6. Miðbær syðri – Ponte Fabricio

Borgarrölt
Tibur-eyja & Ponte Fabricio

Tibur-eyja & Ponte Fabricio hægra megin

Árbakkinn við Forum Holitorum og Forum Boarium var höfnin í Róm fornaldar. Hingað sigldu skip með varning til Rómar. Svæðið frá Santa Maria in Cosmedin og hingað til San Nicola var hafnarhverfi Rómar, þétt skipað hofum af ýmsu tagi.

Í framhaldi af þessu kaupskipalægi var svo herskipalægi til norðurs upp með ánni. Við förum þá leið, sem liggur meðfram ánni að kirkjubaki, Lungotevere dei Pierleoni, 300 metra leið að brúnni yfir ána.

Ponte Fabricio

Ponte Fabricio er eina brúin á Tiburfljóti, sem hefur varðveitzt óbreytt frá fornöld. Hún var reist 62 f.Kr., á tíma Fabriciusar ræðismanns, og er því meira en 20 alda gömul. Hún tengir meginhluta borgarinnar við Tibureyju.

Breið boghöf hennar sýna, hversu djarfir og traustir rómverskir verkfræðingar fornaldar voru í burðarþolsfræðum og hve vel sum verk þeirra þola jarðskjálfta, flóð og styrjaldir.

Tibureyja er aðsetur munkareglu, Fatebenefratelli, sem fæst við hjúkrun í beinu framhaldi af, að þetta var eyja læknislistar í heiðnum sið. Þar sem nú er kirkjan San Bartolomeo, var áður hof Æsculapiusar, guðs læknislistarinnar. Byggingar eyjarinnar eru að mestu leyti sjúkrahús.

Næstu skref