D. Miðbær syðri – Santa Sabina

Borgarrölt, Róm

Santa Sabina, Roma

Santa Sabina

Við tökum leigubíl að Santa Sabina, sem er á útsýnisstað uppi á Aventino-hæð. Santa Sabina er frá 422, ein elzta byrðukirkja í Róm, haldið uppi af fögrum bogariðum kórinþusúlna. Þau eru fyrsta rómverska dæmið um, að hrein súlnarið leysi blönduð vegg- og súlnarið af hólmi, og má kirkjan því teljast fyrsta rómverska kirkjan í rómönskum stíl. Gáruðum marmarasúlunum hafði verið rænt úr rómversku hofi. Kirkjunni var breytt á 9., 13. og 16. öld, en eftir lagfæringar á 20. öld er hún orðin lík því, sem hún er talin hafa verið í upphafi.

Einna merkustu gripir kirkjunnar eru hinar upprunalegu, útskornu vesturdyr úr kýprusviði, sem sýna myndir úr ævi Móse og Jesú, þar á meðal ein elzta mynd, sem til er af krossfestingunni. Ofan við innganginn eru leifar upprunalegu steinfellumyndanna, sem áður náðu allan hringinn ofan við súlnariðin. Stóra steinfellumyndin í kórbakshvolfi er 16. aldar eftirlíking af upprunalegri mynd.

Frá garðinum við hlið kirkjunnar er útsýni yfir miðbæ Rómar og til Péturskirkju.

Næstu skref