5125 Atkins & Herbalife

5125

Atkins og Herbalife

Atkins Diet Revolution
Á áttunda áratug síðustu aldar var ég á vinsælum kúr, sem hét Dr. Atkins Diet Revolution.
Virkaði fyrir mig í 10-15 ár.
Bannaði neyzlu ákveðinna matvæla, einkum kolvetnisríkra, svo sem sykurs og hveitis.

* Leyfði hins vegar ótakmarkað át á öllu öðru.
* Það var auðvitað vinsælt, einkum að fólk mátti borða ótakmarkaða fitu.
* Staðreyndin var líka sú, að svengdin minnkaði, þegar fólk strikaði út sykur og hveiti, grænmeti og ávexti.

* En kúrinn var óhollur.
Ekki var hollt að borða svona mikla fitu og svona lítið kolvetni.
* Ég var ungur og lifði þetta af.
Var meira en áratug á þessum kúr.
* En leiddist að lokum út í ofát.

Fínu og fituríku árin
Ég á góðar minningar um Atkins-kúrinn.
Var fremur grannur þá.
Fór daglega á gamla Melavöllinn til að hlaupa þrjá-fjóra kílómetra.
Fór svo og keypti mér flatkökupakka og áleggspakka af hangikjöti og osti.

Hlóð þessu öllu saman og hafði fyrir hádegismat.
Í þá daga borðaði ég engan morgunmat og lét kaffið duga til hádegis.
Á kvöldin borðaði ég fisk eða kjöt og fór spart í kartöflur og grænmeti.

Auðvitað var þetta of fituríkt fæði og einkum þó of einhæft fæði.
En eiginlega dugði þessi kúr mér fram undir þau tímamót, að ég hætti að reykja.
Að vísu var hann farinn að bila á síðustu árum hans.

Dósir, glös og flöskur
Ég slapp við að fara á fleiri kúra.
Losnaði því lengi við að verða eins og jó-jó í vextinum, út og inn.
Slapp líka við Herbalife og aðra kúra, sem byggjast á dufti eða fæðubót upp úr dósum og krukkum.

Þegar ég fór að stunda líkamsrækt í tækjasölum, lenti ég í návist við aðila, sem hampa göldrum.
Hef samt ekki viljað hlusta á tillögur um að éta galdraduft úr dósum og galdrasafa úr flöskum.
Mér finnst þær vanta rökhyggju.

* Það er einföld og auðskiljanleg formúla, að allt er óhollt, sem kemur í stað venjulegra matvæla.
* Líkaminn er einfaldlega gerður fyrir hefðbundinn mat, en alls ekki fyrir nýmóðins safa, duft, sand, froðu, fars og hakk

Hollt en erfitt
* Steinaldarfæði er vitaskuld hollt, líklega hollara en annað fæði.
* Því fjær, sem maður kemst nútímanum, þeim mun betra.
* Það er einföld formúla, sem mikið er til í.

En erfitt er það fæði í framkvæmd, því að þá færi allt korn úr fæði þínu, öll hrísgrjón, allar kartöflur.
Mér finnst ótrúlegt, að allt þetta séu beinlínis fíkniefni, nema þá að það sé fínmalað eða fínvalsað úr verksmiðjum, sem eru miklu yngra fyrirbæri.

* Fyrir matarfíkla sé einfaldara að fara bara aftur fyrir verksmiðjutímann, ekki alla leið aftur fyrir innreið akuryrkju.
* En viljirðu ákveðið vera á steinaldarfæði, kemur það örugglega ekki í veg fyrir árangur.

Andlegur sjúkdómur
* Þessi röð fyrirlestra fjallar raunar ekki um matarkúr.
* Hún fjallar frekar um, hvernig sem flestir geti ráðið við offitu, þótt forsendur hennar séu misjafnar og vandinn misjafnlega stór..

Hún snýst um, að í hálfrar aldar stríði fann ég loksins aðferð til að tvinna saman þrjú meginatriði.
* Í fyrsta lagi nota ég læknis- og næringarfræði nútímans.
* Í öðru lagi nota ég aðferðir tólf spora kerfisins.
Aðrir geta notað jóga, hugleiðslu, trú, o.frv.

* Í þriðja lagi með því að líta á matarfíkn sem andlegan sjúkdóm, röng lífsviðhorf, ekki síður en sem líkamlegan og sálrænan sjúkdóm. Hún snýst um, hvernig ég loksins breytti persónu minni nógu mikið til að hindra matarfíkn í að leggja mig að velli.

Atkins og
Herbalife