Vill ekki vera leppur

Punktar

Isam al-Khafaji, prófessor í Amsterdam, skrifar grein í Guardian og skýrir, hvers vegna hann sagði sig úr ráðgjafanefnd Íraka, sem bandaríski hernámsstjórinn skipaði til að fegra hernám Íraks. Hann segist ekki hafa viljað vera leppur. Hann telur ráðgjafanefndina ekki hafa völd til að ráða við verkefnið. Hann furðar sig líka á, að mesta herveldi heims skuli ekki geta komið rafmagni á Bagdað og segir Saddam Hussein hafa staðið sig mun betur á því sviði eftir fyrra stríð Bandaríkjanna við Írak. Hann telur raunar algert öngþveiti ríkja í landinu.

Misgengi landsfeðra

Punktar

Gary Younge skrifar í Guardian um misjafnt gengi landsfeðranna George W. Bush og Tony Blair eftir stríðið gegn Írak. Hinn síðarnefndi riði til falls fyrir að hafa orðið uppvís að lygum til að afsaka stríðið, en hinn fyrrnefndi standi traustum fótum, þrátt fyrir uppljóstranirnar. Munurinn sé sá, að Bush þekki sitt heimafólk, en Blair hafi feilreiknað Breta.

Greenspan sagður sekur

Punktar

Paul Krugman segir í New York Times, að Alan Greenspan seðlabankastjóri eigi mikinn þátt í að koma ríkisfjármálum Bandaríkjanna á kaldan klaka með því að gera lítið úr alvarlegum afleiðingum fjármálastefnu núverandi ríkisstjórnar, sem hefur breytt rekstrarafgangi á ríkissjóði á valdaskeiði Clinton í stjarnfræðilegan taprekstur á valdaskeiði Bush.

Nýkomnir indjánar

Punktar

Genarannsóknir hafa leitt í ljós, að mannlíf í Ameríku er miklu nýrra af nálinni en áður var talið. Aðeins eru 18.000 ár síðan mannverur fóru frá Síberíu til Alaska á landbrú, sem þá náði um tíma yfir Beringssund. Áður var landnám Ameríku talið 30.000 ára gamalt. Þetta kemur fram í grein eftir Mark Seielstad og R. Spencer Wells í The American Journal of Human Genetics, sem sagt er frá í ýmsum dagblöðum, þar á meðal International Herald Tribune.

Frelsi frá hernámi

Punktar

Jonathan Steele, fréttaritari Guardian í Bagdað, segir, að þeir, sem ráðast á bandaríska og brezka setuliðið, séu ekki gamlir stuðningsmenn Saddam Hussein, heldur andstæðingar hans. Þeir, sem áður vildu losa Írak undan Saddam Hussein, vilja nú losa það undan hernámsliðinu. Talsmenn hernámsins hafa hins vegar logið því, að frelsissinnar Íraks séu á vegum Saddam Hussein.

Hvalir eru of fáir

Punktar

Nýjar genarannsóknir benda til, að áður fyrr hafi mörgum sinnum fleiri hvalir verið í Norður-Atlantshafi en hingað til hefur verið talið. Frá þessu segir í nýju tölublaði Science og mörgum erlendum dagblöðum. Þetta þýðir, að núverandi hvalastofnar eru aðeins lítið brot af eðlilegri stofnstærð. Hnúfubakar voru til dæmis um 240.000 talsins fyrir nútíma hvalveiðar, en eru nú um 10.000. Ennfremur segja dagblöðin þessa óvæntu niðurstöðu þýða, að Alþjóða hvalveiðiráðið muni ekki leyfa hvalveiðar að nýju í fyrirsjáanlegri framtíð. Sjáið t.d. frétt í Washington Post.

Hausar á spjótsoddi

Punktar

Mark Lawson minnir í Guardian á, að fyrir ótal mörgum öldum settu sigurvegar höfuð sigraðra óvina á spjótsodda til að sýna mátt sinn og megin og til að koma í veg fyrir þjóðsöguburð um, að þjóðhetjur séu enn á lífi. Þennan frumstæða sið hefur George W. Bush tekið upp að nýju með því að sýna myndir af líkum sona Saddam Hussein. Lawson nefnir ýmsar ástæður fyrir hausasýningunni og telur hana meðal annars sýna bræði forsetans út af því að hafa ekki haft hendur í hári Osama bin Laden og Saddam Hussein. Hann telur sýninguna einnig sýna, að Bush þurfi að sanna myndrænt, að óvinurinn sé dauður, af því að fólk sé hætt að trúa munnlegum fullyrðingum forsetans.

