12. Miðbær syðri – Monumento Vittorio Emanuele II

Borgarrölt

Monumento Vittorio Emanuele II, Roma

Monumento Vittorio Emanuele II

Við beinum nú athygli okkar að frægasta mannvirki 19. aldar í borginni, hinu konunglega minnismerki, sem blasir við Piazza Venezia, belgir sig út utan í Capitolum og skyggir rjómahvítt á rústir fornu Rómar. Þetta er hástig tertustílsgreinar sögustíls 19. aldar, teiknað 1884 af Giuseppi Sacconi, en varð ekki fullbyggt fyrr en 1922.

Fyrir miðju mannvirkinu er riddarastytta af Victor Emanuel II, sem var fyrsti konungur sameinaðrar Ítalíu. Fyrir framan styttuna er Þjóðaraltari Ítalíu, minnismerki óþekkta hermannsins.

Santa Maria d’Aracoeli

Við göngum hægra megin við minnismerkið og getum valið um að fara upp brattar tröppur vinstra megin að Santa Maria d’Aracoeli eða aflíðandi tröppur, Cordonata, hægra megin að Piazza del Campodoglio. Kirkjutröppurnar eru frá 1346, 122 að tölu. Efst úr þeim er gott útsýni yfir miðbæinn með hvolfþak Péturskirkju í bakgrunni. Kirkjustæðið var að fornu helgasti staður borgarinnar. Þar var borgarkastalinn, Arx, og hof Junos.

Santa Maria d’Aracoeli er frá 1250, búin gotneskum rósagluggum. Innan í henni er töluvert af listaverkum frá miðöldum, svo sem marmaragólf og steinkistur við innganginn, svo og freskur eftir Pinturicchio í kapellu hægra horns við innganginn. Mest helgi er á barnslíkneski, Santa Bambino í kapellu í vinstra þverskipi.

Næstu skref