinu er forn vatnsleiðsluskjöldur með ógnvekjandi andlitsmynd, Bocca della Verita. Á miðöldum var þeirri sögu hleypt af stokkunum, að höndin mundi klippast af hverjum þeim, sem segði ósatt, er hann stingi henni í skjaldarmunn. Af því draga skjöldurin og torgið nafn.

Milli kirkjuskipanna eru fagrar korinþusúlur úr marmara, stolnar úr fornum, rómverskum mannvirkjum. Glæsilegt gólfið er yngra, frá 12. öld.

Næstu skref

2. Miðbær syðri – Circo Massimo

Borgarrölt
Circus Maximum & Palatinum, Roma

Circo Massimo & Palatinum að baki

Circo Massimo

Þegar við komum út úr garðinum, beygjum við til vinstri Via di Santa Sabina og síðan í beinu framhaldi Valle Murcia, alls 500 metra leið, niður á Piazzale Romolo e Remo, þar sem er útsýni yfir Circus Maximus og handan hans til keisarahallanna fornu á Palatinum. Þessi forni veðhlaupavöllur er núna orðinn að grasi grónu útivistarsvæði með grasbrekkum og sýnir vel upprunalegt form vallarins.

Circus Maximus var stærsta veðhlaupabraut Rómar, fyrst 500 og síðan 600 metra löng og rúmaði 150.000 áhorfendur á tímum júlíönsku keisaranna, en 250.000 á tíma Trajanusar. Veðhlaupin voru aðallega stunduð á tví- og fereykjum og voru eitt helzta tómstundagaman Rómverja á keisaraöld.

Næstu skref

IceSave gengur aftur

Punktar

IceSave gekk aftur, þótt margoft hafi verið reynt að kveða það niður og lýst hafi verið yfir andláti þess. Lifir enn góðu lífi í 230 milljarða skuld nýja Landsbankans við hinn gamla. Seðlabankinn veitir ekki undanþágu til yfirfærslu gjaldeyris. Mundi kollvarpa gjaldeyrisbúskapnum. Stafar af, að ekki var samið um IceSave, heldur var málinu hleypt fyrir dómstól, er skildi þennan þátt eftir óleystan. Eignarhald pappíranna er komið í hendur hrægamma, sem vilja græða á bixinu. Fyrir bragðið er allt í baklás. Gjaldeyrishöftin blífa endalaust. Þau stórhækka vexti á lánum okkar erlendis og gera erlenda fjármögnun mjög erfiða.

Inn í merg og bein

Punktar

Væri nokkur töggur í þessum þrælagreyjum á útnáranum, væru þau búin að hópast niður á Lækjartorg og Austurvöll. Væru búin kasta út bófunum og leigja undir þá flugvél til Langtburtistan. En Íslendingar eru aumingjar inn í merg og bein og láta allan stuld yfir sig ganga. Tugir milljarða króna eru á hverju ári skafnir af þjóðartekjunum og faldir í Tortóla. Ríkisstjórnin ræðst á eftirlitsstofnanir og sveltir þær til dauða. Hún ræðst að Landspítalanum og hrekur bæði lækna og hjúkrunarkonur til útlanda. Við erum því miður undir stjórn siðblindra bófa. Og þið getið engum öðrum um kennt en ykkur ónýtu sjálfum. Svei ykkur Íslendingum.

16. Forna Róm – San Giovanni in Laterano

Borgarrölt

San Giovanni in Laterano, Roma

San Giovanni in Laterano

Hurðir úr Curia, Roma

Hurðir úr Curia, nú í San Giovanni in Laterano

Þegar við komum inn á Laterano-torg, verður fyrst fyrir okkur skírnhúsið, Battistero, á hægri hönd og Laterano-höll beint framundan, en á milli þeirra sést í hlið hinnar fornu kirkju, sem var höfuðkirkja páfastóls fyrir daga Péturskirkju. Til þess að komast að framhlið kirkjunnar, þurfum við að ganga umhverfis Laterano-höll.

Þessi kirkja var endastöð íslenzkra pílagríma sögualdar og Sturlungaaldar. Hingað komu Guðríður Þorbjarnardóttir og Sturla Sighvatsson til að fá aflausn synda sinna, því að hér var kirkja páfans í nærri þúsund ár, frá 314 og til útlegðarinnar í Avignon 1309.

Skírnhúsið er jafngamalt kirkjunni. Á 4. öld voru allir kristnir menn skírðir í því. Nokkrar breytingar voru gerðar á því á 5. öld og síðan aftur á 16.
öld.

Gamla páfahöllin er horfin, en í hennar stað er komin höll frá 1586. Hún er erkibiskupsstofa Rómar og ræður páfinn þar ríkjum, því að hann er jafnan einnig erkibiskup Rómar. Þótt San Giovanni sé ekki lengur höfuðkirkja kristninnar, er hún enn dómkirkja Rómar.

Fyrir framan erkibiskupshöllina er stærsti einsteinungur Rómar, frá 15. öld f.Kr., fluttur til Rómar á dögum Constantinusar II.

Þegar við komum fyrir hornið, blasir við voldug framhlið kirkjunnar og veldur strax vonbrigðum, þótt hún sé falleg. Því veldur, að hún er ekki forn, heldur í hlaðstíl frá 18. öld.

San Giovanni in Laterano, Roma 2

San Giovanni in Laterano

Upphaflega var þessi kirkja reist á vegum Constantinusar mikla, þá tileinkuð Kristi og ekki Jóhannesi skírara fyrr en síðar. Þetta var fimm skipa kirkja, sem fór illa í árásum villiþjóða á 5. öld, jarðskjálfta 896 og eldsvoða 1308. Ekkert er raunar talið standa eftir af hinni upprunalegu kirkju, nema einhverjir veggir og hlutar hinnar stóru steinfellumyndar í hvolfi kórbaks.

Innan við kirkjuportið sjáum við voldugar bronshurðir, sem rænt var frá fundarsal öldungaráðsins í hinni fornu Róm. Þar fyrir innan sjáum við hl
aðstílskirkju, hannaða af Borromini og byggða upp úr hinni gömlu kirkju 1646-1650, en þó með fyrra timburlofti frá 16. öld og steinfellumyndinni gömlu. Eitt helzta einkenni kirkjunnar eru risastór líkneski af postulunum tólf, hönnuð af lærisveinum Berninis.

Steinfellumyndin lifði af endurbyggingu á 5. öld og aðra á 13. öld, þegar Jacopo Torriti bætti í hana nýjum atriðum. Borromini lét hana í friði á 17. öld, en svo varð hún á 19. öld fyrir skemmdum, sem hafa síðan verið lagfærðar. Óljóst er, hve mikið af henni er upprunalegt.

Við Laterano-torg er ágætt veitingahús, Cannavota.  Þessari göngu er lokið.

Næstu skref