5101 Létta leiðin ljúfa

5101

Létta leiðin ljúfa

* Flas er ekki til fagnaðar.
* Þú verður ekki grannur til frambúðar með markvissu átaki.
* Tilraunir til öfgafulls mataræðis í hvelli eru dæmdar til að mistakast, verða jó-jó, niður og upp.

* Líkaminn mun mótmæla illri meðferð og sérstaklega mun hann bregðast hart við sulti.
* Í röð af fyrirlestrum mun ég skýra, hvernig létta leiðin ljúfa hentar betur en átak.
* Líttu á megrun sem langvinnt og notalegt verkefni.

* Settu þér ekki of stíf markmið. Betra er að ná smám saman tökum á vandanum. Þá muntu smám saman einnig öðlast þá hugarró, sem þú þarft að hafa til að viðhalda fengnum bata. Í pistlum þessum er stefnt að varanlegum bata. Og góðir hlutir gerast hægt.

Í nærri hálfa öld átti ég í varnarstríði við offitu vegna óhæfilegs dálætis á mat og óhæfilegrar neyzlu.
Komst í 100 kíló þrítugur, aftur í 100 kíló fimmtugur og hæst í 125 kíló hátt á sjötugsaldri.
Var í réttum holdum þess á milli.
Er nú blessunarlega bara 89 kíló.

Áður var ég tvisvar á kúr.
* Fyrst í 15 ár á Atkins. Virkaði vel, en var óhollur.
* Síðar í 10 ár í samfélagi óvirkra matarfíkla. Virkaði vel um tíma, en ég var ekki nógu vel andlega undirbúinn.
Á milli matar-kúra strögglaði ég óskipulega.

Nú hef ég fundið léttu leiðina ljúfu.
1. Grunnurinn er í kaloríutalningu og matardagbók.
2. Ofan á er þjálfun í hugarró og æðruleysi: Tólf spor, jóga, hugleiðsla eða trú o.s.frv.
Kaloríutalning er fín, en nægir yfirleitt ekki, því ofát og offita eru oft merki um illviðráðanlega fíkn.

Hvorki kúr né fæðubót
* Hér verða engar tillögur um brenglað mataræði eins og þær sem einkenna marga megrunarkúra.
* Sérviturt mataræði ruglar líkamann og getur líka verið hættulegt heilsunni.

* Hér verða heldur ekki neinar tillögur um notkun fæðubótarefna.
* Í bezta falli eru þau meinlaus og í versta falli skaðleg.
* Þú þarft yfirleitt engin slík efni, ef þú borðar ferskan og hollan mat.
* Ferskvara hefur öll efni, sem fólk þarf yfirleitt að nota.

* Fæðubót er þér einskis virði, þótt hún fylli hillur svonefndra heilsuverzlana.
* Hollusta fæst ekki úr dósum eða glösum eða pökkum sölumanna snákaolíu.
* Hér eru bara tillögur, sem fylgja hefðbundinni næringarfræði.

Brengluð kjörþyngd
* Hugmyndir fólks um kjörþyngd hafa brenglazt, einkum vegna áhrifa tízkuhúsa.
* Um langt árabil hefur verið vaxandi þrýstingur á, að fólk sé þvengmjótt.

Þetta er orðið að áráttu hjá mörgum, einkum ungum konum.
Áráttan er studd framleiðendum alls konar vöru og þjónustu, sem sögð er hjálpa þér við að grennast.
Við þurfum að breyta þessu brenglaða fegurðarmati.
* Einkum þurfum við að víkka hugtak kjörþyngdar.

* Við þurfum að berjast gegn því, sem kallað er offita, en taka léttar á því, sem kallast ofþyngd.
* Óhætt er að vera fimm til tíu kílóum yfir neðri mörkum ofþyngdar eins og hún hefur verið skilgreind.

Þeir, sem stríða við of mikla þyngd, þurfa að gæta sín á þremur atriðum.
* Hvað þeir borða,
* Hversu mikið þeir borða og
* Hvenær þeir borða.
Þeir þurfa að hafa kerfi á þessum þremur þáttum.

* Þú þarft að skilgreina mat, sem þú forðast.
* Þarft að kunna að hætta að borða, þegar þú ert byrjaður.
* Og þarft að skilgreina matmálstíma, aðgreinda frá öðrum tímum dagsins.
Sumir geta þetta á góðu skipulagi eingöngu, en aðrir þurfa aðstoð.

Aðstoðin miðar að breyttum og bættum lífsstíl, breyttum og bættum persónuleika.
Aðstoðin felur í sér nýtt líf.
* Markmiðið er að þurfa ekki lengur að ströggla.
* Komast á léttu leiðina ljúfu.

Megrun nær yfirleitt ekki árangri
Létta leiðin ljúfa nær árangri