7. Miðbær syðri – Teatro di Marcello

Borgarrölt
Teatro di Marcello, Roma

Teatro di Marcello

Teatro di Marcello

Þegar við höfum skoðað eyna, förum við til baka Ponte Fabricio og göngum milli San Nicola og Teatro di Marcello til áðurnefndrar götu, Via di Tetro di Marcello, þar sem við beygjum til vinstri meðfram Teatro di Marcello.

Smíði leikhúss Marcellusar hófst á dögum Cesars og var lokið 11 f.Kr. á stjórnarárum Augustusar, tileinkað systursyni hans. Af hinu upprunalega leikhúsi standa enn tvær hæðir súlnariða af þremur. Neðst er dórísk súlnaröð, þar ofan á jónísk, og talið er, að hin þriðja hafi verið kórinþsk. Talið er, að súlnariðin hafi verið fyrirmynd Colosseum.

Súlurnar, sem enn sjást, eru hluti af hálfhringlaga áhorfendasvæði leikhússins. Þetta var næststærsta leikhús Rómar, á eftir leikhúsi Pompeiusar á Marzvöllum, var 120 metrar í þvermál og rúmaði 20.000 áhorfendur. Hér voru leiksýningar, tónleikar, upplestur og ræðuhöld að fornu.

Rústum leikhússins var 1150 breytt í kastala og síðan í höll á 16. öld. Minjar þess má sjá ofan á súlnariðum leikhússins.

Framan við súlnarið Marcellusar sjáum við þrjár kórinþusúlur, sem eftir standa af frægu hofi Apollos, sem reist var 433-431 f.Kr. og endurnýjað 34 f.Kr. Hinn gríski guð var í metum hjá Rómverjum, einkum þegar leitað var ráða gegn sjúkdómum.

Portico d’Ottavia

Við förum framhjá hofi Apollos og beygjum til vinstri á Piazza di Campitelli, þar sem er kirkjan Santa Maria in Campitelli frá 1661, hlaðin súlnariðum að innan sem utan.

Á næstu gatnamótum, þar sem er veitingahúsið Vecchia Roma, beygjum við enn til vinstri í Via Tribuna di Campitelli og göngum þá götu og framhald hennar, Via di Sant’Angelo di Peschieria, alla leið til Via Portico d’Ottavia.

Hér sjáum við Octaviuport, leifar mikils mannvirkis, sem Caecilius Metellus lét reisa 146 f.Kr. Portið er hluti girðingar umhverfis tvö hof, helguð Juno og Jupiter.

Augustus keisari lét endurbæta mannvirkið 27-23 f.Kr. og tileinkaði Octaviu konu sinni. Severus keisari lét enn endurbæta það 203 og frá þeim tíma er portið, sem nú sést.

Í stað tveggja af súlum portsins var á miðöldum byggður múrsteinabogi til að halda portinu uppi og stingur hann mjög í stúf við hinn upprunalega hluta.

Næstu skref