Skórinn hans Nikita

Punktar

William Taubman segir í International Herald Tribune, að óvíst sé, að Nikita Krústjov hafi lamið skó sínum í borðið á fundi hjá Sameinuðu þjóðunum 13. október 1960. Sjónvarpsupptökur fréttastofa frá atburðinum hafa glatazt og sjónarvottar muna atburðinn á misjafnan hátt. Flestir segja, að Krústjov hafi hrist skóinn út í loftið, en ekki lamið honum í borðið. Taubman upplýsir jafnframt, að þetta hafi verið inniskór. Hann segir málið vera gott dæmi um, hve erfitt sé að finna sagnfræðilegan sannleika.

Farinn á fjöll

Punktar

Nú verður gert hlé á pistlum, því að ég er að fara á fjöll, þar sem ekki er netsamband. Sennilega birtast næst pistlar 27. júlí.

Spillingin magnast

Punktar

Paul Krugman segir í New York Times, að George Tenet, forstjóri leyniþjónustunnar CIA hafi í ýmsum tilvikum reynst vikaliðugur við að segja spilltum ráðamönnum Bandaríkjanna það, sem þeir vildu heyra. Með loðnu orðalagi á skýrslum hafi hann gefið í skyn, að til séu nothæf gereyðingarvopn í Írak, að samband sé milli Íraks og al Kaída, að Írak hafi reynt að kaupa úran í Níger og að gæludýrið og svindlarinn Ahmad Chalabi hafi mikinn stuðning Íraka. Hann segir, að nú verði Tenet fórnað og fenginn annar enn spilltari, sem skáldi leynigögn eftir pöntun ríkisstjórnarinnar. Að mati Krugman er spilling hornsteinn núverandi stjórnkerfis Bandaríkjanna.

Kerfisbundin lygi

Punktar

Nicholas D. Kristof telur í New York Times, að Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, sé þungamiðja lygavefsins, sem stjórn Bandaríkjanna hefur spunnið til að selja bandarískum kjósendum stríð við Írak. Hann segist hafa upplýsingar um, að reynt að hafi verið að setja fleiri lygar á flot, meðal annars um samstarf Sýrlands og Íraks og um gereyðingarvopn á Kúbu, til að undirbúa árás á þessi lönd. Að mati Kristof eru ráðamenn Bandaríkjanna kerfisbundnir lygarar.

Demókratar fá málið

Punktar

Síðan George W. Bush Bandaríkjaforseti varð uppvís að lygum til að selja þjóðinni stríðið gegn Írak hafa forsetaefni demókrata loksins fengið málið og eru seint og um síðar farin að gagnrýna stríðið og hernámið. Frá þessu segir Adam Nagourney í New York Times.

Laug út sakborninginn

Punktar

Markmið gæzluvarðhalds er, að sakborningur geti ekki haft samráð við aðra og spillt rannsókn málsins. Bandaríski sakborningurinn í hnífstungumálinu gengur laus á Keflavíkurvelli. Svo virðist sem John Waickwicz aðmíráll á Keflavíkurvelli hafi logið sakborninginn úr höndum íslenzkrar réttvísi með dyggri aðstoð íslenzka utanríkisráðuneytisins. Mál þetta er orðið að meiri háttar niðurlægingu íslenzkra stjórnvalda, sem hafa gert Ísland að leppríki.

Valdalausir ráðgjafar

Punktar

Hafa verður í huga, að 25 manna ráðgjafarnefnd Íraks er ekki ríkisstjórn landsins, heldur ráðgefandi fyrir bandaríska hernámsstjórann, sem hafði sjálfur síðasta orðið um skipan ráðsins. Því er ekki við að búast, að þessi hópur afli sér mikils trausts íbúanna, sem almennt eru andvígir hernáminu. Deutsche Welle segir frá ummælum ýmissa blaða í Evrópu um málið.

Fals og fúsk

Punktar

Peter Preston segir í Guardian, að landsfeðurnir George W. Bush og Tony Blair hafi logið Íraksstríðinu upp á þjóðir sínar og hafi ekki grænan grun um, hvernig eigi að framkvæma áætlunina um að gera Írak að lýðræðisríki. Hann segir, að George Tenet, yfirmanni leyniþjónustunnar CIA, verði fórnað til að draga athyglina frá aðild Bush að fúskinu.