5146 Ég get það samt

5146

Ég get það samt

Þegar bardagar tapast
Gerðu ráð fyrir, að þú missir tökin á ferðinni til betra lífs.
Að þú lendir í tímabundnu ofáti.
Þú þarft því að kunna að mæta áföllum.
Þá er um að gera að gefast ekki upp.

Algengt er, að matarfíklar leggist niður við mótlætið og neiti að hífa sig upp.
Frekar skulum við átta okkur á, að áfall er enginn heimsendir.
Bara bakslag í sigurgöngu, einn bardagi í löngu stríði.
Ég bæti stundum á mig tveimur kílóum yfir jól og áramót.

En ég læt mér ekki fallast hugur.
Eftir áramót fer ég að ná þessu til baka, hægt og rólega.
Kílóin tvö fara í janúar og mér væri sama þótt það tæki febrúar líka.
* Ekkert liggur á.

Óskýr gata átfíkils
Alkóhólistar drekka eða drekka ekki.
Svo svarthvít er staða matarfíkla ekki.
Við verðum að borða.
Línurnar milli feigs og ófeigs í fráhaldi eru óskýrari í matarfíkn.

Farir þú út af sporinu, tekur við grátt svæði.
Fólk er ekki einu sinni sammála um, í hverju matarfíknin felist.
* Felst hún í ofáti eða síáti?
* Í viðbættum sykri og öðrum fíkniefnum?

Vafaatriðin gera fráhald erfiðara í matarfíkn, enda er þar meira um föll en í alkóhólisma.
* Átfíklar þurfa að venjast á að stíga aftur og aftur inn á slóðina, ef þeir fara út af.
Batinn þarf að fela í sér vörn gegn bakslagi án þess að láta hugfallast.

Ég get þetta samt
Ofætur hafa ekki sömu tilfinningu og alkóhólistar fyrir því, hvar þeir hafa farið út af sporinu.
Fíkniefnin eru alls staðar í umhverfi matarfíkla og árekstrar eru óumflýjanlegir.

Hættulegar hugsanir koma upp, þegar menn stíga af leiðinni.
Af gefnum tilefnum hættir matarfíklum ítrekað við að fara að líta á sig sem óhæfa einstaklinga, veikgeðja fallista.

* Skemmd sjálfsmynd stendur síðan í vegi fyrir endurnýjuðum aðgerðum í fráhaldi.
* Matarfíklar þurfa að byggja upp sjálfstraust.
Þeir þurfa að efla sjálfsmynd sína til að mæta erfiðleikum.
Þeir þurfa að trúa á sig, þegar þeir segja:
Ég get þetta.

Hömlur á bata
Fullkomnunarárátta dregur úr batalíkum, sömuleiðis hugsun í svart-hvítum myndum.
* Vertu sanngjarn við sjálfan þig.
* Og hugsaðu meira um sjálfan þig.

Of lítil áherzla á líkamlega og sálræna þætti batans dregur úr batalíkum.
Við þurfum að glíma við fullkomnunaráráttu, svart-hvítar myndir og muna eftir vinnu við líkamlegan og sálrænan vanda.

* Nauðsynlegt er líka að efla sam-neyti við annað fólk á batavegi til þess að fá þaðan styrk og samstöðu.
* Láttu ekki fundarsóknina koðna niður, slíkt er upphaf á vítahring.
* Í þessu þarftu ítrekað að muna, að vandinn felst ekki í, að þú sért veiklundaður fallisti.

Jafnvægi er sigur
Fyrir matarfíkil felst áfangasigur í að hætta að þyngjast.
Í upphafi baráttu þinnar gegn fíkninni er mikilvægt að setja þér ekki of ströng markmið.

* Ef þú getur í upphafi hindrað enn frekari þyngdaraukningu, er það sigur í sjálfu sér.
* Þótt þú takir þrjá mánuði í að halda sömu og óbreyttri þyngd, er það eigi að síður sigur, samfelldur sigur í níutíu daga.

* Líttu jákvæðum augum á breytta stöðu. Hættur að þyngjast, bravó.
* Þegar þú ert farinn að finna þig í þessari nýju stöðu, geturðu fært þig upp á skaftið og farið að létta þig.
* En bara lítið í einu, kíló á mánuði er meira en nóg.

Ég get
það
samt