5108 Vísindin og vogin

5108

Vísindin og vogin

Vísindin og reynslan
Vísindaleg þekking er nauðsynleg undirstaða baráttunnar gegn matarfíkn.
Við höfum gagn af upplýsingum um vandræði, sem fylgja henni, bæði fyrir okkur sjálf og samfélagið í heild.

* En vísindin nægja okkur ekki ein.
* Við þurfum að leita hjálpar út fyrir þekkingu.
Þar greinir milli mín og næringar-fræðinnar.
Hún getur aldrei fallizt á sumt af því, sem ég segi ykkur.

Ég byggi nefnilega ekki á fræðilegum samanburðarrannsóknum einum, heldur á persónulegri reynslu, sem ofætur hafa deilt með mér.
Sú reynsla er utan vísindanna eins og trúarbrögðin.
* Þú verður annað hvort að treysta reynslunni eða gera það ekki.

Að skilja eða skynja
Ég er fullur hroka. Tel mig hafa þekkingu og greind.
Hvorugt dugir mér samt í því verkefni að halda heilsu.
Eins og sumir fleiri þarf ég að daglega að glíma við vald, sem er utan og ofan þekkingar og greindar.

* Á þessu sviði geta fáfróðir og heimskir náð betri árangri en fróðir menn og greindir.
* Sigurinn í stríði við ofát vinnst nefnilega ekki með þekkingu og greind, ekki með skilningi, heldur með skynjun.
Með hugarró.

Við sigrum með nýrri skynjun, með breyttri persónu, sem lyftir okkur úr fyrra þrátefli.

Takmarkið næst með hugarró, eins konar nirvana, algeru hlutleysi gagnvart hvers konar fíkn.
Þar staðnæmumst við á leiðarenda.

Dagsveiflur á þyngd
* Þyngd er ágætur mælikvarði árangurs, þótt hún mæli afleiðingu en ekki orsök.
* Gættu samt dagsveiflna á þyngd, sem geta stafað af ýmsum ástæðum.
Tölur á vog segja ekki allt, ekki frekar en önnur vísindi.

* Vökvamagn líkamans getur breytzt af völdum lyfja eða matvæla.
* Hangikjötsát veldur til dæmis tímabundinni aukningu þyngdar, því að saltið í kjötinu festir vökva.
* Láttu dagsveiflur á voginni því ekki raska ró þinni.

Bezt er að mæla þyngd einu sinni í viku á föstum tíma við hliðstæðar aðstæður á sömu voginni.
Með þyngdarmælingu sérðu til langs tíma, hvort matardagbók þín og kaloríutalning er í samræmi við veruleikann.
Notaðu vogina til að laga kaloríu-markmið þín.

Vogin er varasöm
Gallinn við vogina er, að hún mælir bara afleiðingu. Markmið þitt er ekki að sigra afleiðingu, heldur orsakir. Ef þú einblínir á þetta mælitæki, lendirðu í svipuðum vandræðum og aðrir, sem gáfust upp á frægum matarkúrum.

* Láttu ekki líf þitt snúast um vigtina, þótt þú notir vog sem mælitæki.
* Hugsaðu meira un matardag-bókina og kaloríutalningu hennar, þótt þú notir vog til að kanna fylgni dagbókarinnar við veruleikann.
* Þjálfaðu þig í hugleiðslu.

Markmið þitt er að ná raunhæfum árangri, en ekki að falla í sömu, gömlu gryfju matarkúranna.
* Það er semsagt gott að vigta sig, en ekki of oft.
* Og ekki láta vigtina stjórna lífi þínu.

Uppákomur breyta þyngd
Í vor datt ég af hestbaki. Krambúleraðist og bólgnaði, tók inn verkjalyf og svefntöflur.
Þyngdist því um tvö kíló á einum degi.
Hefði farið á taugum, ef ég hefði verið á hefðbundnum matarkúr, þar sem vogin er í hásæti

Ég vissi hins vegar, að þetta var sveifla vegna óvæntra aðstæðna og mundi koðna niður smám saman.
Í annan tíma hef ég af ókunnum ástæðum þyngst um tæpt kíló á einum degi.
Það hvarf síðan á öðrum degi.

Kaloríutalningin gaf mér enga skýringu.
Þannig verðum við að gera ráð fyrir sveiflum á þyngd og ekki taka vogina of bókstaflega.
Meðaltöl margra mælinga eru oft betri en ein mæling.

Vogin er
varasöm